Þoka

Kl. 14:50

 

Um leið og Fjalar steig út um dyrnar mættu honum Jóhanna og Guðbjörg. Jóhanna átti í fullu fangi með að halda aftur af Guðbjörgu því henni virtist mikið niðri fyrir. Hún var æst, hrinti Jóhönnu frá sér og krafðist þess að fá að tala við Fjalar.

-Ég vil fá að vita hvað gerðist, sagði Guðbjörg. Fjalar benti Jóhönnu á að fara en sjálfur settist hann niður á eitt skrifborð. Hann krosslagði handleggina og horfði þögull á Guðbjörgu. Hún var rauðeygð og í kinnum hennar voru rauðir dílar.

-Hvernig hvað gerðist, spurði hann og reyndi að hljóma eins yfirvegaður og hann gat.

-Hvernig Grímur...

Rödd hennar brast og Guðbjörg leit niður á tær sér. Fjalar fylgdist með henni og velti fyrir sér hvers vegna hún tæki dauða Gríms svo nærri sér. Ætli þau hafi þekkst, spurði hann sjálfan sig. Skyndilega röðuðust brotin saman í huga hans og myndin varð skýrari. Guðbjörg var fréttakvendið sem Védís talaði um á hljóðsnældunni! Hvers vegna uppgötvaði hann þetta ekki fyrr? Þau Grímur höfðu átt í ástarsambandi.

Fjalar stóð á fætur og tók um axlir Guðbjargar. Hann opnaði dyrnar að skrifstofu sinni og bauð henni að stíga inn fyrir. Njörður leit upp og köld birtan frá loftljósinu bjó til skugga undir augum hans. Hann slökkti á segulbandinu.

-Fáðu þér sæti og reyndu að slappa af. Ég skal láta sækja eitthvað heitt handa okkur að drekka, sagði Fjalar. Þegar hún var sest kallaði hann á Jóhönnu og bað hana um að útvega sér kaffi og nokkra bolla.

-Ég trúi þessu ekki, sagði Guðbjörg þegar Jóhanna var farin. Mennirnir tveir litu hvor á annan en sögðu ekki neitt.

-Einhvern veginn var þetta allt svo ótrúlegt, eins og í draumi. Nú er eins og ég hafi vaknað upp af slæmum draumi og komist að hann væri raunverulegur. Hvað er eiginlega að gerast? Hvers vegna Grímur?

-Ég veit það ekki, svaraði Fjalar.

-Ég meina, var sá sami að verki og myrti hina tvo? Hvers vegna Grímur, spurði Guðbjörg klökk.

Í sömu mund kom Jóhanna með kaffið. Hún hélt á bollum í annarri hendi en könnu í hinni og lagði allt saman á borðið. Guðbjörg notaði tækifærið og náði í bréfþurrku úr töskunni sinni. Á meðan hellti Fjalar kaffi í þrjá bolla. Njörður tók tvo þeirra og rétti Guðbjörgu annan. Um leið og Jóhanna var aftur horfin út um dyrnar sagði Fjalar:

-Ég veit svo sem ekki hvernig þetta tengist allt saman. Eini þráðurinn sem liggur á milli allra mannanna er skipið.

-Skipið!? Af því þeir höfðu allir verið um borð, ekki satt, spurði Guðbjörg.

Fjalar gaut augum að segulbandstækinu. Njörður gerði slíkt hið sama. En hvorugur sagði nokkuð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Kvitt

Ómar Ingi, 7.7.2008 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband