Þoka

26. janúar

 

Kl. 02:30

 

Fjalar hrökk við. Einhvers staðar úti í myrkrinu hringdi sími. Hann þurrkaði svita af enni sínu og stóð á fætur. Fjalar sundlaði og hann þurfti að styðja sig við herbergisvegginn áður en hann komst fram að símanum. Hann tók upp tólið og svaraði. Eftir nokkrar mínútur lagði hann aftur á. Fjalar fann hvernig sviti spratt enn fram á enni hans. Var hann að verða veikur? Eða voru þetta draumarnir? Honum fannst sem höfuð sitt væri að springa. Hann fór inn á klósett og skellti sér í sturtu. Síðan klæddi hann sig og fór út í bílinn sinn og ók af stað í Þingholtin.

 

Kl. 08:45

 

Um leið og Fjalar gekk inn á skrifstofuna sína á lögreglustöðinni tók hann eftir spólu sem lá sakleysislega á borði hans. Hún var svört en á henni var hvítur miði. Á hann hafði verið skrifað: Védís Hilmarsdóttir, 26.01.81. Undir spólunni var skýrsla lögreglumannsins sem hafði yfirheyrt konu Gríms. Fjalar hafði vísvitandi komið sér undan því verkefni. Honum var enn ferskt í minni andlit hennar þegar hann kom að húsi þeirra hjóna. Það var sem einhver hefði málað það á höfuðið, ekki ósvipað og á postulínsbrúðu. Hún starði undarlega á Fjalar þegar hann kom á vettvang. Augun tóm og köld, þau minntu hann á augun í líkum. Munnurinn myndaði mjótt rautt strik í hvítu andlitinu, ljóst hárið eins og rammi í kringum þessa líflausu mynd. Honum hafði fundist eins og hún vildi segja etithvað við hann, en gæti það ekki. Hann reyndi að hughreysta hana, en það var sem um hana færi hrollur er hann talaði til hennar.

Fjalar settist niður og tók upp spóluna. Ætti ég að hlusta á hana, spurði hann sjálfan sig. Það var nokkuð dimmt inni á skrifstofunni, hann vildi ekki kveikja ljós og hafði enn ekki dregið frá glugganum, en það gerði hann ekki vegna þess að þokan fór í taugarnar á honum. Hann var að gefast upp á henni, sem virtist smjúga alls staðar inn. Það var sem hún hefði sjálfstæðan vilja, væri lifandi og honum hugnaðist ekki sú tilfinning sem magnaðist í brjósti hans hvert skipti sem hann þurfti að standa einn úti umvafinn hvítu mistrinu.

Dyrnar opnuðust og Jóhanna gekk inn með bunka af blöðum og skýrslum. Hún lét hluta þeirra á borðið hjá Fjalari en hélt síðan út aftur. Fjalar lagði spóluna frá sér og teygði sig í bunkann. Hann fletti nokkuð hratt í gegnum hann og renndi í fljótheitum yfir það sem honum fannst merkilegt. Allt í einu kom skelfingarsvipur á andlit Fjalars. Hann dró eitt blað út úr bunkanum, sem féll úr hendi hans og dreifðust blöðin um gólfið. Hann bærði varirnar um leið og hann las.

-Ragnar dáinn? Sjálfsmorð, sagði hann stundarhátt. Hvernig mátti það vera? Bæði Grímur og Ragnar sömu nóttina? Fjalar las aftur nafnið í skýrslunni til að tryggja að hann hafi ekki lesið vitlaust. Hann opnaði dyrnar og kallaði á Jóhönnu.

-Hvenær kom þetta, spurði Fjalar og rétti henni skýrsluna. Hún skoðaði hana.

-Í morgun, held ég, svaraði Jóhanna.

-Af hverju var ég ekki látinn vita?

-Ég taldi það ekki vera nauðsynlegt. Viltu fá að heyra af öllum sem fremja sjálfsmorð, spurði hún hissa.

Fjalar þagði en bölvaði afgreiðslustúlkunum í hljóði. Hann rak Jóhönnu út og skellti á eftir henni. Hvers vegna drap Ragnar sig? Fyrst eru mennirnir tveir sem stóðu vakt í skipinu myrtir, þá Grímur sem rannsakaði förin og nú hafði læknirinn sem hafði verið fenginn til að rannsaka handlegginn framið sjálfsmorð. Einu tengslin voru þau að allir höfðu verið um borð í skipinu. Skyldi það tengjast þessu? Ætli einhver geðsjúklingur hafi vitað hverjir höfðu farið um borð? Hvernig mátti þetta vera? Hann var viss um að hann hafi fundið fyrir nærveru einhvers seinast þegar hann fór um borð í þetta bölvaða skip, en hvernig átti hann að færa sönnur á það? Þetta var jú bara tilfinning.

Fjalar velti þessu fyrir sér. Hann reyndi að koma auga á önnur tengsl en þau voru ekki sýnileg. Honum var ekki kunnugt um hvort Grímur og Ragnar höfðu þekkst áður, hvað þá þeir Ámundi og Leifur. Kannski var þetta bara óheppileg tilviljun, kannski var það bara tilviljun að Ragnar skyldi taka eigið líf sömu nótt og Grímur var myrtur. Fjalar var gott sem búinn að sannfæra sjálfan sig um að svo hefði verið þegar því laust skyndilega niður í huga hans: Þeir höfðu allir verið um borð í skipinu. Hann sjálfur hafði líka verið um borð í skipinu. Páll hafði einnig komið um borð auk mannanna í tæknideildinni. Hvað með þá?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Kvittun

Ómar Ingi, 1.7.2008 kl. 22:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband