Ég rakst á bloggfærslu á Eyjunni (http://blog.eyjan.is/gudrun/2010/12/21/eg-er-ekki-madur/) og það er nú ekki oft sem mig setur hljóðan við lestur, en þessi færsla er alveg með ólíkindum. Ég varð hreinlega svo gáttaður á henni að það hefur tekið mig nokkra daga að koma því í verk, að skrifa um hana.
Í þessu bloggi heldur höfundur því fram, að tungumálið sé í eðli sínu karlkyns. Hann tiltekur nokkur dæmi, þ.á m. orðið maður. Í íslensku er hefð fyrir því að tala um menn og eiga þá til jafns við um konur og karla. Þetta finnst höfundi ekki gott og er sjálfur hættur að nota orðið með þeim hætti, af því að konur eru ekki menn, segir hann og tekur skýrt fram að þessi afstaða er tilkomin óháð hver orðabókarskýring orðsins sé. Auk þess finnst höfundi mjög hvimleitt að vísa til Guðs sem föðursins eða sonarins. Fyrir utan að á samkomum skuli vera stundum sagt: Við erum hér samankomnir... Að lokum segir höfundur, að erfitt sé að finna kvenfrelsi ef tungumálið er karlkyns.
Fyrir það fyrsta, þá er ýmislegt til í því að tungumálið sé notað til að hafa áhrif á það hvernig við hugsum. Nærtækt dæmi væri notkun trúarbragða á orðum og orðfæri, sjáið t.d. hvernig ákveðin hugtök í Biblíunni birtast með greini (sannleikurinn, kærleikurinn, trúin, lífið) og í hvaða samhengi. Slíkt notkun gefur í skyn, að aðrir sannleikar eða kærleikar séu ekki hinir sönnu. Svolítið eins og ef einhver bruggverksmiðja tæki upp á því að auglýsa bjórinn! Þetta auknavægi sem ákveðinn greinir færir orðum er mjög merkingarbært.
Hins vegar, þegar rýnt er gaumgæfilega í þessi skrif viðkomandi blogghöfundar, þá finnst mér ljóst, að hann mætti kynna sér örlítið betur tungumálið og hvaða hugmyndir menn hafa um það. Í fyrsta lagi, þá er orðið maður afar slæmt dæmi hjá honum. Orðið í íslensku stendur fyrir tegund, við erum öll menn. Rétt eins og hundar eru hundar og kettir eru kettir. Þess vegna eru konur líka menn. Þær eru kvenkyns menn, eða kvenmenn. Stundum er notað orðið manneskja og vill höfundur frekar nota það orð. Kannski af því að það er kvenkyns?
Málið er bara það, að málfræðilegt kyn orða er oftast nær í engu samhengi við merkingu þeirra. Eru blokkir kvenlegar í eðli sínu? Eru skólar karlalegir? Hvernig hefur höfundur hugsað sér að leysa önnur vandamál er tengjast málfræðilegu kyni eða á þetta val hjá honum aðeins við um nafnorð? Hvað með lýsingarorð, sem geta tekið öll kyn? Sagnir í 3. persónu? Hvað með orð sem eru augljóslega í röngu kyni sé tekið mið af veruleikanum, t.d. bílvél? Mun fleiri karlar en konur vinna við bílvélar, ætti orðið því ekki að vera í karlkyni? Eða er þetta dæmi um pólitískan rétttrúnaðar hugsunarhátt, sem á fátt skylt við raunveruleikann? Og er slíkur hugsunarháttur til eftirbreytni?
Hvað varðar kristindóminn, þá vil ég hvetja höfund bloggsins til að lesa Biblíuna. Faðirinn á sér sínar skýringar, sem og sonurinn (takið eftir greininum). Jafnvel ég, guðslaus vesalingur, veit það. Auðvitað er ekkert mál að setja út á þessa framsetningu, enda barn síns tíma, en það breytir því ekki, að þetta stendur í þessari blessuðu bók og enn fremur stendur í henni, að hver sá sem breytir því sem þar stendur muni hljóta dvöl að eilífu á Hótel Lúsífer að þessu lífi loknu.
Eins er hitt dæmið, við erum hér samankomnir... ekki gott, þar sem ræðumenn sem nota slíkt orðfæri þar sem bæði kyn (líffræðileg) eru samankomin eru augljóslega ekki að nota tungumálið rétt, eða hreinlega ekki að ávarpa þá kvenmenn sem þar eru staddir. Segir slík notkun á tungumálinu ekki meira um þann sem mælir heldur en um tungumálið? Auðvitað væri réttara að segja: Við sem eru hér samankomin, því neitar enginn, þ.e. ef tilgangurinn er ávarpa á alla gesti óháð kyni. Það verður nefnilega að skoða segðir sem þessa í réttu samhengi. Voru allir gestir karlmenn? Var verið að ávarpa alla fundargesti? Er mælandi að tala á sínu móðurmáli eða mætti skrifa þessa villu, ef villa er, á vankunnáttu? Það kemur ekki fram hjá höfundi, bara að það sé rangt að ávarpa hóp með þessum hætti.
Nú er ég jafnréttisinni. Ég hef hins vegar litla trú á því, að jafnrétti náist með þeim aðferðum sem blogghöfundur leggur til, af ofangreindum ástæðum. Þrátt fyrir, að hægt sé að hafa áhrif á hvernig fólk hugsar með því að nota tungumálið, jafnvel nauðga því, þá er málið hins vegar nokkuð sem hefur verið í sífelldri þróun í margar aldir. Ég efast um, að þegar menn byrjuðu t.d. að nota orðið hetja, að þeir hafi gefið gaum að því hvert málfræðilegt kyn þess var. Ég efast líka um, að það hafi skipt þá máli. Jafnvel þó við myndum taka okkur til og ætla okkur að breyta tungumálinu, þurrka út karlkyn eða jafnvel allt málfræðilegt kyn, þá væri það í mínum huga eins og að reyna kæfa reyk til að slökkva eld. Til að slökkva eld er best að ráðast að rótum hans. Vandamálið er nefnilega samfélagslegs eðlis, ekki málfræðilegs.
PS. Höfundur þeirrar bloggfærslu sem hér er um rætt er kvenmaður. Notkun mín á karlkynsorðinu höfundur er með vilja gerð en hefur ekkert með afstöðu mína til kvenna að gera.
Flokkur: Dægurmál | Mánudagur, 27. desember 2010 (breytt 28.12.2010 kl. 08:14) | Facebook
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég bara næ ekki upp í nefið á mér yfir því hvað þessi höfundur er allsvakalega úti að skíta.
Haukur (IP-tala skráð) 28.12.2010 kl. 02:29
Já, mér sýnist höfundur hafa eitthvað vanhugsað þessa pælingu hjá sér.
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, 28.12.2010 kl. 09:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.