Þoka

Kl. 10:50

 

Hver í ósköpunum myrti þá Ámunda og Leif, hugsaði Guðbjörg um leið og strætisvagninn lagði af stað. Einu tengslin á milli þeirra voru, að báðir voru þeir í áhöfn Þórs og höfðu þurft að dvelja eina nótt saman um borð í þessu skelfilega skipi. Skyldi einhver úr áhöfn Þórs hafa haft horn í síðu þeirra beggja? Það var vel þess virði að rannsaka það. Hún hafði tekið á sig krók í gærkvöldi eftir vinnu og staldrað um stund niður á höfn. Skipið lá bundið, næstum því eins og það væri rólegt, líkt og það byði eftir einhverju og ef Guðbjörg hefði ekki verið svona þreytt hefði hún eflaust getað sannfært sig um að hinir bátarnir forðuðust það. En hún taldi sér trú um að slíkt gerðist ekki í raunveruleikanum, enda slíkar hugmyndir meira í ætt við skáldskap eða geðveiki, nema hvort tveggja væri. Hvernig stóð samt á því að hún ímyndaði sér svona hluti í kringum þetta skip? Það var ekki lifandi vera, heldur dauður hlutur og hafði þar af leiðandi ekki mannlegar tilfinningar. Engu að síður var eitthvað við það, hún átti erfitt með að hrista þann grun af sér að þetta skip væri ekki alveg eins og önnur skip. Það var líka eitthvað við undanfarna daga sem olli henni heilabrotum og þá ekki í tengslum við morðin, heldur þessi umlykjandi þoka og hvernig heildaryfirbragð borgarinnar hafði tekið breytingum. Hún var stundum ekki viss um hvort hún væri enn stödd í Reykjavík, heldur væri gengin inn í sviðsmynd einhverjar hryllingsmyndar. Borgin var hljóðari, það var sem íbúar hennar vildu síður raska ró þokunnar, yfir öllu ríkti ankannaleg þögn, eins og í kirkjugarði. Af og til heyrðust klukkur hringja, hundar gelta en annars aðeins þrúgandi þögn. Bílaniður frá helstu umferðaræðunum hljómaði kæfður og hvarf inn í bakgrunn þagnarinnar. Í hvert skipti sem hún heyrði klukknahljóm hrökk hún í kút, ef hún yrði vör við hundsgá nálægt sér kom yfir hana einhver undarleg hræðsla. Kannski hafði Njörður rétt fyrir sér.

Andliti Fjalars frá því í gær skaut upp í huga hennar. Hún sá hann aka niður Hverfisgötuna og ákvað að athuga hvort henni tækist ekki að hafa upp á honum. Þegar hún hafði gengið í fimmtán mínútur kom hún auga á hann, þar sem hann studdi annan mannanna, sem hafði verið á skipinu með þeim Fjalari og Grími síðasta laugardag, út í lögreglubíl sem stóð við gult bárujárnshús. Fjalar hafði verið fölur að sjá en í engri líkingu við unga manninn. Hann var hvítur sem nár, skalf og tautaði eitthvað í sífellu við sjálfan sig. Guðbjörg hafði komið sér vel fyrir og fylgst með úr fjarska. Innan tíðar voru fleiri lögreglubílar komnir og sjúkrabíll. Hún heyrði einn lögreglumannanna segja: -Jesús, ekki aftur, um leið og hann mætti félögum sínum. Fjalar hafði farið inn í húsið en komið út skömmu síðar, tekið af sér lögregluhúfuna og hallað sér upp að vegg. Andlit hans var kuldalegt og í augum hans járnkaldur agi en engu að síður sveif yfir honum einhvers konar sorg. Hann starði um stund út í þokuna en rétti síðan úr sér og lét húfuna aftur á höfuðið. En hann fór ekki aftur inn í húsið á meðan hún var þarna. Ætli aðkoman hafi verið jafn skelfileg og heima hjá Ámunda? Hjartað horfið og líkið limlest? Allt útatað í blóði? Hvers vegna ætli þeir Leifur hafi verið myrtir?

Hún steig úr vagninum við Lækjartorg og flýtti sér yfir í Aðalstræti. En í stað þess að fara inn í Morgunblaðshöllina hélt hún áfram og upp á Garðastræti, þar sem Sálarrannsóknarfélagið var til húsa. Þar var tekið vel á móti henni af ungum rauðbirknum manni.

-Hvað get ég gert fyrir þig, spurði hann þegar hún hafði kynnt sig. Rödd mannsins var djúp og gróf en samt notaleg. Hann hafði rólegt yfirbragð og Guðbjörg gat ekki gert að því, en henni leið óþægilega vel í kringum hann.

-Mig langar til að spyrja út í atvik sem kom fyrir á fundi hjá ykkur í fyrrakvöld.

Ungi maðurinn setti í brýnnar.

-Já, heyrðirðu af því? Auðvitað spyrst svona út, smásálirnar njóta að gæða sér á slíku slúðri, sagði hann og virtist vera að tala við sjálfan sig frekar en blaðakonuna.

-Já, ég fékk eitthvað veður af því. Hvað gerðist eiginlega?

-Er nokkur ástæða til að vera velta sér upp úr slíkum leiðindaatvikum? Væri ekki frekar að þið fréttahaukarnir reynduð að fjalla um eitthvað jákvætt? Af hverju þurfið þið alltaf að fjalla um hið neikvæða?

Hún horfði um stund á andlit unga mannsins. Hann var í raun ekki reiður henni, frekar dapur og leiður, - sannarlega leiður.

-Þú ert nokkuð sniðugur, svarar spurningu minni með spurningu. Góð leið til að forðast að svara, en þú sleppur ekki svona auðveldlega, vinur minn.

Ungi maðurinn leit á hana og brosti dauft. Hann lét sig falla niður í skrifborðsstól og dæsti.

-Ég var ekki þar, en mér skilst að það hafi ekki verið sérstaklega viðkunnanlegt, eiginlega bara langt í frá, þú skilur. Vissulega getur komið fyrir á fundum sem þessum að eitthvað illt komi, eitthvað sem enginn hefur átt von á. Yfirleitt tekst miðlum að bægja slíku frá sér. En ekki þetta skipti.

-Hvað áttu við? Bægja frá sér? Geta miðlar stjórnað hvaða andar koma til þeirra?

-Upp að vissu marki, held ég. Ég er ekki skyggn, en mér segja miðlar og aðrir fróðir um þessi málefni að svo er.  

-En hvernig var þetta kvöld?

-Þetta byrjaði ósköp sakleysislega. Pétur var rétt byrjaður að koma með skilaboð að handan þegar hann kom fyrst auga á dýrið. Hann sagði að það líktist einna helst refi eða hundi. Það var samt eitthvað sem var að, hann sagði það nákvæmlega svona: -Það er eitthvað að, eitthvað svo skelfilega rangt. Pétur fann að dýrið vildi honum eitthvað og hann sagðist óttast það. Eflaust hefur hann reynt að bægja því frá, en það hefur einfaldlega verið honum miklu sterkara, því skyndilega ranghvolfdust í honum augun og rödd hans varð djúp og reiðileg. Hann sagði eitthvað á tungumáli sem enginn þarna inni skildi og stökk svo á einn gestanna. Það var sem rynni á hann æði. Pétur hefði eflaust drepið aumingja manninn hefðu hinir gestanna ekki gripið inn í. Þegar brjálsemin rann loks af honum var sem hann fengi taugaáfall, hann skalf og nötraði, reri sér fram og aftur, baðst afsökunar aftur og aftur. Gestirnir sáu vænstan kostinn að hringja á sjúkrabíl fyrir hann. Pétur var fluttur upp á Borgarspítalann og er þar víst enn.

-Já, ég veit, ég reyndi að ná tali af honum þar.

Andlit unga mannsins skipti litum og hann leit snögglega upp á Guðbjörgu.

-Hvað? Fórstu að heimsækja hann? Ertu ekki heil á geði? Berð þú enga virðingu fyrir hinum sjúku? Hvað er að ykkur blaðamönnunum?

-Rólegan æsing, mig langaði bara að athuga hvort að hann væri viðræðuhæfur. En hérna, hvað hét gesturinn sem Pétur réðst á?

-Ragnar Guðmundsson, læknir. Þú kannast kannski við hann? Hann vinnur á heilsugæslunni hérna í Vesturbænum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Hummm

Ómar Ingi, 28.6.2008 kl. 15:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband