Þoka

Kl. 11:00

 

Njörður nuddaði augun. Hann hafði verið vakandi alla nóttina og unnið við að ráða gátuna. Hvernig sem hann reyndi þá fékk hann ekki botn í þetta. Hann var búinn að raða öllum mögulegum sérhljóðum fyrir framan og aftan orðin án árangurs. Engu að síður var hann búinn að komast að því að þetta voru ekki latnesk, forn-grísk eða hebresk orð. Það var ágætt út af fyrir sig, því með þessu móti tókst honum að fækka möguleikunum. Útilokunaraðferðin var oftar en ekki eina leiðin til að finna hvaða tungumál átti í hlut. Hann stóð á fætur og gekk inn í eldhús. Það var töluvert síðan hann hafði hellt upp á, eflaust ekki síðan skömmu fyrir tvö og svartur drykkurinn var orðinn staðinn og kaldur. Hann settist við eldhúsborðið og horfði út. Þokan var þétt sem fyrr, þetta kynngimagnaða mistur sem birgði alla sýn. Fyrir utan heyrði hann í kirkjuklukkum, ósjálfrátt leitt Njörður á armbandsúr sitt. Hún var ekki nema ellefu. Hvers vegna ætli verið sé að hringja, spurði Njörður sjálfan sig.

Hann saup úr kaffibollanum og stóð á fætur. Hann geispaði og velti því fyrir sér hvort hann ætti að leggja sig. Sem betur fer átti hann ekki að kenna á föstudögum, reyndar var viðtalstími hans í hádeginu en nemendur Háskólans voru ótrúlega latir við að nýta sér hann. Oftast voru það einungis þeir sem voru að skrifa lokaritgerðirnar sínar sem heimsóttu hann. Njörður geispaði aftur og ákvað að kíkja í skólann, þó ekki væri nema til að vera við skyldi einhverjum útskriftarnemana detta í hug að banka upp á. Hann burstaði tennur í flýti og fór síðan út í bíl. Hann ók út á Miklubraut og þaðan að Háskólanum. Á meðan hann beið eftir því að komast inn á hringtorgið á gatnamótum Suðurgötu og Miklubrautar tók hann eftir litlum, móbrúnum, íslenskum hundi í taumi og eftir honum tölti gamall maður. Hundurinn var með sperrt eyru og frekar langt trýni, miðað við hundana fyrir vestan, og hann minnti Njörð á fornar, einvíðar myndir af egypskum hundum, eins og þær sem hann hafði svo oft séð á síðum sagnfræðihefta og –bóka sem fjölluðu um þetta merkilega land í Norður-Afríku. Njörður gat ekki varist brosi þegar hann sá hvernig hundurinn togaði þann gamla áfram, sem átti í stökustu vandræðum með að halda í við hundinn. Þegar Njörður var aftur lagður af stað og kominn inn á hringtorgið var sem það rynni upp fyrir honum ljós.

-Hvernig gat mér sést yfir þetta, sagði hann við sjálfan sig og barði með krepptum hnefa á stýrið. Hann fór heilan hring á torginu og hélt aftur tilbaka. Hann trommaði með fingrunum á gírstöngina. Hann ók nokkuð greitt heim til sín og var kominn þangað á skömmum tíma. Hann flýtti sér upp, tók tvær tröppur í hverju skrefi. Á stigapallinum fyrir neðan íbúðina sína mætti hann Halldóru, roskinni nágrannakonu sinni, þar sem hún var að vökva plönturnar í sameigninni.

-Mikið ertu að flýta þér, Njörður minn, sagði hún.

-Já, svaraði hann og reyndi að smeygja sér framhjá henni. En hún virtist ekkert á því að ætla að sleppa honum.

-Vissirðu að ungu hjónin á fyrstu hæð eru með kött?

-Nei, er það?

-Já, þau eru með grábröndóttan fresskött.

-Nei, veistu ...

-Ég veit ekki betur en það standi skýrum stöfum í húsreglunum að það sé bannað að vera með gæludýr. Þau hafa ekki bankað upp á hjá okkur og spurt okkur gömlu hjónin hvort okkur sé sama, eins og venja er til.

-Heyrðu, ég er ...

-Manstu hérna eftir honum Sigurði, hann átti heima uppi á efstu. Hann var bæði með hund og kött en hann var nú svo kurteis og almennilegur að banka upp á hjá okkur öllum og fá leyfi fyrir þeim. Það voru nú líka svo yndisleg dýr, alveg hreint unaðslega blíð og góð.

-Halldóra mín, ég er að flýta mér. Ég má bara ekki vera að þessu, sagði Njörður ákveðið og steig framhjá feitlaginni konunni. Hann leit yfir öxlina á sér þegar hann var kominn að dyrunum inn til sín og sá hvar hún hvarf niður stigann.

Hann klæddi sig ekki úr skónum heldur fór beint að bókahillunni inni á skrifstofunni, sem hann hafði búið sér í öðru herbergjanna. Hann dró fram litla bók sem hét: A Concise Dictionary of Middle Egyptian eftir Raymond O. Faulkner. Hann settist við skrifborðið og fletti upp í bókinni. Eftir um hálftíma var hann búinn að þýða setninguna:

 

Hann sem á hæð sinni stendur.

 

Hvað þýddi þetta? Var þetta enn ein gátan? Njörður horfði gáttaður á blaðið fyrir framan sig. Hann sem á hæð sinni stendur, um hvern var verið að tala? Njörður sat hugsi og varð ekki var við að síminn hringdi.

Hins vegar leit hann upp skömmu síðar þegar hann varð var við að kirkjuklukkurnar hringdu enn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

kvitt

Ómar Ingi, 11.8.2008 kl. 16:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband