Kl. 14:35
Njörður brosti til afgreiðslustúlkunnar og bað hana um að láta Fjalar vita að hann væri kominn. Hann hafði verið fljótur að taka saman kennslugögn sín eftir fornmálstímann í Háskólanum. Hann hljóp við fót út í bíl og ók sem leið lá niður á lögreglustöðina í Hverfisgötu. Ákveðinnar eftirvæntingar gætti hjá honum, hann hafði vart getað sofið, þessa gáta sótti svo á hann. Njörður var handviss um hann gæti leyst hana, þetta var bara spurning um tíma. Hann var kominn á sporið, hann fann það og var sumpart stoltur að því.
Hún stóð á fætur, gekk að skrifstofu Fjalars og bankaði laust á hurðina. Eftir örskamma stund benti hún Nirði á að hann mætti fara inn til Fjalars. Hann þakkaði stúlkunni fyrir. Fyrir alla glugga var dregið inni hjá Fjalari og engin ljós kveikt. Þó var ekki almyrkt þar inni, því grá birta lak inn á milli gluggatjaldanna og undir þau. Hann sat í stólnum sínum með segulbandstæki á skrifborðinu fyrir framan sig, eitt stundarkorn fannst Nirði sem Fjalar væri ekki annað en skuggamynd sjálfs síns, fölur og virtist orkulítill. Hann stóð seint á fætur og tók í útrétta hönd Njarðar, Fjalar bauð honum sæti um leið og hann kveikti ljósin.
-Ég heyrði fréttirnar í morgun, - hræðilegt. Hvenær ætli þessu ljúki, sagði Njörður.
-Ég veit það ekki. Hreinlega skil hvorki upp né niður í þessu, svaraði Fjalar og í rödd hans var uppgjafartónn.
-Þú hefur ekki komist að því hver var myrtur í morgun, er það nokkuð? Það hefur ekki verið tilkynnt á kaffistofunni þarna niðri í Háskóla, bætti hann við.
-Á kaffistofunni? Nei, það er reyndar ekki nein sérstök kaffistofa þar sem allir kennarar hittast, enda skólinn í nokkrum húsum.
-Er það, já? Hvernig ætti ég svo sem að vita það? Hef aldrei komið þarna inn.
-En hver var það?
-Viltu fá að vita það? Það má ekki fara lengra, í það minnsta ekki strax. Ekki einu sinni fréttastofurnar hafa fengið nafnið staðfest. Er það skilið?
-Já.
-Grímur Pálsson, líffræðingur.
-Hvað? Ég trúi þér ekki.
-Ég held nú að þeim bita í þessari fáránlegu sögu sé hvað auðveldast að kyngja, sagði Fjalar, dæsti og hristi höfuðið.
-Er Grímur dáinn? Af hverju hann?
-Ég veit það ekki, satt best að segja. Mig grunar að það tengist þessu skipi, en mér finnst það einhvern veginn svo ótrúlegt. Ég á hreinlega í vandræðum með að fella mig við það.
-Hvað áttu við?
-Sjáðu nú til, það sem ég ætla að segja þér núna má alls ekki fara lengra, er það skilið?
Njörður kinkaði kolli.
-Fyrst Ámundi, síðan Leifur. Báðir voru þeir um borð í skipinu á meðan það var dregið til hafnar. Þegar því var komið í okkar hendur fór ég um borð ásamt manni frá rannsóknarlögreglunni. Ég lét kalla til lækni annars vegar og Grím hins vegar. Ragnar Guðmundsson, læknirinn, framdi sjálfsmorð í nótt og Grímur var myrtur. Sá sem kom frá rannsóknarlögreglunni fékk taugaáfall eftir að hann fann líkið af Leifi. Af þeim sem hafa eytt einhverjum tíma um borð er aðeins ég og þeir hjá tæknideildinni einir eftir sem erum heilir á geði og líkama, - svona meira eða minna.
-Ég skil.
-Ég veit þetta hljómar eins og skáldsaga, en þetta eru staðreyndir. En sagan er ekki öll sögð.
-Nú?
-Þegar ég var að hlusta á þetta, sagði Fjalar og benti á tækið, -varð mér hugsað til þín og þess sem þú sagðir hérna í fyrradag. Þetta um varúlfa.
Fjalar spólaði tilbaka og kveikti aftur á segulbandinu. Hann stóð síðan á fætur og sagði:
-Hlustaðu á þetta. Ég ætla að ná mér í kaffi. Má bjóða þér?
Njörður hallaði sér fram og hlustaði á frásögn Védísar.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 753
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kvitt
Ómar Ingi, 6.7.2008 kl. 19:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.