Kl. 14:10
Fjalar tók á ný upp spóluna og horfði á hana um stund. Á ég að hlusta á hana? Hann reyndi að finna einhverja ástæðu til að komast hjá því, en hann vissi sem var að fyrr eða síðar þyrfti hann að hlýða á eða komast að með einum eða öðrum hætti hvað var á henni. Líklegast var best að hlusta á spóluna strax og ljúka því af. Illu er víst best aflokið, sagði hann við sjálfan sig og teygði sig í lítið og gamalt segulbandstæki, sem hann geymdi alltaf í gluggakistunni. Hann lét spóluna í tækið og ýtti á PLAY. Rödd Védísar var svolítið eintóna en samt ekki eins og við mátti búast, hann hafði yfirheyrt margt fólk eftir viðlíka lífsreynslu og tveir áratugir við lögreglustörf höfðu kennt Fjalari að eiginkona Gríms hafði líklega fengið dágott taugaáfall.
-Ég vaknaði. Veit eiginlega ekki af hverju, því allt var hljótt. Kannski var það þess vegna. Ég er orðin svo vön umferðarniði, bílflautum og hrotum. En allt var hljótt. Svo undarlega hljótt. Eins og í draumi. Og kalt, það var jökulkalt. Ég man, að vatnsglasið mitt, það sem ég hef ávallt á svefnborðinu við hlið rúmsins, vatnið í því, það var komin vök í það efst í glasinu. Það var svo kalt. Og hljótt. Kalt og hljótt.
Hér kom stundarþögn á bandinu og mátti heyra dyr opnar. Síðan var eitthvað lagt á borð, eflaust kaffibolli ályktaði Fjalar og eitthvað sagt lágri röddu en hann greindi ekki hvað.
-Ég fór fram úr og klæddi mig í sloppinn sem Grímur gaf mér í jólagjöf í fyrra. Mér fannst svo undarlegt að ganga, teppið var öðruvísi viðkomu. Það brakaði svo hátt þegar ég steig niður. Eins og ég gengi alls ekki á teppinu, heldur mörg hundruð þúsund iðandi ormum, bjöllum eða einhverjum öðrum skordýrum. Mér leið strax betur þegar ég var komin fram á gang þar sem er parket. Þá varð ég var við umgang niðri, Grímur var vakandi. Ég heyrði hann lokaði glugganum í stofunni, þar sem hann hefur sofið undanfarna daga. Ég vildi ekki hafa hann hjá mér eftir að ég komst að ... komst að því hann hélt framhjá mér. Ég ætlaði að snúa aftur upp í rúm þegar mér skildist að hann var ekki einn. Var það þess vegna sem ég læddist fram á stigapallinn? Af hverju gerði ég það? Hvað var það sem togaði mig áfram?
Þarna var gert hlé á upptökunni. Fjalar leit á tækið. Áður en hann náði að gera nokkuð hélt hún áfram.
-Það er í lagi með mig. Afsakaðu. Þetta er bara svo...
Þá breyttist rödd Védísar. Hún talaði sem hún væri í leiðslu, eins og hún væri ekki lengur stödd á lögreglustöðinni heldur komin heim og sá atburðina gerast ljóslifandi fyrir framan sig. Eftir stutta þögn hélt hún áfram.
-Ég læddist niður að stigapallinum. Þar settist ég, því ég hafði útsýni þaðan inn í stofu. Ég heyrði að Grímur gekk um neðri hæðina og lét meðal annars vatnið renna inni í eldhúsi. Þegar hann sneri aftur settist hann niður, en þá sá ég að hann var ekki einn. Ekki einn segi ég. Það var enginn með honum en hann var ekki einn. Ég sá engan, - ekkert annað en fölan skugga sem færðist úr takt við birtuna frá loftljósunum. Mér lék hugur á að vita hver væri þarna með honum, þannig ég lét lítið fyrir mér fara. Í fyrstu datt mér í hug að hann hefði fengið fréttakvendið í heimsókn, að hann væri virkilega svo óforskammaður, æ, ekkert hefði komið mér á óvart, - nema Skyndilega stóð Grímur á fætur og gekk að stofuglugganum. Hann hrökklaðist þó frá honum skömmu síðar. Ég veit ekki hvað það var sem hann sá. Þegar hann sneri sér við sá ég hana, veruna. Guð minn eini! Guð minn! Hún er fyrir aftan þig, Grímur! Guð minn. Ég ... ég ... Nei, passaðu þig. Nei ... Ó, Jesús.
Fjalar ýtti á stopp. Hann fann að hendurnar á sér skulfu. Hvaða vera skyldi þetta hafa verið? Hann opnaði skýrsluna sem fylgdi með spólunni. En lögreglumaðurinn hafði ekki fyllt hana alla út, heldur hafði skrifað: Sjá meðfylgjandi gögn. Fjalar bölvaði og lofaði sjálfum sér því að áminna viðkomandi við fyrsta tækifæri. Hann spólaði aðeins áfram og kveikti svo aftur á tækinu.
-... ef ég hefði staðið upp, ef ég hefði bara gert eitthvað ...
Þögn.
-Ég hef aldrei áður séð aðra eins veru. Að hálfu maður, mennskur líkaminn var alsettur undarlegu húðflúri eða merkjum, handleggir eins og framfætur hunds eða úlfs, beittar klær. Sýnu verst var þó höfuðið. Ó, guð, ég trúi ekki að þetta hafi í raun gerst. Er ég að verða geðveik? Höfuðið var ólýsanlegt, ekki eins og á hundi eða úlfi, ekki eins og á manni, en samt með eiginleika hvoru tveggja. Á miðju enninu virtust glóa gylltir stafir en ég sá ekki hvað stóð þar. Veran gerði ekkert, opnaði bara munninn og út úr honum kom einhver konar fálmarar. Þeir skutust í bringu Gríms og drógu þaðan út guð minn góður, hvað er eiginlega að gerast? Hvað var þetta? Hvað? Hvers vegna Grímur?
Fjalar slökkti aftur á tækinu. Hálfur maður, hálfur úlfur? Gat það verið? Hafði Njörður þá rétt fyrir sér eftir allt saman? Einhvers konar goðsagnakennt skrímsli á ferð í Reykjavík? Hvernig stoppar maður slíkt? Hann leit aftur á skýrsluna. Lögreglumaðurinn hafði talið upp það sem fundist hafði á vettvangi og mátti tengja við glæpinn. Þar á meðal fannst miði og á honum stóð: Tep tú fha. Að öðru leyti voru kringumstæður svipaðar og heima hjá Leifi. Rúnir, álíkar þeim sem voru á veggnum fyrir ofan líkið af hásetanum, fundust ristar í rúðuna á stofuglugganum. Fjalar dæsti, þetta mál var farið að verða allt of umfangsmikið, of erfitt að ná utan um það og honum fannst óþægileg að vera ekki við stjórnvölinn.
Þá var bankað á dyrnar hjá honum.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 753
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ómar Ingi, 4.7.2008 kl. 13:19
Þessi frásögn Védísar fannst mér sérstaklega vel skrifuð.
Áttu þér uppáhaldshryllingsmyndir? Ég horfði á mynd í gær, 1408, og það hvarflaði að mér að það er mjög langt síðan ég hef orðið hrædd yfir kvikmynd... Sakna þrillsins.
Emelía (IP-tala skráð) 6.7.2008 kl. 03:01
Já, ég er mjög hrifinn af hrollvekjum, samt meira fyrir svona þrillera en splatter, t.d. finnst mér The Ring og What lies beneath ágætar sem slíkar. Uppáhaldið mitt er þó Event Horizon. Hrikalega vel gerð sci-fi horror mynd. Mjög flott.
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, 6.7.2008 kl. 15:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.