Þoka

Kl. 13:25

 

Klukkan var farin að nálgast hálftvö þegar Guðbjörg kom til vinnu í Aðalstræti. Hún hafði ákveðið að sofa lengur, hún var orðin þreytt eftir gott sem sleitulausa vinnu undanfarna daga. Guðbjörg hafði steinsofnað eftir að hún kom heim í gærkvöldi og ekki vaknað fyrr um ellefuleytið. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var sagt frá enn öðru morði. Illa leikið lík hafði fundist í Þingholtunum. Guðbjörg var þó ekkert að drífa sig af stað, hálft í hvoru langaði hana til að leggjast aftur undir sæng og sofna. Engu að síður var hún nú komin að Morgunblaðshöllinni.

Þegar hún kom inn á fréttastofuna sló undarlega þögn á mannskapinn. Hún horfði hissa í kringum sig. Hvað var eiginlega á seyði? Karlmennirnir reyndu sitt besta til að horfa ekki á hana en þær fáu konur sem voru þarna brostu til hennar með meðaumkunarsvip á andlitinu. Það fór sérkennilegur seyðingur um Guðbjörgu, því hún vissi ekki alveg hvernig hún átti að haga sér. Hún gekk hægt að skrifborðinu sínu og settist. Hún var ekki fyrr búin að klæða sig úr kápunni þegar Magnús kom til hennar og bað hana um að eiga við sig orð inni á skrifstofu. Hún stóð aftur á fætur og um leið og Guðbjörg fylgdi yfirmanni sínum tók hún eftir að gott sem allir á fréttastofunni litu upp og horfðu á eftir þeim.

-Fáðu þér sæti, sagði Magnús eftir að hann hafði lokað dyrunum.

-Er ekki allt í lagi, spurði hún og ekki var laust við að í röddu hennar væri smá skjálfti. Þessar móttökur voru henni framandi og eitthvað í fari Magnúsar vakti með henni ugg. Henni leið sumpart eins og þegar hún var yngri og hafði gert eitthvað af sér, faðir hennar hafði verið strangur við þau systkinin og óspar á refsingar af öllum toga ef þau höfðu gert eitthvað af sér.

-Hefurðu heyrt fréttir í dag, spurði Magnús um leið og hann settist niður í stól við hlið hennar.

-Já.

-Þú hefur þá heyrt af morðinu í Þingholtum.

-Já, svaraði Guðbjörg og ekki var laust við að á magann kæmi hnútur. Hún fann svita spretta fram undir höndunum og henni leið hálfskringilega.

-Ég var að vonast til að þú þyrftir ekki að heyra það frá mér...

-Heyra hvað, spurði Guðbjörg skelfd.

-Sá sem var myrtur í nótt er Grímur Pálsson.

Guðbjörg starði á Magnús. Hún fann sig sundlaði eitt augnablik. Síðan kom henni fyrsti vinnudagur sinn í hug. Hún snöggreiddist og langaði einna helst að slá Magnús utan undir. Hvernig átti hún að bregðast við þessu? Hvers vegna var hann að segja henni frá þessu? Hafði hann vitað af sambandi hennar og Gríms? Hún spratt á fætur og kreppti hnefana. Hún fann hvernig sig verkjaði í lófunum undan fingurnöglunum.

-Mér finnst þetta grín ykkar ógeðslegt, hvæsti hún milli samanbitinna tanna, hún sló Magnús þéttingsfast utan undir og rauk síðan út. Hún skellti hurðinni svo fast á eftir sér að fólkið frammi hrökk við. Eftir að hafa gripið kápuna sína af skrifborðsstólnum arkaði hún út.

Hún æddi út á umferðargötuna án þess að gæta að eigin öryggi og hlaut að launum bílflaut og bölvanir ökumanna sem þurftu að negla niður. Hún var svo reið Magnúsi að hún náði ekki upp í nefið á sér. Hvernig datt honum, - þeim í hug að nota þennan atburð til að atast í henni? Áttu vinnufélagar hennar ekki til snefil af virðingu? Hún fór sem leið lá yfir Austurvöll og framhjá Jóni Sigurðssyni þar sem hann stóð klæddur hvítu mistri og horfði stoltur inn að Alþingishúsinu. En hvað ef Magnús hafði ekki verið að grínast? Hún fann hvernig hjartað seig, það var sem það hætti að slá og yrði að níðþungum steinklumpi í brjósti hennar. Nei, það gat ekki verið, svona atburðir gerðust aldrei fyrir neinn sem hún þekkti, aldrei neitt svona slæmt hafði hent hana. Nei, vitleysingarnir sem höfðu sent hana út í Gróttu á sínum tíma voru örugglega að gantast í henni. Helvítis fíflin. Það var samt einhver efarödd, - rödd sem hljómaði neðan úr myrkrinu en hún neitaði að hlusta á hana. Nei, bjánarnir eru að fíflast í mér, sagði Guðbjörg við sjálfa sig. Hún rölti áfram í þokunni. Það voru ekki margir á ferli, aðeins örfáir bílar og einstaka hræður. Innan tíðar sá hún móta fyrir Fríkirkjunni. Hún staldraði við á tjarnarbakkanum og horfði um stund á bárujárnsklædda kirkjuna. Hún hafði aldrei fengið sig til að trúa. Hún var engu að síður fermd og skráð í Þjóðkirkjuna, eins og svo margir, en trúuð var hún ekki. Fyrir löngu síðan hafði hún reynt að lesa Biblíuna en gefist mjög fljótlega upp, fannst bókin hreinlega full af ofbeldi og reiði. Ekki það sem hún hafði átt von á, að minnsta kosti ekki í samhengi við það sem henni hafði verið kennt sem barni. Foreldrar hennar höfðu verið ströng við þau systkynin og kennt þeim muninn á réttu og röngu, þó hún hafi ekki alltaf breytt rétt í seinni tíð, eins og samband hennar og Gríms var til vitnis um. Hún hélt áfram göngu sinni og fór upp í Þingholtin.

Allt var hljótt, þögn eins og sú sem einkennir oft jarðarfarir; áþreifanleg, sorgmædd og þung; lá eins og nýfallinn mjöll yfir öllu og virtist bíða þess eins að vera rofin. Hún hélt áfram þar til hún var komin upp á Óðinsgötu. Er hún horfði inn eftir Týsgötu sá hún móta fyrir húsi Gríms. Fyrir utan voru tvær lögreglubifreiðar og húsið hafði verið girt af með gulum borða.

-Nei ... nei ... þetta getur ekki verið satt, sagði Guðbjörg og greip með vinstri hendi í steinrið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Kvitt

Ómar Ingi, 3.7.2008 kl. 16:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband