Þoka

27. janúar

 

Kl. 01:45

 

Klukkan í mælaborði bifreið Fjalars sýndi  01:45. Fyrir utan var almyrkt og þoka svo þykk að hann sá vart á milli ljósastaura. Honum leið sumpart eins og hann væri að keyra um Hellisheiði síðla hausts, þegar skýin eru svo þétt og þung að þau leggjast á heiðina og sama hversu rýnt er, þá sést ekki nema örfáa metra fram fyrir bílinn. Fjalar var einn á ferð, hann kom hvergi auga á bíl eða annað fólk. Hann ók varlega áfram og fylgdist grannt með veginum. Hann hallaði sér fram á stýrið, honum fannst hann sjá betur út þannig.

Fjalar óskaði þess að vera kominn heim og lagstur upp í rúm, ónotaleg kennd fór um hann er hann ók auðar göturnar. Ekki ósvipuð þeirri sem hann fann þegar hann kom fyrst um borð í skipið, einhver yfirgnæfandi tilfinning um að einhver væri að fylgjast með honum. Þrúgandi höfuðverkur greip hann, eins og það brynni eldur í huga hans og eirði engu. Þrátt fyrir þokuna og auðu göturnar fannst honum hann ekki vera einn, - Fjalar vissi að hann var ekki einn. Hann trúði hvorki á drauga né afturgöngur, fyrir honum heyrðu slíkar verur til þjóðsagna. En það var samt eitthvað, - eitthvað þarna úti sem hann kom ekki auga á en fann fyrir. Kannski var það bara frásögn Védísar sem fékk hárin til að rísa. En samt var það eitthvað annað, einhvers konar ónáttúruleg spenna. Eins og sú sem hleðst upp skömmu fyrir óveður, spenna sem er áþreifanleg og minnir á þá hættu sem steðjar að.

Skyndilega snarhemlaði Fjalar. Á veginum sat gulleitur hundur og horfði á hann. Hann var smávaxinn, með sperrt eyru og langt nef, sat grafkyrr og fylgdist með bíl Fjalars færast nær. Hann reyndi eins og hann gat að komast hjá því að lenda á hundinum. Honum fannst bíllinn vera mjög lengi að nema staðar þrátt fyrir að hann hafi ekki verið á mikilli ferð. Hundurinn færði sig ekki fet. Bíllinn stoppaði skammt frá honum. Fjalar starði fram fyrir sig. Hvers vegna færði hann sig ekki? Hvað var að honum? Fjalar ætlaði að stíga út úr bílnum þegar hundurinn stóð á fætur. Um stund horfðust þeir í augu. Fjalari fannst sem hundurinn væri ekki að horfa á sig, heldur inn í sig, næstum í gegnum sig, eins og eitthvað væri fyrir aftan hann. Ásjóna hans gróf sig djúpt í vitund hans og það var eitthvað undarlegt og óþægilegt við það. Eins og hundurinn þekkti hann, jafnvel betur en hann sjálfur gerði. Ósjálfrátt læsti Fjalar að sér. Um leið tók hann eftir að það hafði drepist á bílnum. Hundurinn gekk rólega í kringum hann. Fjalar fylgdist með dýrinu í speglunum þar til það hvarf aftur fyrir bílinn. Síðan sá hann hundinn koma fram eftir bílnum hans megin. Hann stóð upp á afturfæturna og hallaði sér að bílrúðunni hjá Fjalari. Hann gat ekki gert annað en horft á móti. Augnaráðið var í senn seiðandi og hættulegt, það dró til sín vitund Fjalars og hann fann hvernig allir vöðvar í líkama sínum stífnuðu upp. Hann reyndi að bera hönd fyrir augu sín en gat það ekki. Greipar hans voru læstar um handfangið á hurðinni annars vegar og hins vegar á gírstönginni. Hundurinn hallaði sér að rúðunni og Fjalar var viss um að hann hafi séð rauðan glampa í augum hans.  

Eftir drykklanga stund steig hundurinn niður og hvarf út í þokuna. Er Fjalar horfði á eftir honum fannst honum eins og hundurinn rynni saman við mistrið. Þrátt fyrir að hann væri horfinn Fjalari sýnum fannst honum eins og ásjóna hans hvíldi enn á sér. Eins og hann væri allt í kringum sig, líkt og þokan sjálf.  Hvert sem hann leit fannst Fjalari sem hann sæi hundinum bregða fyrir út undan sér.  Að lokum lét Fjalar ennið hvíla á stýrinu og varpaði öndu léttar.

-Ég hlýt að vera missa vitið, sagði hann og hló að sjálfum sér. Samt var honum langt frá því að vera hlátur í huga. Hann nuddaði á sér gagnaugun í von um að losna við ímynd hundsins úr kollinu og eins til að losa aðeins um höfuðverkinn, sem skall aftur á með fullum þunga nú er hundurinn var horfinn á brott.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband