Hinir upphöfnu og hinir sigruðu

Nýlega setti Björgólfur Thor í loftið vefsíðu sem er fyrir margar sakir merkileg, en síðan hefur þó þann augljósa tilgang að upphefja Björgólf og reyna hafa áhrif á almenningsálitið. Nú berast þær fréttir að Björgvin, fyrrverandi viðskiptaráðherra, sé að skrifa bók um hrunið. Auk þess er Davíð í Hádegismóum og Jón Ásgeir með Fréttablaðið. Hver um sig ætlar sér eflaust að reyna hafa áhrif á hvernig og hvaða mynd er dregin upp af þeim í fjölmiðlum, í þeirri von að tryggja að þeim verði ekki kennt um hvernig fór. 

Það hefur oft verið sagt að sagan sé skrifuð af sigurvegurum. Ef við læsum sögubækur sem segðu frá grimmdarverkum Bandaríkjamanna í Seinn heimsstyrjöldinni, t.d. segðu frá sprengingu kjarnorkusprengjanna á sama hátt og sagt er frá útrýmingarbúðum Nasista, er hættan sú að þær almennu hugmyndir sem fólk hefur um framgöngu Bandaríkjamanna í stríðinu væru aðrar. Enda hefur maður heyrt, að nútímastríð fari á margan hátt fram í fjölmiðlum, áróðurstríð eru jafn mikilvæg og að sigra heri, ná hernaðarlega mikilvægum staðsetningum o.s.frv.

Að sama skapi er það mikilvægt fyrir þessa einstaklinga sem almennt er kennt um hrunið að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og reyna að tryggja að síðar meir muni sagan fara um þá mjúkari höndum en alla hina, en auðvitað var hrunið miklu meira öðrum að kenna, en þeim sjálfum.

Ég spyr mig hvort það skipti máli hvað þeim finnst um eigin gjörðir. Hrunið er staðreynd, það var ákveðnum aðilum að kenna og vonandi munu þeir þurfa axla ábyrgð á gjörðum sínum, fyrr eða síðar. Hið sama gildir um aðra þá sem brjóta af sér í samfélaginu, eru morðingjar einhvern tíma spurðir í drottningarviðtölum (líkt og því sem Sigurður Einarsson fékk í Fréttablaðinu) hvað þeim finnist um rannsóknir saksóknara á gjörðum þeirra? Hvort morð þeirra hafi verið réttlætanleg? Hvort þeir hafi ekki örugglega farið í einu og öllu eftir lögum við framkvæmd morðanna? Þeir sem hruninu ollu eru þar með á sinn hátt orðnir upphafnir, oft einfaldlega af sjálfum sér og af orsökum sem aðeins þeir sjálfir virðast skilja. 

Kannski er ég svona dómharður, en ég tel bara að þessir einstaklingar eigi ekki að fá þá upphafningu af hálfu blaðamanna að hljóta slík viðtöl. Sem leiðir mig að þeim sigruðu. Blaðamenn hérlendis hafa margir hverjir verið fullduglegir í því að klappa og dásama allt það er þessi hópur fólks gerði á sínum tíma, svo jafnvel að þeir urðu þeim samdauna. Jafnvel enn þann dag í dag skortir gríðarlega upp á gagnrýna og skilmerkilega blaðamennsku. Auðvitað eru undantekningar, en mér nægir að benda á fréttatíma Stöðvar 2 til að finna fjölmörg dæmi um hvernig blaðamenn og einkum fréttamenn eru allt að því kúgaðir af þessum hópi, ef svo sterkt mætti til orða taka.

Um daginn sá ég frétt á Youtube sem unnin var af norskri sjónvarpsstöð. Þar var fréttamaður sem tók viðtal við upplýsingafulltrúa Íslandsbanka og spurði ýmissa erfiðra spurninga. Því var upplýsingafulltrúinn ekki vanur og á endanum hrökklaðist hann í burtu og sleit viðtalinu, sem var kannski ekki furða, enda leit hann út eins og fáviti við hlið blaðamannsins.

Mér skilst reyndar, að upplýsingafulltrúar á Íslandi séu gott ef ekki jafnmargir eða fleiri en fréttamenn hérlendis. Margir þeirra hafa unnið á fréttamiðlunum áður og þessi hópur er nú eflaust ekki svo stór, að hægt sé að halda einhverri faglegri fjarlægð. Sú þróun er eflaust ein orsök þess, að hérlendis þrífast illa metnaðarfullir, gagnrýnir og krefjandi blaðamenn - blaðamenn sem reyna umfram allt að upplýsa almenning um alla fleti þeirra mála sem þeir fjalla um, í stað þess að vera með einhliða umfjallanir, sem byggja að mestu á frásögn hinna upphöfnu.  

Munurinn á hinum upphöfnu og þeim sigruðu er sá, að hinir sigruðu eiga sér viðreisnar von. Fyrir hina upphöfnu er fallið hátt og fæ ég ekki séð hvernig þeir geta bætt þann skaða sem ímynd þeirra, persóna og mannorð hefur orðið fyrir, með réttu vil ég þó segja. Eflaust munu sumir þeirra eiga afturkvæmt, sbr. frétt nýlega á Vísi.is um að Björgólfur gæti hugsanlega aftur orðið ríkasti maður landsins, en varla allir. Blaðamenn geta hins vegar, rétt eins og lið sem tapað hefur kappleik, snúið aftur á völlinn og unnið næsta leik. Þeir geta spýtt í lófana og tekið betur á málum næst. Spurt erfiðra spurninga í stað þess að bjóða upp á drottningarviðtöl, líkt og Sigurður Einarsson hlaut fyrir skemmstu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband