Þoka

Kl.14:20

 

Þokan virtist þynnri í kringum Kristskirkju. Klukkurnar voru hættar að hringja en kirkjan var uppljómuð. Fjalar staldraði við eitt augnablik áður en hann gekk inn fyrir og virti fyrir sér bygginguna. Hann hafði ótal sinnum ekið framhjá henni án þess að gefa henni nokkurn gaum. Dökk kirkjan var í gotneskum stíl, gluggarnir langir og mjóir. Turninn reis kuldalegur upp í mistrið og það hefði ekki komið Fjalari á óvart ef hann hefði séð nokkrar grimmilegar ufsagrýlur kíkja út yfir þakskeggið. Einhverra hluta vegna virtust sumar kirkjur byggðar með þeim formerkjum að vekja upp ótta eða hræðslu meðal þeirra sem á þær horfðu. Eflaust var á því einföld skýring, eins og þær væru gerðar með þessum hætti til að halda djöflum frá, en Fjalar var ekki trúaður á þess háttar. Til þess var hann of jarðbundinn og hafði orðið fulloft vitni að því hversu vond og illgjörn mannskepnan gat verið. Nei, hann var viss um það væri ekki til Guð. Hann tók hvítan lögregluhattinn niður og steig inn fyrir.

Meðfram öllum bekkjum var búið að tendra á hvítum kertum og sátu nokkrar nunnur í fremstu sætisröðinni. Við altarið stóð aldraður maður ber að ofan, hann var engu að síður klæddur hempu en hafði flett efri hluta hennar yfir þann neðri. Á bringu hans voru fjölmörg sár og láku rauðir taumar úr þeim. Fjalar sá að nokkur sáranna voru í krossmynd, en önnur voru svo blóðug og djúp að erfitt var að greina lögun þeirra. Presturinn stóð og las upp úr þykkri, gullsleginni bók en Fjalar skildi ekki hvað hann var að segja. Hann benti lögreglumönnunum tveimur sem höfðu komið með honum að bíða. Sjálfur gekk hann hægt þangað sem nunnurnar sátu og fékk sér sæti. Ein þeirra leit til Fjalars, andlit hennar var þrútið og augun grátbólgin. Hann reyndi að hughreysta hana með blíðu brosi.

-Komdu sæl, voruð það þið sem hringduð á lögregluna, hvíslaði hann. Hún hristi höfuðið neitandi og bar hvítan klút upp að öðru auganu.

-Þær inni gera það, svaraði nunnan. Fjalar átti erfitt með að koma fyrir sig þykkum hreimnum. Áður en hann náði að spyrja aftur bar nunnan vísifingur upp að vörum sínum og benti síðan á prestinn. Fjalar kinkaði kolli og hallaði sér aftur í sætinu. Hann leit í kringum sig, þessi kirkja var ólík öllum öðrum kirkjum sem hann hafði komið inn í. Hún var hlaðin skrautmunum og myndum af Jesú, Maríu og öllum hinum dýrðlingunum sem hann kunni ekki að nefna. Þessi kirkja var mun líkari þeim sem hann hafði séð myndir af og hafði verið sagt að stæðu við Miðjarðarhafið. Kaþólski söfnuðurinn í Reykjavík var nokkuð stór miðað við aðra sértrúarsöfnuði og í honum var meðal annars Halldór Laxness, uppáhaldsrithöfundur Fjalars. Reyndar hafði nóbelsskáldið ekki náð að heilla hann með nýjustu bókum sínum, eins og hann gerði hér í eina tíð þegar Fjalar var ungur, sér í lagi eftir að hann skrifaði Kristnihaldsómyndina. Hann hrökk upp úr þessum hugleiðingum sínum um bókmenntir þegar nunnan við hlið hans sló létt á öxl hans og benti honum á að standa upp og fylgja sér. Síðan gekk hún sem leið lá fram í anddyri og hann elti. Á meðan þau gengu fram uppgötvaði Fjalar að presturinn var að lesa aftur upp sömu rullu og hann hafði heyrt er hann kom fyrst inn. Hann áminnti sjálfan sig að spyrja nunnuna út í þetta. Þegar þau voru komin út sneri hún sér að honum og sagði:

-Faðir Michael vera eitthvað veikur. Ég skilja ekki, hann vakna í morgun með svona sár og vilja ekki við gera neitt.

-Bíddu, vaknaði hann svona, spurði Fjalar. Með látbragði sýndi hann öðrum lögreglumannanna að hann ætti að skrifa niður frásögn konunnar. Sá flýtti sér að veiða upp litla svarta skrifblokk og penna.

-Já, og hann tala um vondur draumur. Lúsifer vera heimsækja hann í draumur.

-Vaknaði hann þá með þessi sár? Veistu hvort nokkur hafi veitt honum þau?

-Nei, hann bara vakna með þau.

-Hvers vegna var hann að hringja kirkjuklukkunum?

-Ég sjá hann bara hringja. Faðir Michael vilja ekki segja okkur, við bara sitja og hlusta á … revelation.

-Opinberunina, sagði annar lögregluþjónanna. Fjalar leit af konunni á manninn og setti í brýnnar.

-Er það sem hann er að lesa aftur og aftur þarna inni?

-Já, hann lesa um Babýlon.

-Og hvað er hann að segja um Babýlon?

-Ég sækja Biblíu, sagði hún og flýtti sér inn. Fjalar horfði á eftir henni. Ekki leið á löngu þar til hún kom aftur út og hélt á lítilli svarti bók. Hún fletti hratt og fimlega í gegnum hana, þar til hún kom að 18. kafla í Opinberunarbókinni. Fjalar tók við bókinni úr höndum nunnunnar og las.

-...fallin er Babýlon hin mikla og orðin að djöfla heimkynni og fangelsi alls konar óhreinna anda og fangelsi alls konar óhreinna og viðbjóðslegra fugla.

Lögreglumennirnir litu hvor á annan.

-...Vei, vei, borgin mikla, Babýlon, borgin volduga, á einni stundu kom dómur þinn.

Fjalar leit upp og horfði framan í nunnuna.

-Er hann að lesa þetta upp?

-Já, hann lesa allur kafli aftur og aftur.

-Ég sá að það lak enn úr sárum hans, þarf ekki að láta líta á þetta?

-Já, en hann vilja það ekki. Bara vilja standa í kirkju og lesa úr Biblía.

Fjalar sneri sér að lögreglumönnunum og sagði:

-Farið inn og náið í prestinn. Færið hann síðan upp á bráðamóttöku og látið líta á hann. Þú ert kannski til í að hjálpa þeim, spurði hann nunnuna, sem kinkaði kolli. Þegar þau voru öll farin inn hélt Fjalar áfram að lesa.

-Vei, vei, borgin mikla, sem allir þeir, er skip eiga á sjónum, auðguðust vegna auðæfa hennar. Á einni stundu var hún í eyði lögð.

Fjalar horfði á opna bókina í höndum sér.

-Er ekki eitthvað ljóð sem byrjar á svipaðan hátt, spurði hann sjálfan sig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Kvitt

Ómar Ingi, 18.8.2008 kl. 17:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband