15. október 2012

Í skólum Reykjavíkur fer fram trúarbragðakennsla. Allir í 8. bekk fá heimsókn, hver frá einu trúfélagi. Því eftir ítarlegar umræður um tillögu Mannréttindaráðs Reykjavíkur árið 2010 var ákveðið að leyfa öllum trúfélögum á landinu að fá óheftan aðgang að nemendum grunnskóla Reykjavíkur við mikinn fögnuð presta Þjóðkirkjunnar.

Í dag er miðvikudagur og er það opinber trúarbragðakennsludagur í Reykjavík. Til að stemma einhverja stigu við heimsóknum presta, goða og annarra fyrirmenna trúfélaga var ákveðið að skólinn yrði bara opinn einn dag í hverri viku. 

Í Laugarnesskóla er prestur frá Þjóðkirkjunni. Hann lætur alla nemendur spenna greipar og fara með Faðir vorið, af því það er svo hollt og gott fyrir nemendur. Hann segir þeim líka frá Jesú og skoðunum kirkjunnar á syndum mannanna, t.d. að slæmt sé að myrða fólk, vera með húðflúr eða njóta lífsins. Krakkarnir kinka kolli fyllilega sammála þessum skrúðklædda manni. 

Í Foldaskóla eru menn frá Gídeónfélaginu að dreifa Nýja-Testamentinu. Þeir biðja líka með börnunum og láta hvert barn fá bláa bók, vel merktri félaginu og enn kinka börnin kolli yfir þessum góða boðskap.

Í Hólabrekkuskóla er fólk frá Fíladelfíu. Þau mættu 4 saman og stilltu upp hljómsveit. Síðan leiddu þau börnin í söng um dýrð Drottins, mikilvægi fyrirgefningarinnar og guðsótta. Jesú hefði gefið líf sitt svo við gætum lifað án þess að þurfa óttast dauðann. Börnin kinka kolli glöð í bragði, enda skemmtilegt að fá heila hljómsveit í heimsókn. 

Í Vesturbæjarskóla komu Vottar Jehóva í heimsókn. Þeir dreifðu riti til barnanna. Framan á því var mynd af Jörðinni og stórri halastjörnu að skella saman. Framan á því stendur: Heimsendir! Vottarnir segja börnunum frá því hvernig Guð hefur skipulagt heimsendi og ætlar aðeins Vottum eilíft líf. Eftir fyrirlesturinn kinka börnin kolli sammála. 

Í Seljaskóla mættu múslimir og sögðu börnunum frá Íslam. Þeir boðuðu frið og einingu milli allra. Þeir dreifðu íslenskri þýðingu á Kóraninum og kenndu börnunum að biðja að íslömskum sið. Börnin kinka kolli og skilja vel hvað múslimarnir eiga við. 

Í Árbæjarskóla komu goðar frá Ásatrúarfélaginu. Þeir kenndu börnunum að umgangast náttúruna, dýrka æsina og blóta. Þeir sögðu þeim frá hinum forna sið, hvernig fórnir fóru fram og hvert hlutverk goða er og var. Nemendurnir kinka kolli alveg sammála goðunum, þrátt fyrir fornlegan klæðnað þeirra. 

Í Langholtsskóla mættu múslímskur öfgatrúarhópur. Reyndar neitaði forsvarsmaður þeirra að ganga inn í stofuna fyrr en stelpurnar í bekknum höfðu hulið höfuð sitt. Hann talaði um brenglaða stöðu konunnar í íslensku samfélagi og nauðsyn þess að allir karlmenn létu sér vaxa skegg. Auk þess kenndi hann börnunum um Jihad. Krakkarnir gengu út og kinkuðu kolli sammála honum, sérstaklega drengirnir. 

Í Vesturbæjarskóla mættu svartklæddir Satanistar með þrjá ketti, sem þeir fórnuðu til dýrðar Leviathan. Reyndar köstuðu tveir nemendur upp en Satanistarnir sögðu að það væri af því þau væru veik og ráku þau út úr stofunni. Þeir ræddu við börnin um að þeir hæfustu kæmust af, aðeins þeir sterkustu ættu rétt á að lifa af og þeir sem væru stoltir af sjálfum sér. Krakkarnir, þ.e. þeir sem köstuðu ekki upp, fannst þetta frábær heimspeki og kinkuðu kolli sammála. 

Þegar skóladeginum lýkur heldur hvert barn heim á leið og segir foreldrum sínum frá hinu frábæra, opna skólakerfi sem er nú við lýði í Reykjavík. Sumir foreldrar eru sáttir, aðrir hlusta bara rétt með öðru eyranu á frásagnir barns síns en svo eru þeir sem eru mjög ósáttir. En á Íslandi tíðkast ekki að virða rétt þeirra örfáu sem eru ósáttir, þannig þeir foreldrar verða að sætta sig við þetta, þó þeim finnist traðkað á réttindum sínum og telja að trúfélög, sama hvaða nafni þau heita eigi ekkert erindi með trúboð inn í skóla. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband