Ásbjörn Óttarsson stimplaði sig allhressilega inn í dægurmálaumræðuna nú í gær þegar hann lét þau orð falla á Alþingi, að laun til listamanna ætti að fella niður því hann skyldi ekki hvers vegna þetta fólk gæti ekki fengið sér almennilega vinnu, eins og venjulegt fólk. Auk þess bætti hann við, að hann teldi fjárausturinn í tónlistarhúsið Hörpu vera til óþurftar.
Mér fellust hreinlega hendur við að heyra þessi ummæli og hélt í fúlustu alvöru að allir Jónasar frá Hriflu hefðu verið gerðir útlægir úr íslenskri pólitík. Hann veit kannski miklu meira um þessi mál en ég, en ég get ekki komist hjá því að finnast þetta úrelt og gamaldags sjónarmið.
Það er nefnilega svo, að því fleiri störf sem við sköpum, óháð því hvaða greinum þau tengjast, tryggir að meira fé kemst í umferð. Mér finnst auk þess heldur í góðu lagi að styrkja listamenn til þess að iðka sína list, því undantekningalítið skapa þau störf fleiri störf (listmálarinn þarf að kaupa striga og málningu, rithöfundurinn þarf á bókaútgáfunni að halda o.s.frv.) og auka þar með veltu fés í samfélaginu. Við hljótum, jafnvel þó fólk sé öfgamenn á báðum vængjum, að sjá að það er einmitt það sem við þurfum í samfélagi okkar í dag, að meiri hreyfing komist á fé, að það skipti örar um hendur. Það skapar tekjur fyrir ríkissjóð. Því fleiri sem hafa fé milli handanna, því betra, því fleiri sem nota þetta fé, því betra og þannig er hægt að örva hagkerfið og koma því aftur af stað.
Listamenn, hverrar tegundar svo sem þeir kunna að vera, eru jafngildur þáttur í þessu hagkerfi og hver annar, þeir þurfa jú að fá greitt fyrir sína vinnu, líkt og aðrir svo þeir geti stundað hana. Fái þeir greitt fyrir hana, er virðisaukinn af þeirri vinnu ekki bara í formi aukinna tekna ríkissjóðs (í formi greiddra skatta, gjalda o.þ.h.) heldur einnig í formi líflegs menningarlífs. Ég er ekki viss um, að við værum tilbúin að vera án Íslendingasagna (sem allar voru skrifaðar á kostnað samfélagsins með einum eða öðrum hætti, t.d. ritaðar í klaustrum sem haldið var uppi af nærliggjandi bændum í formi tíundar og þess háttar eða Snorra Sturlusyni, sem bjó á og hafði tekjur af einni ríkustu kirkjujörð landsins. Ég er heldur ekki viss um, að við myndum vilja vera án myndlistarinnar, kvikmyndanna eða skáldskaparins. Nú er ég ekki að segja, að þessi menningarstarfsemi myndi leggjast af ef ríkið styrkti hana ekki, en ég tel það einfaldlega vera skyldu okkar sem samfélags að viðhalda menningu okkar og styrkja.
Öll saga okkar, þessi ríflegu 1100 ár, væru mun fátæklegri í hugum okkar ef við hefðum ekki menningu, ef menning okkar hefði öll miðast við hið veraldlega, snertanlega og það sem gefur af sér áþreifanlegan arð. Sem betur fer, þrátt fyrir alla Ásbirni og þá sem eru sammála honum, þá höfum við haldið áfram að láta listamenn hafa styrki til að sinna listsköpun sinni. Það má vel vera, að sitt sýnist hverjum um gildi listarinnar hverju sinni og í hverju tilfelli fyrir sig, en í því felst fegurðin við listina. Fegurð hennar felst í því hver áhorfandinn er.
Ásbjörn þessi hins vegar virðist telja og ég hef ekki betur séð en allmargir kjósendur Sjálfstæðisflokksins séu sammála honum, að listamenn séu í raun bara afætur sem vilja fá greitt fyrir að sinna áhugamálinu sínu. Auk þess þá dreymir flesta um, að starfa við áhugamálið sitt. Bíladellukarlar gerast bifvélavirkjar, flugáhugamenn flugmenn, hannyrðakonur fatahönnuðir, bíónerðir vinna í sjónvarpi og svo mætti lengi telja. Ég skil þess vegna ekki hvers vegna þessi rök eru týnd til, nema þá af þeim sem eru öfundsjúkir vegna þess að þeir geta ekki starfað við það sem þeir hafa áhuga á.
Í raun fæ ég ekki betur séð en að Ásbjörn sé í nákvæmlega sömu stöðu. Hann situr á þingi sem málsvari kvótaeigenda, það er kappsmál hans að tryggja réttindi og hag þeirra sem mesta, enda hluti af þeim hóp sjálfur, þ.e. hann vinnur við málaflokk sem hann hefur áhuga á. Skemmst er að minnast þess, er hann greiddi sjálfum sér 60 milljónir í arð út úr fyrirtæki sínu (sem starfaði í sjávarútvegi, eftir því sem ég kemst næst) en þó var fyrirtækið í bullandi tapi, með 150 milljónir í mínus. Ég spyr, ætli hann telji að hann hafi unnið almennilegt starf til þessara arðgreiðslna? Eða mun/var fyrirtækið verða lýst gjaldþrota í kjölfarið og þar með skuldirnar látnar falla á almenning?
Hversu margir listamenn ætli stundi slíka gjörninga? Stofni fyrirtæki utan um starfsemi sína og greiði sér síðan marga milljóna arð úr fyrirtæki sem í raun er gott sem gjaldþrota? Til þess eins að verðlauna sjálfa sig. Ég er ekki viss um að þeir séu svo margir.
Mig grunar nefnilega að flestir listamenn, sem hafa starfa af listsköpun, búi við mun krappari kjör en Ásbjörn og hafi þar af leiðir lært að komast af með minna en 60 milljónir á ári. Ég held, að Ásbirni væri hollt að prófa að starfa sem listamaður, þurfa að berjast við að koma sér á framfæri og lifa af þeim launum sem sá starfi felur í sér. Ég held að hann myndi skipta um skoðun og jafnvel leggja til, að framlög til listamanna væru hækkuð.
Séu hins vegar rökin þau, að gæta þurfi aðhalds í fjármálum snýr málið vissulega öðruvísi við. Það leikur enginn vafi á því, að fjárlögin fyrir næsta ár eru mikil sorgarsaga, gott sem hvar sem borið er niður. Ég skil vel, að Sjálfstæðismenn vilja skera niður óþarfa fitu til að viðhalda grunnþjónustu á borð við menntaskóla, sjúkrahús og samgöngukerfi. Hins vegar hlýt ég að setja spurningarmerki, um leið og Ásbjörn setur spurningarmerki við framlög til listamanna, við framlög til Þjóðkirkjunnar, til kynjaðrar hagstjórnar og til Fjölmiðlastofu. Bara þessi nýja eftirlitsstofnun (í boði vinstri manna, að sjálfsögðu) fær um 40 milljónir af næstu fjárlögum. Bara fyrir þann pening væri hægt að halda 15 listamönnum uppi í heilt ár. Þjóðkirkjan fær 1400 milljónir af fjárlögum næsta árs, þrátt fyrir það eru kirkjur landsins illa sóttar og eru þó meðlimir kirkjunnar látnir greiða fyrir skírnir, giftingar og jarðafarir (sem maður hefði haldið að þeir hefðu greitt með þessum 1400 milljónum!).
Ef skera á fitu af fjárlögum, þarf að gera það í fyrsta lagi á réttum grundvelli (rökin að listamenn eigi bara að fá sér almennilega vinnu eins og venjulegt fólk, eru ekki réttur grundvöllur og segir miklu meira um Ásbjörn en nokkurn tíma listamenn), í öðru lagi með sanngjörnum og réttmætum hætti og í þriðja lagi þannig að grunnstoðirnar haldi sér en gæluverkefni, tilraunir og slíkt sé lagt til hliðar, amk. á meðan kreppu stendur.
Flokkur: Bækur | Fimmtudagur, 7. október 2010 (breytt kl. 09:06) | Facebook
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Heyr, heyr! Ég gæti ekki verið meira sammála þér þarna Þorsteinn.
Margrét Nilsdóttir (IP-tala skráð) 7.10.2010 kl. 12:23
http://ommi.blog.is/blog/ommi/entry/1103882/
Ómar Ingi, 8.10.2010 kl. 19:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.