Um ábyrgð einstaklinga

Í litlu afmælishófi sem ég hélt á þriðjudaginn, spannst umræða um það vald sem konur hafa í kynferðismálum. Sitt sýndist hverjum, sumum þótti það vera ægivald á meðan aðrir voru á því, að konur þyrftu að hafa einhverja leið til að koma umkvörtunum sínum í þessum efnum á framfæri. Ég geri mér grein fyrir að ég er að feta býsna þrönga slóð með því að koma hugleiðingum mínum um þessi mál á framfæri hérna á vefnum, en það verður bara að hafa það. Ég vona bara að lesendur séu uppfullir af gagnrýnni hugsun og hafi þeir eitthvað fram að færa eða vilja ræða þetta málefni í framhaldi af lestrinum, væri ég þakklátur fyrir að sú umræða færi fram á eðlilegu, vitrænu plani en ekki í formi upp- eða úthrópana eða þaðan af verra.

Ég held, að sú upplýsing sem hefur orðið í samfélaginu er varðar kynferðismál sé að mestu leyti af hinu góða. Um leið og samfélagið hefur þurft að horfast í augu við, að sumir meðlimir þess ganga ekki alveg heilir til skógar að því leyti, þá hefur sú umræða sem hefur skapast í kringum þetta gert fjölmörgum konum og körlum kleift að stíga fram og segja sögur sínar. Sumar hverjar eru hræðilegar og lýsa ótrúlegri illsku og getur maður ekki annað en fundið til með þeim einstaklingum. Sögur af ungum drengjum sem misnotaðir voru á fósturheimilum, stúlkum misnotuðum af einhverjum úr fjölskyldunni eða konum sem nauðgað hefur verið í bænum, allar eru hver um sig harmsaga og hafa slíkir atburðir mikil áhrif á líf þeirra sem koma við sögu hverju sinni. 

Allar þessar upplýsingar, sögur og umræður hafa þó einnig leitt til þess, að maður er í dag mun meðvitaðri um allt það sem maður gerir, segir eða gefur í skyn á einhvern hátt. Eflaust er það af hinu jákvæða, en ég held, að slík ofurmeðvitund geti og hljóti að vera af hinu verra til lengri tíma litið. Fyrr eða síðar, mun það verða til þess að samskipti manna á milli verða heft eða bæld umfram það sem góðu kann að gegna. 

Ég starfaði sem kennari í nokkur ár. Karlkynskennarar í unglingadeild þurfa að búa við það á hverjum degi, að kenna unglingsstelpum sem margar hverjar eru að uppgötva kynferðislegu hlið sína, klæða sig eftir því (stundum frekar frjálslega) og er hegðun þeirra oft á tíðum frekar kynferðisleg. Sumar þeirra prófa sig áfram í daðri og þess háttar á kennurum sínum. Ég ræddi þessi málefni stundum við deildarstýruna og sagði hún m.a. að hættan væri sú, og hún er mjög raunveruleg í huga manns þegar svona stendur á, að þessar stúlkur mis- eða rangtúlki hvaða gerðir manns sem er, klapp á bakið getur í þeirra huga orðið viðreynsla eða kynferðisleg áreitni, t.d. man ég eftir karlkynskennara sem kenndi mér í unglingadeild sem hafði mikla líkamlega nærveru, þ.e. hann lagði oft hönd á bak manns eða öxl þegar hann var að leiðbeina manni og var fyrir vikið uppnefndur perri af nemendum. Ef kvenkynsnemandi sakar karlkynskennara um kynferðislega áreitni, er kennarinn í raun sekur þar til hann er fundinn saklaus, því miður. Þessi ógn, þetta ægivald sem kvenkynsnemendur hafa, er raunverulegt og mjög ógnvekjandi. 

Nú er ég ekki að gera lítið úr þeim tilfellum sem hafa komið upp og reynst hefur að raunveruleg kynferðisleg áreitni hefur átt sér stað. Ég vil alls ekki að það skiljist þannig. Hins vegar hef ég lent í því, að nemandi hafi hótað að kæra mig fyrir kynferðislega áreitni og það var eingöngu fyrir, að biðja viðkomandi um að mæta klædda siðsamlega í skólann. Nemendur vita, að mínum dómi, af þessu vopni sínu og virðast óhræddir við að hóta því að beita því. Ég veit ekki hvernig viðkomandi nemandi talaði um mig við vini sína eftir þetta, eða foreldra, hvort ég hafi verið úthrópaður perri eða þaðan af verra. 

Ég held, að konur (og jafnvel karlar líka) viti af þessu valdi sínu, líkt og nemendurnir í ofangreindri frásögn. Mörk hvers og eins fyrir því hvað er kynferðislegt eru ólík og þar af leiðir getur einfalt klapp á bakið orðið kynferðislegt í huga eins en aðeins verið hugsað sem pepp eða eitthvað svipað. Fyrir vikið er mjög erfitt að sýna fram á kynferðislega áreitni annars vegar, en jafnframt erfitt að afsanna hana. Það gleymist nefnilega stundum í allri þessari umræðu, að fólk er fljótt að dæma og hefur þróunin verið sú, að dæma í hag þeim er sakar annan um slíka áreitni. Jafnvel þó að ekkert bendi til þess að slík hegðun hafi átt sér stað, getur mannorð einstaklings verið lagt í rúst. Að sama skapi hafa konur lent í því, eflaust oftar en við sem samfélag viljum horfast í augu við, að þeim hefur ekki verið trúað og tel ég það jafn slæmt og þegar mannorð saklausra manna eru eyðilögð í annarlegum tilgangi.

Fyrir skemmstu kom þáverandi yfirmaður rannsóknarlögreglunnar í kynferðismálum fram í fjölmiðlum og talaði um, að í misbeitingarmálum væri sönnunarbyrðin enn erfiðari en ella, sérstaklega í málum þar sem þolandi hefur verið útúrdrukkinn eða -dópaður, og man jafnvel ekki eftir verknaðinum. Biðlaði hann til fólks að taka ábyrgð á sér, sérstaklega þegar áfengi væri haft um hönd. Ég viðurkenni þó fúslega að hann komst einstaklega klaufalega að orði og þurfti að rýna svolítið í það sem hann sagði, til að fá þennan botn í það. Ég er hjartanlega sammála honum. Ég held, að fólk, bæði karlar og konur, geti með ábyrgðarfullri hegðun komið í veg fyrir að því sem nauðgað, það rænt eða jafnvel komist hjá barsmíðum og líkamsmeiðingum. Það hlýtur að liggja í augum uppi, að hver og einn einstaklingur þarf að taka ábyrgð á sjálfum sér. Þó svo að ábyrgð geranda sé alltaf alger, þá verður fólk að geta horfst í augu við þá staðreynd, að hægt hafi hugsanlega verið að koma með einhverjum hætti í veg fyrir viðkomandi atburð. 

Ábyrgðin nær jafnvel enn lengra, við þurfum að vera meðvituð um allt það er við gerum, segjum eða gefum í skyn. Það má þó ekki vera þannig, að sú ábyrgð nær bara til karlmanna. Konur sem ákveða að fara að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur, klæddar eins og Britney Spears í myndbandinu Toxic, eru að einhverju leyti að kalla á athygli. Og hvað er þessi athygli reynist einmitt ekki rétta athyglin? Heldur af mun neikvæðari toga? Að sama skapi þurfa karlmenn að bera ábyrgð á því, að haga sér skynsamlega, þrátt fyrir að standa frammi fyrir slíkum kvenmanni. Sem sagt, ábyrgðin er okkar allra og hver þarf að standa skil á sínu. 

Í dag hafa konur þetta vald yfir karlmönnum, á því held ég að leiki enginn vafi, að geta úthrópað þá sem perra eða þaðan af verra, fyrir sakir sem eru ýmist sannar eða ósannar. Að sama skapi hafa karlmenn enn líkamlegt vald yfir konum, margir þeirra hafa lært að nútímakonur fíla ekki að vera lamdar í hausinn með kylfu og dregnar heim í helli á hárinu. Þetta vald þarf að höndla á skynsamlegan og uppbyggilegan máta. Gallinn er hins vegar sá, að allt vald spillir. Karlmenn hafa kúgað konur í aldaraðir (feðrasamfélagið og allt það) en á undanförnum árum hafa konur sífellt öðlast meira og meira vald. Í dag hafa þær m.a. þetta vald, sem karlmönnum stendur mikil ógn af, því erfitt er að hreinsa sig af slíkum ásökunum. 

Auðvelt er að segja, að konur myndu aldrei misnota þetta vald og með því að segja slíkt, að það feli í sér kvenfyrirlitningu. Ég tel það rangt, rétt eins og örlítill hluti karlmanna vílar ekki fyrir sér að nota líkamlegt vald sitt yfir konum, þá hljóta að vera konur þarna úti sem víla ekki fyrir sér að nota það vald sem felst í slíkri úthrópun. Það er nefnilega misjafn sauður í öllu fé, óháð kyni, aldri, stöðu og reynslu. Rétt eins og með nemendur, þó svo langflestir séu skynsamir einstaklingar, eru alltaf undantekningar. Þegar karlkynskennarar reikna með því, að þær undantekningar séu til staðar í hverjum árgangi, felur það í sér nemendafyrirlitningu? Ég held ekki, heldur aðeins viðbrögð og forvarnir til að koma í veg fyrir annars leiðindamál. 

Og það er einmitt það sem allir þurfa að taka til sín, hvort sem það eru karlar eða konur. Við þurfum að bera ábyrgð á okkur, bregðast rétt við og reyna að koma í veg fyrir að aðstæður komi upp sem við viljum síður lenda í. Ef þær koma upp, er tilkynningaskylda vissulega fyrir hendi og ég tel að ekkert megi koma í veg fyrir hana. 

Að lokum, vil ég undirstrika, að ég tel að þolendur eigi aldrei sök á nauðgunum, misbeitingu eða öðrum þeim atburðum er kunna hafa hent þá. Það getur enginn borið ábyrgð á slíku annar en gerandi. Í þessum pistli er ég frekar að fjalla um annars vegar ábyrgð þá sem hvert okkar ber á okkur sjálfu og því valdi sem við höfum. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill um efni sem þarf að fara að skoða betur.  Ég er býsna hrædd við að þessi vakning sem orðin er í kynferðisofbeldismálum (sem auðvitað er af hinu góða) muni, ef ekkert er að gert, skapa samfélag þar sem fólk þorir ekki að snerta hvort annað, hvað þá börn og unglinga sem ekki eru þeirra eigin.  Það getur varla talist jákvætt.  Margir muna eftir að hafa þekkt í barnæsku gamlan mann sem hafði yndi af börnum, sagði þeim sögur og spjallaði og gaf þeim kannski kandís eða sykurmola með kaffitári.  Núna væri svona maður litinn hornauga.  Auðvitað finnast gamlir perrakallar sem laðast að börnum af annarlegum hvötum en hinir eru samt svo miklu fleiri. 

Dóttir mín var að byrja í leikskóla, þar sem mikil áhersla er löggð á jákvæða snertingu (strokur, faðmlög og nudd) og síðasta föstudag í hverjum mánuði er "dekurdagur" þar sem börn fá að striplast, sulla í buslulaug og þau sem það vilja fá nudd, t.d. fótanudd.  Það er rétt að taka það fram að það er enginn karlmaður í starfsliði leikskólans...  Ég velti því fyrir mér hvort þetta væri jafn frjálslegt ef einhver af kennurunum væri karlkyns.  Ég vona það innilega en efast jafnframt um það. 

Margrét Nilsdóttir (IP-tala skráð) 27.8.2010 kl. 12:35

2 Smámynd: Þorsteinn Mar Gunnlaugsson

Góður punktur. Ég er ekki viss um það, með fullri virðingu fyrir karlmönnum, að það væru allir foreldrar jafn kátir með þessa nýbreytni ef það væri karlmenn í starfsliðinu. Mér finnst stundum, af því það eru svartir sauðir innan um allt fé, að allir karlmenn séu dæmdir eftir því og maður þurfi að afsanna sekt sína í þeim efnum. Svolítið erfitt að útskýra það, en dæmið sem þú nefnir gerir það býsna vel. Af því karlmenn hafa verið dæmdir fyrir kynferðisbrot gegn börnum, þá eru miklar líkur á, að foreldrar væru ekki til í að hafa dekurdag á leikskólanum ef þar væru margir karlmenn, þó svo þeir geti alveg sinnt sömu störfum þar innanhúss sem konur og af sömu nærgætni.

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, 27.8.2010 kl. 12:41

3 Smámynd: Ómar Ingi

Áhugavert

Ómar Ingi, 28.8.2010 kl. 15:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband