Kl. 10:30
Fyrir utan lögreglustöðina leið umferðin silalega í gegnum þokumistrið. Fjalar stóð við gluggann á skrifstofu sinni og geispaði, hann var þreyttur. Undanfarna daga hafði hann lítið getað sofið, en hann vissi ekki hvers vegna. Það var eitthvað sem hélt fyrir honum vöku, einhver undarlegur seiðingur í hausnum sem var að gera hann brjálaðan. Það var sama hversu hann bylti sér og sneri þá kom allt fyrir ekki. Þegar hann loks náði að festa svefn var það yfirleitt í skamman tíma og hann vaknaði með höfuðverk.
Skyndilega var bankað. Fjalar sneri sér frá glugganum, leit á dyrnar og sagði:
-Kom inn.
Annar þeirra sem rannsökuðu skipið gekk inn. Hann var ekki lengur í hvíta gallanum heldur kominn í hefðbundinn klæðnað, eins og óbreyttur borgari. Hann lagði skýrslu á borð Fjalars.
-Við fundum nokkuð í morgun sem gæti hjálpað.
-Nú, hvað var það?
-Framleiðslunúmer vélarinnar. Með því ætti að vera hægt að komast því að hvað þetta skip heitir. Flestar vélaverksmiðjur fylgjast með því í hvaða skip vélar þeirra fara. Oftast nær er þessum vélum hent ef skipt er um í skipunum. Ég hef líka á tilfinningunni að sú vél sem er í skipinu núna sé original.
-Nú, hvernig vél er þetta?
-Blohm & Voss. Þýskt eðalmerki, það var meðal annars alveg eins vél í Bismarck að mér skilst.
-Já, er það, svaraði Fjalar, gersamlega laus við áhuga. Hann gekk yfir að dyrunum og opnaði þær.
-Jóhanna, komdu hérna.
Innan tíðar var Jóhanna komin. Fjalar hafði sest og búinn að opna skýrsluna. Hann hripaði framleiðslunúmer vélarinnar niður á blað ásamt nafni framleiðandans. Síðan rétti hann stúlkunni miðann og sagði:
-Hafðu samband við vestur-þýska sendiráðið. Þeir hljóta að geta aðstoðað okkur með þetta. Þetta er framleiðslunúmer á skipsvél, fáðu þýskarana til að finna út úr þessu sem fyrst.
Hún kinkaði kolli og fór aftur út. Fjalar benti manninum á að fá sér sæti.
-Hvernig gekk ykkur? Fundið þið nokkuð fleira?
-Nei, eiginlega ekki. Bara nokkur för til viðbótar og alls kyns drasl sem skipverjar hafa átt. Jú, reyndar, við fundum eina mynd, hún er þarna í skýrslunni. Virðist nokkuð gömul, ég gæti vel trúað því að hún væri síðan fyrir seinna stríð, það er hins vegar hálfundarlegt, því maður myndi ætla að hún væri þá fyrir löngu ónýt miðað við hvernig hún var geymd og hvar.
-Hvað áttu við?
-Nei, ég meina, skipið búið að flækjast um og eflaust lent í töluverðum sjó. Allt blautt og seltan, þú skilur, fer ekki vel með myndir, sko.
Fjalar kinkaði kolli og opnaði skýrsluna. Ljósmyndin datt á skrifborðið. Hann þakkaði lögreglumanninum frá tæknideildinni fyrir og horfði á eftir honum hverfa út um dyrnar.
-Bölvaður hommi, sagði hann lágt við sjálfan sig. Sú saga gekk um þá félagana á tæknideildinni að þeim væri óvenju hlýtt hvors til annars, kannski örlítið meira en gengur og gerist milli tveggja karlmanna. Hingað til hafði enginn þó getað fært sönnur á neitt og yfirmaður þeirra, Baldur, virtist gjörsamlega blindur á samdrátt þeirra. Annað hvort það eða hann einfaldlega lét sem hann vissi ekki neitt, Fjalar vissi ekki hvort var, það var erfitt að segja til um það þegar hinn furðulegi Baldur átti í hlut.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ómar Ingi, 29.6.2008 kl. 16:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.