Þoka

Kl. 02:10

 

Guðbjörg vaknaði. Hún var ekki viss en henni fannst eins og einhver hafi sagt nafn hennar. Hún leit í kringum sig en sá engan inni í myrku svefnherberginu. Hún fór á fætur, kveikti ljós og klæddi sig í sömu föt og hún hafði verið í daginn áður. Hún læddist fram í eldhús. Augu hennar stöldruðu við hilluna, þar sem hún geymdi allar kattastytturnar sínar; þeim hafði hún safnað frá barnsaldri; en þær veittu henni ekki þann frið sem þær gerðu venjulega og hún þráði nú, - frið til að sofa og komast í gegnum nóttina. En hver hafði sagt nafn hennar? Ætli einhver hafi kallað til hennar, einhver sem stæði fyrir utan? Var hana kannski bara að dreyma? Hún kíkti út um eldhúsgluggann en sá ekkert nema rauðan Volkswagen og steypt grindverk, sem var í kringum húsið. Þokan var enn þykk og hvíldi eins og dúnsæng yfir borginni, klæddi hana draumkenndri móðu. Hún lét gluggatjöldin falla aftur fyrir rúðuna og sneri sér við. Hvað hafði vakið hana? Hún leit á veggklukku sem hékk fyrir ofan dyrnar inni í eldhúsi, vísarnir sýndu að klukkan var ekki nema rúmlega tvö. Guðbjörg opnaði ísskápinn. Um leið og hún teygði sig eftir mjólk staldraði hún við. Þá fannst henni hún heyra kallað til sín aftur. Röddin kom að utan. Hver var þetta? Hún kannaðist við hana en það var samt eitthvað sem olli henni óþægindum, næstum ótta. Hún fór aftur að glugganum en kom ekki auga á neina hreyfingu. Hún reyndi að sannfæra sig um að þetta hlyti að hafa verið ofheyrn.

Hún opnaði ísskápinn á nýjan leik og tók fram mjólk, brauð, ost og smjör. Guðbjörg lét tvær sneiðar í brauðrist og hellti uppá kaffi. Þegar hún var sest niður og byrjuð að borða morgunmatinn heyrði hún kallað aftur. Eins og hvísl sem berst með hægri golu, nafn hennar sagt ískaldri karlmannsrödd, - röddu Gríms en samt einhvern veginn breytt. En þetta var rödd hans, hún var handviss um það. Hún hafði heyrt hann svo oft segja nafn hennar. Samt var hún einhvern veginn breytt, óþægilegur undirtónn, eins og bergmál í grafhýsi, fékk hjarta hennar til að hægja á sér og um stund fannst henni eins og tími stæði í stað. Ósjálfrátt stóð hún á fætur. Hvað var eiginlega að gerast? Enn heyrði hún kallað á sig. Skyldi Grímur vera fyrir utan? Eða var þetta bara ímyndun hennar?

Áður en hún vissi af var hún komin út á inniskónum. Hún leit í kringum sig og kallaði:

-Grímur, ertu þarna? Grímur?

Í fyrstu fékk hún ekkert svar. Hún var komin hálfa leið inn þegar röddin barst henni aftur. Guðbjörg sneri sér við og hljóp út á götuna. Hvar var Grímur? Hún heyrði í honum en sá hann hvergi. Guðbjörg starði út í þokuna. Allt í einu fannst henni hún sjá móta fyrir hreyfingu, skuggamynd sem líktist Grími. Gat virkilega verið að hann væri þarna? Hún flýtti sér þangað sem hún sá móta fyrir Grími, en hann var þar ekki. Hún snerist í hringi og kallaði nafn hans út í næturmistrið. Enn heyrði hún hann kalla nafn sitt. Guðbjörg hljóp aftur af stað.

Áður en hún vissi af stóð hún niðri við höfn. Hún hafði gengið alla þessa leið án þess að gefa því nokkurn gaum, aðeins hugsað um að finna Grím. Fyrir framan hana lá skipið bundið við bryggjuna. Það var eins og svart auga sem fylgdist með henni, sogaði hana til sín. Eins og blóðsuga sem nærist á blóði fórnarlambs síns virtist skipið drekka í sig nærveru hennar, það reis og hneig tignarlega í takt við hraðan andardrátt hennar og hún var sannfærð um að skipið vissi af henni. Hún starði hugfangin á þennan undarlega hlut, sem hafði skotið upp kollinum án þess að nokkur kynni á því einhverja skýringu. Það var eitthvað við skipið sem fangaði athyglina, eitthvað spennandi, eitthvað sem var dró hana til sín þrátt fyrir ömurleika sinn. Kannski var það einmitt það, kannski var það þetta hrörlega útlit sem heillaði hana og dró vitund hennar í sig, eins og svarthol í vitund hennar. Guðbjörgu fannst sem hún væri þegar komin um borð, væri djúpt í myrkum lestum þess, samt stóð hún við einn bryggjulallann. Hún heyrði rödd Gríms kalla til sín neðan úr skipinu, hann var svo nálægt, - hann var svo raunverulegur.

Guðbjörg gekk dreymin á svip og með undarlegt bros á vör að landganginum. Lögreglubíll stóð þar en maðurinn sem átti að gæta skipsins sat sofandi inni í bifreiðinni. Hún strauk fingrum varfærnislega eftir bílrúðunni þar sem hann svaf en hélt síðan áfram. Hún fór sér í engu óðslega. Hún var viss um að Grímur biði hennar um borð, - og hann biði aðeins eftir henni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

kvitt kvitt

Ómar Ingi, 13.7.2008 kl. 14:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband