Kl. 14:00
Njörður sat í lestrarsal Landsbókasafnsins við Hverfisgötu, skammt frá húsinu þar sem Leifur fannst kvöldið áður. Hann hafði lesið blöðin og hlustað á fréttir. Líkið var víst í svipuðu ástandi og lík Ámunda. Þegar Fjalar hringdi seint í gærkvöldi hafði Njörður tekið eftir hve oft rödd Fjalars brast. Hann vildi þó ekkert segja Nirði, ekki nema örlítið og þá helst aðeins það sem sneri að honum. Á einum vegg, inni í herberginu þar sem líkið var, fundust undarleg merki eða rúnir en það var erfitt að ráða í hvað þar átti að standa og hvað þær merktu. Hann leit á myndirnar fyrir framan sig. Önnur var af húðflúrinu, hin af skriftinni á veggnum.
Njörður starði á myndina af rúnunum. Hvað skildi þetta þýða? Þær virtust fornar en samt var við þær einhver blær sem erfitt var að koma fyrir sig, rúnirnar voru í senn ævafornar og nýstárlegar. Nirði fannst sem í þeim byggi dularfullur kraftur, seiðmagn öflugra en nokkuð sem hann hafði nokkurn tímann komist í kynni við. En samt var eitthvað, hann kannaðist við þær en kom þeim ekki fyrir sig. Hann var viss um að hafa séð þessar rúnir áður. Spurningin var bara: Hvar?
Hann lagði myndina frá sér og tók upp hina. Húðflúrað merkið var honum enn meiri ráðgáta, Njörður var búinn að fletta upp í táknfræðibókum en án árangurs. Það var samt eitthvað sem honum yfirsást og Njörður fann það á sér, hann var ekki búinn að kanna alla möguleika þó að honum virtust flest sund lokuð í augnablikinu. Njörður stóð á fætur og teygði úr sér. Hann gekk á milli bókahillanna og fór að lokum fram. Ekki leið á löngu þar til hann stóð fyrir utan Landsbókasafnið. Þokan lagðist í kringum húsið eins og bómull í jólaskreytingu, hún skreið upp með veggjunum og þakinu. Við hliðina á bókasafninu stóð Þjóðleikhúsið, dimmt og drungalegt á sinn séríslenska hátt, framhlið leikhússins minnti Njörð á hauskúpu, ljóstírur í gluggum efri hæðarinnar styrktu þá mynd. Hann leit niður að Ingólfi, sem stóð einmanalegur hjúpaður mistri og grillti Njörður rétt í útlínur styttunnar. Hann fann til samkenndar með henni. Var hann ekki í svipuðum sporum sjálfur? Einn, horfði dreyminn eitthvað út í buskann. Njörður var enn svekktur yfir lánleysi sínu í París. Hann var búinn að eltast við galdrabók Gottskálks biskups grimma, Rauðskinnu, lengi. Hann var sannfærður um að hún væri einhvers staðar til, hann trúði því hreinlega ekki að enginn hafði grafið bókina upp að biskupnum látnum. Þjóðsagan um hvernig Galdra-Loftur hefði með fjölkynngi og svartagaldri reynt að koma höndum yfir Rauðskinnu var honum ávallt ofarlega í huga. Hann hafði alla tíð verið heillaður af rúnum og göldrum, allt frá því að hann var polli á Vestfjörðum og afi hans kenndi honum fúþark eða rúnastafrófið. Sá gamli vissi lengra en nef hans náði, hann var uppfullur af fróðleik um hin huldu fræði og lærði Njörður mikið af honum.
Hann gekk á ný inn í lestrarsalinn og að borðinu sínu. Hann tók upp myndirnar og skoðaði þær á meðan hann rölti að einum stóru norðurglugganna. Hvaðan ætli þetta höfuð hafi komið? Voru það ekki aðallega ættbálkar í Suður-Ameríku sem söfnuðu höfðum óvina sinna? En flestar frumstæðar þjóðir sem höfðu fundist í þeirri heimsálfu voru ekki búnir að koma sér upp ritmáli, ekki einu sinni Aztekar eða Inkar. Reyndar voru Inkar með ákveðið skilaboðakerfi, þar sem notuð voru reipi og mismunandi hnútar. En það var ekkert skylt þessu húðflúri. Það merkti eitthvað, svo mikið var Njörður viss um.
Hann hallaði sér upp að veggnum fyrir neðan gluggann. Honum var að sjást yfir eitthvað, það var eitthvað sem hann var að gleyma. Hann var alveg strand, kominn að enda öngstrætis og sökum einhverjar meinloku sá Njörður ekki neina leið út. Hann gekk pirraður fram og aftur um salinn.
Skyndilega snarstoppaði hann. Hann tók tvö skref aftur á bak, þar til hann stóð fyrir framan dyrnar úr salnum. Hann horfði á sjálfan sig speglast í rúðu hurðarinnar, þar sem hann hélt á myndunum.
-Auðvitað, hrópaði hann upp fyrir sig og hlaut að launum illilegar augngotur og suss frá hinum gestum safnsins. Hann greip í hurðarhúninn og reif upp hurðina. Síðan hljóp hann sem fætur toguðu inn á klósett.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ómar Ingi, 26.6.2008 kl. 23:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.