Þoka

Kl. 14:35

 

Njörður dró fram De Occulta Philosophia eftir Cornelius Agrippa. Það var langt síðan hann hafði blaðað í gegnum þá bók. Hann iðaði af spenningi, því hann vissi hann væri á réttri leið. Njörður hafði uppgötvað hvers vegna hann átti svona erfitt með að muna hvar hann hafði séð rúnirnar. Þær sneru öfugt en í speglinum inni á klósetti sá hann þær í réttri mynd. Þetta voru þebískar rúnir eða rúnir Honoríusar, eins og sumir fræðimenn kölluðu þær. Það vissi svo sem enginn hvaðan þær voru upprunalega en margir voru á þeirri skoðun að Honoríus frá Þebu hefði fundið þær upp. Njörður hafði svo sem enga sérstaka skoðun á því, en hitt var annað mál að í gegnum tíðina höfðu rúnirnar einatt verið notaðar af galdramönnum og nornum. Hann fletti hratt í gegnum bók Agrippu þar til hann kom að 29. kafla í þriðja bindi. Þar fann hann lykil að rúnunum.

 

runir2

 

Hann tók myndina og lagði fyrir ofan lykilinn í bókinni. Hann fór sér í engu óðslega, heldur vann verk sitt hægt og af þolinmæði. Samt sem áður fann hann hvernig hárin á framhandleggjunum risu af æsingi og á efri vörinni spruttu fram svitaperlur. Hann var viss um hann væri að nálgast lausnina. Njörður dró andanum djúpt. Þó var eitt sem kom honum á óvart og olli honum hugarangri. Hvers vegna ætli morðinginn hafi notað þessar rúnir? Hvað var það sem tengdi þebískar rúnir við þessi morð? Njörður var nokkuð viss um að Leifur hafi ekki kunnað þær, enda ekki á hvers manns færi. Þær voru ekki almennt notaðar, þeir sem að þekktu þær í dag voru annað hvort fræðimenn eða áhugafólk um galdra. Eftir því sem Fjalar hafði sagt Nirði um Leif þá taldi hann ákaflega ólíklegt að drykkfelldi hásetinn kynni þær. Hann punktaði þessar athugasemdir hjá sér en hófst svo við að þýða rúnirnar á myndinni. Hann byrjaði á því að skrifa þær upp í sinni réttu mynd.

 

runir3

Njörður horfði um stund á rúnirnar á blaðinu hjá sér. Hver lína hlyti að tákna eitt orð. Hann þurrkaði svitaperlu sem læðst hafði af enni hans niður vinstri kinnina.

 

runir4

 

Njörður starði orðlaus um stund á lausnina. Tep-tv-f. Skyndilega var sem hann kæmist til sjálfs síns. Hann fletti aftur í skrifblokkinni sinni. Fræðimaðurinn greip andann á lofti. Á vegginn heima hjá Ámunda hafði verið skrifað te og rómverskir stafir notaðir. Hvers vegna ætli morðinginn hafi notað þebískar rúnir heima hjá Leifi en rómverska stafi hjá Ámunda? Ætli Ámundi hafi sjálfur verið að reyna koma þessum skilaboðum áleiðis en ekki gefist tími til þess? Var morðinginn kannski truflaður áður en hann náði að klára? Það var jú eitthvað af nágrönnum þarna í kring og Nirði skildist það á Fjalari að sumir hafi bankað upp á og jafnvel reynt að komast inn, út af öllum látunum. En hvers vegna ætli enginn hafi þá heyrt nein læti heima hjá Leifi?

Hann leit á ný á þýðinguna á rúnunum. Hvað skyldi þetta þýða? Hvaða tungumál ætli þetta eigi að vera? Tep-tv-f. Ætli morðinginn hafi þá ekki heldur náð að klára heima hjá Leifi? Skyldi ennþá vanta eitthvað?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Eitthvað

Ómar Ingi, 30.6.2008 kl. 17:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband