Kristnir menn trúa því að Jesús Kristur hafi fæðst um þetta leyti í Betlehem og því fagna þeir jólunum. Heiðnir menn fagna jólum af því sólin hefur sigrað myrkið og dag tekur því að lengja á ný. Eflaust hafa fleiri trúarbrögð sínar skýringar á þessum hátíðum, en fyrir mér eru jólin hátíð fjölskyldunnar. Mér er nokk sama hvaða ástæður fólk gefur sér til að setjast niður með ættingjum og vinum, gefa gjafir og njóta þess að vera saman, því tilgangurinn helgar meðalið, ekki satt?
Ég er mikið jólabarn. Þegar ég var yngri var ég friðlaus, sérstaklega þegar líða tók nær aðfangadegi og heldur mamma því fram, að svo hafi verið allt þar til ég varð 25 ára. Hún um það! Mér finnst hins vegar þessar hátíðir afskaplega skemmtilegar; smákökubakstur, jólagjafaleiðangrar, skreyta jólatréð og allt það er fylgir þessum tíma. Við systkynin máttum eiga von á góðum og fallegum gjöfum, foreldrum okkar finnst fátt skemmtilegra en að gleðja okkur og gefa okkur það er við óskuðum okkur heitast.
Þegar ég var 6 ára átti ég í desember víst mjög bágt með að ráða við mig. Eftirvæntingin var mikil og spennustigið eftir því. Aftur og aftur fékk ég að heyra, ef ég myndi ekki haga mér vel myndi pakkinn minn hreinlega minnka. Á aðfangadag, eftir búið var að keyra út pakkana, þá sá ég að undir jólatrénu var jólapakki sem var svipað stór og kassinn utan um það sem ég hafði helst óskað mér: Fálkinn úr Star Wars, farartæki Hans Óla. Tíminn hreinlega leið ekki fram að jólamatnum og ég gat varla borðað fyrir spenningi. Loks var búið að taka af borðinu og vaska upp. Systir mín las á stóra kassann og viti menn, hann var til mín. Ég var ekki lengi að rífa marglitan gjafapappírinn utan af kassanum og sá, að þetta var Fálkinn. Er ég opnaði pakkann, þá sá ég að hann var tómur! Vonbrigðin voru mikil og rétt eins og önnur 6 ára börn, þá átti ég erfitt með að ráða við tárin. Mamma og pabbi sögðu, að pakkinn minn hlyti að hafa minnkað svona mikið, vegna þess ég hefði verið svo óþægur í desember. Ekki bætti þessi skýring úr skák og ekki leið á löngu þar til ég var sendur inn í bókaherbergi, þar sem ég gæti grenjað í friði. Er ég kom þangað inn, stóð Fálkinn tilbúinn á skrifborði pabba. Ég stökk hæð mína af gleði og hljóp fram með gripinn. Þá hafði pabbi ákveðið að setja hann saman kvöldið áður, svo hann þyrfti ekki að nota aðfangadagskvöld í slíka vinnu.
Þó svo einhverjir muni eflaust reka upp stór augu við þessa sögu og þykja framkoma foreldra minna svolítið kvikindisleg, þá er þetta svolítið upp á teningnum hjá okkur í fjölskyldunni á jólunum. Við notum tækifærið til að stríða hvert öðru. Til dæmis mætti nefna, að á hverjum jólum fá allir sérstaka gjöf frá Hrekkjalómunum (sem enginn veit hverjir eru) og eru þær gjafir nær undantekningalítið eingöngu hugsaðar til að stríða. Eitt árið hafði systir mín mikið kvartað undan því að eiga ekki kærasta og því fóru hrekkjalómarnir og keyptu einn slíkan. Reyndar uppblásinn, en kærasti engu að síður. Annað árið fékk pabbi gjafakort á Bæjarins bestu, en það er uppáhalds veitingastaðurinn hans. Ég fékk fyrir nokkrum árum vottorð um að dóttir mín hefði verið skírð í Grafarvogskirkju, undirritað af sóknarprestinum og á bréfsefni kirkjunnar (verð að viðurkenna að í fyrstu hélt ég að ekki væri um grín að ræða). Öll höfum við fengið okkar skerf og hlægjum við dátt á kostnað hvers annars. Og stundum er mikið á sig lagt, til að gera brandarann sem skemmtilegastan. Allt er þetta þó í góðu gamni og enginn sár á eftir (nema ég í þetta skipti sem skírnarvottorðið kom :D ).
Nú er dóttir mín á þeim aldri að jólin eru alveg gríðarlega spennandi, hún vaknar eldsnemma og er friðlaus allan daginn. Mamma getur ekki annað en glott út í annað. Ég hef hins vegar gaman af þessu og tek þátt í þessu með henni. Reyndar vaknar hún stundum fullsnemma en við förum saman í leynilega jólagjafaleiðangra og hlægjum að því hvað við erum sniðug að velja gjafir. Hún er reyndar hjá mömmu sinni á aðfangadagskvöld en kemur til mín á jóladag og ef ég þekki hana rétt, þá verður hún vöknuð frekar snemma, móður sinni til mikillar armæðu. Nú þegar eru farnir að birtast pakkar undir trénu okkar og þeir vekja mikla athygli. Það má reyndar ekki lesa á gjafamiðana en það er samt rosalega freistandi, enda situr hún fyrir framan tréð og spáir í hvað sé í hverjum pakka og hver eigi þá.
Það er einmitt í gegnum þessa barnslegu gleði, eftirvæntingu og spennu sem ég nýt jólanna best. Allar pælingar um hvað eigi að gefa hverjum, hvaða pakki er minn og svoleiðis, eru svo skemmtilegar. Það er það sem gerir þetta að hátíð fyrir mér, svo ekki sé nú minnst á samverustundirnar með þeim sem manni þykir vænt um. Jólin eru jú til að gleðjast saman.
Af því sögðu, óska ég þér, lesandi góður, gleðilegra jóla.
Flokkur: Bækur | Miðvikudagur, 22. desember 2010 (breytt kl. 12:51) | Facebook
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þakka þér fyrir þessa skemmtilegu göngu niður þína Minningarbraut. Ég nýt jólanna á svipaðan hátt og þú og reyni eins og ég get að draga fram gömlu góðu barnastemninguna og spenninginn.
Gleðileg jól.
Hörður Sigurðsson Diego, 22.12.2010 kl. 11:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.