Þoka

Kl. 13:15

 

Njörður stóð upp frá skrifborðinu. Hann sem á hæð sinni stendur. Hvað þýddi þetta? Þetta hlaut að tengjast Forn-Egyptum á einhvern hátt, en á hvaða hátt og hvernig hann gat komist að því. Eftir því sem hann best vissi var enginn af sagnfræðingunum upp í Háskóla vel menntaður í egypskum fræðum. En einhvers staðar er svarið að finna, þannig er það alltaf, sannfærði fræðimaðurinn sjálfan sig um. Hann gekk að bókaskápnum sínum, sem náði frá gólfi og upp í loft, horna á milli í herberginu. Njörður hafði safnað bókum svo lengi sem hann mundi eftir sér, faðir hans hafði verið mikill bókaunnandi og fékk Njörður safn Torfa að gjöf frá móður sinni þegar hann flutti suður. Bækurnar sem voru í skápnum voru þó aðeins þær bækur sem hann notaði og las hvað mest þegar hann var heima, þær sem hann þurfti í vinnunni geymdi hann á skrifstofu sinni í Háskólanum en aðrar geymdi hann í kössum niðri í geymslu. Hann renndi yfir bækurnar um sagnfræði, fyrir utan bókina eftir Faulkner voru ekki margar sem fjölluðu beint um Egyptaland. Hann mundi reyndar ekki hvernig hann hafði eignast þá bók eða hvenær, en einhverra hluta vegna hafði hún endað þarna upp í hillu og staðið þar óhreyfð í nokkur ár. Hann gekk fram í eldhús. Hann sem á hæð sinni stendur. Við hvern var átt? Á meðan hann velti þessu fyrir sér hellti Njörður upp á kaffi.

Skyndilega datt honum svolítið í hug. Hann hafði gleymt húðflúrinu. Skyldi bók Faulkners geta hjálpað honum þar? Hann dreif sig aftur inn í herbergið og dró fram myndina af húðflúrinu. Njörður fletti hratt í gegnum bókina uns hann hafði fundið svarið.

-Þetta gat ekki verið einfaldara, sagði hann stundarhátt við sjálfan sig. Hvers vegna datt mér þetta ekki í hug fyrr, hugsaði hann með sér um leið og hann skrifaði niður svarið.

 

np

 

Efra merkið stóð fyrir bókstafinn N en hið neðra fyrir P. En hvað merkti þetta? Nú þegar hann var loksins búinn að þýða bæði rúnirnar og húðflúrið, stóð hann frammi fyrir enn fleiri gátum. Hann sem á hæð sinni stendur og NP.

NP. Var þetta skammstöfun eða dæmi um orð þar sem búið var að henda í burt öllum sérhljóðum? Í raun voru möguleikarnir töluvert margir og það myndi taka langan tíma að vinna úr þeim og finna rétt svar. Ósjálfrátt skrifaði hann niður á blað möguleikana.

 

A E I O U

N

A E I O U

P

A E I O U

 

Það sem verra var að hann vissi ekki hvort það væri einn sérhljóði fyrir framan stafina eða tveir, hvort það var yfir höfuð sérhljóði fyrir aftan þá eða hvort stæði sérhljóði á milli þeirra. En eitt var víst, þeir hefðu verið látnir standa með orðinu ef þeir hefði verið merkingargreinandi. Hann starði á blaðið og reyndi að raða saman stöfum og fá út orð sem hann kannaðist við en til einskis. Hann var ekki vel að sér í máli Forn-Egypta, hafði í raun aldrei haft áhuga á að læra það enda var tungumál þeirra ekki skylt þeim indó-evrópsku. Njörður hafði lagt stund á latínu, hebresku, norrænu og forn-grísku, sá grunnur virtist honum ekki koma að miklu gagni nú. Hann tók blöðin saman og stakk ofan í töskuna sína.

Njörður fór aftur fram í eldhús, slökkti á kaffikönnunni og hellti svörtum vökvanum í hitabrúsa. Síðan klæddi hann sig í og fór út í bíl. Ekki leið á löngu þar til að hann var staddur við innganginn að Háskólabókasafninu í aðalbyggingu Háskólans.

-Ef ég finn ekki svarið hér, þá finn ég það ábyggilega aldrei, í það minnsta ekki hér á landi, sagði Njörður lágt við sjálfan sig. Bókasafnið hýsti yfir 300 þúsund titla og hlaut að eiga einhverjar bækur um egypsk fræði. Njörður heilsaði sköllóttum bókasafnverði kumpánlega og bað hann um aðstoð við að finna bækur í þessum efnisflokki. Að hálftíma liðnum settist hann niður með ágætan stafla af bókum fyrir framan sig. Hann fletti nokkuð hratt í gegnum þær fyrstu og sá fljótlega að þær myndu ekki koma að miklu gagni, því flestar fjölluðu almennt um menningu og sögu þessarar fornu þjóðar. Eftir um tveggja klukkutíma leit og lestur kom hann að bók sem hét The Egyptian Book of the Dead eftir E. A. Wallis Budge. Hann hafði heyrt um bók hinna dauðu en aldrei lesið hana, hann vissi að hún var rangnefnd bók hinna dauðu því Forn-Egyptar höfðu mjög ákveðnar hugmyndir um lífið eftir dauðann. Hún átti víst að innihalda ýmsa galdra sem egypskir prestar til forna notuðu til að undirbúa lík fyrir inngöngu þess í undirheimana, eða ríki hinna dauðu. Bókarkápan var gul og framan á henni var mynd af manni með höfuð svarts hunds.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Kvitt

Ómar Ingi, 14.8.2008 kl. 13:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband