25. janúar
Kl. 09:40
Guðbjörg steig upp í strætisvagninn. Hún settist aftarlega og hallaði höfði að skítugri rúðu og lokaði augum. Undanfarnir dagar voru búnir að vera erfiðir, sér í lagi gærdagurinn. Henni fannst sem hún væri ausin þurr, ætti ekkert eftir og hún hafði upplifað morguninn eins og hún væri draugur sem líður í gegnum vegg, eins og hún væri líflaus, litlaus og aðeins endurómur sjálfs síns. Hvað var eiginlega að gerast í borginni? Tvö morð á stuttum tíma, bæði líkin svo skelfilega illa farin að vart var hægt að bera kennsl á þau. Fyrst Ámundi, svo Leifur. Báðir mennirnir sem höfðu staðið vaktina um borð í skipinu. Ætli eitthvað hafi gerst um borð sem aðeins þeir vissu?
Strætisvagninn rann af stað og hún horfði út um gluggann. Á andliti hennar var tómlegur svipur, augun dauf og húðin föl. Fyrir utan leið hvert húsið á fætur öðru framhjá fálætislegt í þokunni. Það var sem hún hefði innsýn í aðra veröld og draumkenndari. Húsin voru eins og skyggnimyndir sem kastað var á hvítan skývegg, fólkið úti á götunum eins og uppvakningar, dofið og framandlegt. Þokan hafði hulið borgina í nokkra daga og það var eitthvað við hana sem fór í taugarnar á Guðbjörgu. Hvar og hvenær sem hún var úti hafði hún alltaf á tilfinningunni að hún væri ekki ein, - eins og einhver væri með henni, elti hana en hún kom aldrei auga á neinn. En þessi tilfinning var sterk.
Loks kom vagninn að Borgarspítalanum. Hún greip töskuna sína og steig út. Það var kalt í veðri og hún hafði gleymt að taka með sér vettlinga og húfu. Hún blés í lófana og tróð þeim djúpt í úlpuvasana. Síðan gekk hún heim að sjúkrahúsinu. Nakin tré teygðu greinar sínar upp til himna, eins og skuggalegar, beinaberar hendur. Skammt frá reis sjúkrahúsið í þokunni, í svipaðri mynd og forn kastali, með sinn háa turn, þaðan sem frægur tónlistarmaður hafði nýlega kastað sér fram af og hrapað til dauða. Eitt augnablik leið Guðbjörgu eins og hún væri Jónatan Harker á leið í kastala Drakúla greifa. Einhvers staðar úti í þokunni spangólaði hundur. Ósjálfrátt leit hún í kringum sig, sem ætti hún von á að sjá bláan loga inn á milli trjánna. Hún hraðaði för sinni og var hálfpartinn létt þegar hún steig inn í anddyri spítalans.
Innan tíðar stóð hún aftur úti á stoppistöðinni. Þessi ferð hafði verið til einskis, miðillinn var ekki viðræðuhæfur og starfsfólkið vildi ekkert tjá sig um þetta mál. Henni hafði verið vísað inn til yfirhjúkrunarfræðings sjúkrahússins, sem var feitlagin kona sem horfði yfir gleraugun um leið og Guðbjörg gerði henni grein fyrir hvernig mál miðilsins gæti tengst morðunum tveimur. Hún svaraði Guðbjörgu að það væri stefna starfsfólksins að ræða ekki mál einstakra sjúklinga. Guðbjörg lét sér þó ekki segjast og reyndi að sannfæra hana um að leyfa sér að ræða við miðilinn. Hjúkrunarkonan horfði á hana með undarlegan svip á andlitinu, eins og hún væri að meta hvort það ætti að leggja hana inn. Guðbjörg ákvað því að drífa sig aftur niður í bæ áður en til þess kæmi. Fara frekar í heimsókn til Sálarrannsóknarfélagsins, það var skárra en ekkert. Starfsfólkið þar hlaut að geta sagt henni hvað gerðist í raun þetta kvöld og ef til vill gæti það bent henni á einhverja sem voru viðstaddir.
Á leiðinni í vagninum var henni Grímur hugleikin. Hvernig skyldi honum reiða af? Hún var enn ekki komin yfir hversu reiður hann varð þegar hún tjáði honum að ekki væri dugandi að halda sambandinu áfram. Védís hafði komist að þessu og Guðbjörg vissi það, því hún hafði fengið símhringingu frá Védísi. Henni hafði verið mikið niðri fyrir og það var ekki fyrr en þá, að Guðbjörg skildi að það sem hún var að gera snerti fleiri einstaklinga en bara hana og Grím. Hún varð því að binda endi á þetta. Það var samt erfitt að horfa á eftir Grími, hún naut samvistanna við hann og það var ekki laust við að hún þráði að finna hönd hans strjúka yfir andlit sitt, þar sem hún leið áfram í þokunni í grænum strætisvagninum.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kvitt
Ómar Ingi, 25.6.2008 kl. 20:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.