Kl. 16:05
Þegar Guðbjörg var farin í fylgd tveggja lögreglumanna litu mennirnir hvor á annan. Eftir að hún hafði sagt þeim frá sambandi þeirra Gríms fór Fjalar fram á að hún færi heim og legði sig, hún var augljóslega mjög taugastrekkt og úrvinda. Það virtist hafa tekið á hana að ræða um þessi mál við þá og bauðst Fjalar til að útvega henni far heim.
-Ja, hérna, sagði hann og andvarpaði.
-Skelfilegt að lenda í svona löguðu. Ég finn virkilega til með henni. Að sitja svona og hlusta á hana, þetta minnti mig um margt á dagana skömmu eftir að mamma lést.
Fjalar leit á Njörð og kinkaði kolli. Hann klóraði sér á hausnum og saup úr bollanum. Aumingja Guðbjörg, hugsaði hann með sér. Það hlyti að vera erfitt að lenda í þessari aðstöðu, vilja helst syrgja Grím en mega það ekki, þurfa að gæta að fjölskyldu hans, því samband þeirra var forboðið og eitthvað sem enginn mátti vita um. Hún gat ekki einu sinni fylgt honum til grafar. Enda brotnaði hún algerlega niður hjá þeim, trúði mönnunum tveimur fyrir ótrúlega miklu þrátt fyrir að þekkja hvorugan þeirra vel. Hann fann til með Guðbjörgu, sorg hennar var mikil og aðstæður erfiðar. Fjalar benti á segulbandstækið og spurði:
-Kláraðirðu að hlusta sá spóluna?
-Nei.
-Gerðu það. Ég þarf aðeins að skreppa aftur fram.
Þegar Fjalar sneri aftur stóð Njörður við gluggann og starði út. Hann virtist ekki hafa tekið eftir að dyrnar að skrifstofunni opnuðust.
-Jæja, sagði Fjalar. Hann sá að Njörður kipptist við.
-Hvað finnst þér?
-Hreint ótrúlegt.
-Já, þar get ég verið sammála þér. En var hún ekki að lýsa nákvæmlega því sem þú varst að tala um? Varúlfi?
Það kom smá hik á Njörð.
-Já og nei. Varúlfur er samkvæmt goðsögninni maður sem getur skipt um ham og breytt sér í úlf. Oft er það tengt fullu tungli, þá neyðist varúlfurinn til að fara út og skipta um form. Í sumum sögnum getur varúlfurinn farið í einhvers konar hálfform, það er haldið ákveðnum eiginleikum beggja forma, til dæmis gengið á afturfótunum. Það sem mér finnst undarlegt við frásögn eiginkonu Gríms er þetta með fálmarana. Ég hef hvergi heyrt um slíkt. Hefur hún ekki bara fengið svo slæmt áfall að hún hefur búið sér til eitthvað? Mér finnst þetta með öllu svo fáránlegt að ég veit ekki hvað ég skal halda. Auk þess var ekki fullt tungl í nótt og samkvæmt goðsögninni þá skipta varúlfar eingöngu um ham þá.
-Já, ég skil hvað þú átt við, svaraði Fjalar og settist við skrifborðið.
-En svo við snúum okkur að öðru. Þú varst með einhverjar fréttir handa mér, ekki satt? Ertu búinn að ráða hvað þessa rúnir merkja, spurði Fjalar.
-Já, alveg rétt, sagði Njörður og opnaði töskuna sína. Hann tók upp úr henni skrifblokkina sína, myndirnar og bók Agrippa.
-Sjáðu nú til, ég sat inni á Landsbókasafni og reyndi að ráða í þetta en það gekk alveg skelfilega illa. Enda engin furða, þar sem að rúnirnar sneru öfugt. Þetta voru náttúrlega alger byrjendamistök hjá mér að sjá ekki í gegnum þetta strax, enda tíðkaðist þess háttar fyrr á öldum. Þegar ég uppgötvaði þetta sá ég fljótlega að um þebískar rúnir var að ræða. Þess lags letur hefur verið þekkt meðal galdramanna og norna í gegnum aldirnar.
Njörður opnaði rit Agrippa.
-Hér er að finna lykil að þessum rúnum. Sjáðu hérna, sagði hann og benti á hvar rúnirnar stóðu. Fjalar gaf Nirði merki um að halda áfram með höndinni.
-Ég hef ekki mikinn áhuga á þessu fræðilega dóti í kringum þetta. Ég vil hins vegar fá að vita hvað stendur þarna og hvað það merkir.
Njörður lokaði bókinni.
-Samkvæmt þeim lykli sem hér er að finna, sagði hann og benti á lokaðan doðrantinn á borðinu, -þá stóð á veggnum heima hjá Leifi: Tep tv f.
-Tep tv f?
-Já.
-Og hvað merkir það?
-Ég veit það ekki ennþá, en ég ætla mér að komast að því.
Fjalar tók fram skýrsluna um morðið á Grími fram. Hann fann miðann sem fannst heima hjá dýrafræðinginum og rétti Nirði.
-Tep tú fha, sagði Njörður og starði á miðann.
-Hjálpar þetta eitthvað?
-Hvar fannst þetta?
-Heima hjá Grími. Konan hans er viss um að hann hafi sjálfur skrifað þetta. Svo fundust svona rúnir, sagði Fjalar og benti á opna bókina, -ristar í rúðu stofagluggans þar sem Grímur fannst. Ég lét bera þær saman við myndina af þeim sem fundust hjá Leifi. Þær voru alveg eins.
-Ja, v er stundum ritað í stað u í þebísku, rétt eins og í gömlu handritunum okkar, sagði Njörður hugsi.
-Hvað?
-Ég er bara að hugsa upphátt. Ef Grímur skrifaði þetta, gæti hann þá ekki hafa heyrt einhvern segja þetta? Hann skrifar setninguna niður eins og hann heyrði hana borna fram, eða það myndi ég ætla. Það þýðir að sá sem skrifaði rúnirnar sleppir þeim sérhljóðum sem eru ekki merkingarbærir, sagði Njörður. Hann greip bókina af borðinu og skrifblokkina sína, lét hvort tveggja aftur ofan í töskuna og stóð á fætur.
-Merkingarbærir?
-Ég verð að fara á bókasafnið.
Síðan var hann rokinn út um dyrnar. Fjalar horfði undrandi á eftir honum.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 753
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kvitt
Ómar Ingi, 9.7.2008 kl. 22:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.