Ég kom heim frá Tenerife á mánudagsmorgun, eftir 2 vikna frábæra dvöl þar. Það eina sem setti blett á þessa skemmtilegu ferð var það að þurfa fljúga þangað út og heim aftur með lággjaldaflugfélaginu Iceland Express. Þvílíkt og annað eins rusl fyrirtæki! Ég hef flogið nokkuð víða og með nokkrum mismunandi flugfélögum, m.a. Aeroflot, en aldrei nokkurn tíma komist í kynni við jafn skelfilega lélega þjónustu og slappt flugfélag og Iceland Express. Fyrir þessari úthrópun minni eru nokkrar ástæður og mun ég fara yfir þær, hverja fyrir sig.
1. Þegar við lögðum af stað, var 5 tíma seinkun á vélinni. Þetta var á sunnudegi og var flugfélagið svo rausnarlegt að bjóða hverjum farþega 1500 kr. matarmiða í matsölunni á Keflavíkurflugvelli. Ef flugið hefði verið snemma morguns, hefði þetta verið ágæt lausn, en því miður var því seinkað til kl. 20, þannig úrvalið í matsölunni samanstóð af samlokum með majónessalötum, sykruðum mjólkurdrykkjum, gosi, bjór og sælgæti (annað var einfaldlega búið). Ég var með 6 ára dóttur mína með mér og þetta er kannski ekki alveg það sem maður vill bjóða börnum upp á fyrir flug. Annars mátti maður bara bíða, því allar búðir í fríhöfninni voru lokaðar.
2. Í ferðinni út ætlaði ég að panta mat handa okkur feðginum. Við sátum í miðri vélinni, þannig við þurftum að bíða í hálfan þriðja klukkutíma eftir að flugfreyjurnar kæmu með matarvagnanna til okkar. Þegar loks kom að okkur þá pantaði ég úr bæklingnum þeirra, en hvorugt var til, hafði ekki verið tekið með. Nú, þá ætlaði ég að panta handa okkur samlokur en þær voru búnar. Þannig við enduðum á því að borða ávexti og ég keypti auk þess flatkökur en dóttir mín vildi þær ekki. Við biðum því aukalega á flugvellinum án þess að fá almennilegan mat og fengum heldur ekki að kaupa þann mat sem á annars að vera til sölu í flugvélinni (þetta er 5 tíma flug og við vorum mætt 2 tímum fyrir brottför sem auglýst hafði verið með SMS skeyti til farþega, þegar brottfarartíma var breytt snemma morguns, en þeim tíma var síðan seinkað um klukkustund). Þrátt fyrir að hafa borðað ágætlega áður en við lögðum af stað, þá vorum við býsna svöng þegar við komum til Tenerife, klukkan 04 að staðartíma en þá voru engir matsölustaðir opnir.
3. Flugið heim var þó sýnu verra. Í fyrsta lagi var fluginu seinkað um hálfa aðra klukkustund, án skýringa frá starfsfólki. Þær skýringar voru þó fyrir hendi í fyrra fluginu.
4. Við komum frekar seint um borð, enda leiðast mér langar biðraðir og sérstaklega ef þær samanstanda af Íslendingum. Let's face it, við kunnum ekki að standa í röð og berum litla virðingu fyrir þeim. Ég, enn með dóttur mína, leitaði að bæði kodda og teppi fyrir hana, svo hún gæti sofið á leiðinni (flugið lagði af stað um miðnætti) en sá hvergi. Aðeins voru örfáir farþegar með slíkt og þegar ég spurði flugfreyju um þetta, svaraði hún því til að fyrstir kæmu, fyrstir fengu. Ég spurði hvort börn og gamalmenni gengu ekki fyrir, fyrst ekki væri nóg fyrir alla. Flugfreyjan svaraði því til, að hún ætlaði ekki að fara ganga á fólk og taka teppin og koddana af þeim. Henni hefur eflaust þótt betra að hafa grenjandi börn og pirraða foreldra.
5. Flugferðin var frekar bumpy, ef svo mætti að orði komast. Sætisbeltaljósið var á svona 80% prósent af tímanum, með tilheyrandi vanlíðan af hálfu þeirra sem þola slíkt illa, t.a.m. hljóðaði fólk oftar en einu sinni þegar flugvélin skoppaði til og frá í loftinu. Systir mín er ein þeirra sem er mjög flughrædd. Eitt sinn er kveikt var á sætisbeltaljósinu, gengu flugfreyjurnar til að kanna hvort allir væru ekki örugglega með beltin spennt. Segir þá ein kona í sætaröðinni fyrir aftan okkur, að það sé óþarfi að spenna beltin svona í tíma og ótíma (eitthvað orðin pirruð á þessu). Svarar þá flugfreyjan því til, að ekki sé hægt að sjá fyrir hvað gæti komið fyrir, flugstjórinn gæti misst stjórn á vélinni og þá væri voðinn vís. Systir mín tapaði sér næstum af hræðslu við að heyra slíkar yfirlýsingar frá flugfreyjunni. Engin þeirra í þjónustuliðinu gekk um vélina til að róa farþega og aðeins heyrðist einu sinni í flugstjóranum, þar sem hann sagði að við þyrftum að fara í gegnum fleiri slíkar ókyrrðir. Myndi maður ekki ætla að það væri hlutverk þessara aðila að róa og tryggja að farþegum líði vel?
6. Mér var orðið frekar illt í maganum og bað flugfreyju um að færa mér vatn með klaka, þar sem mér finnst ágætt að sjúga klaka þegar svo er. Nei, það var ekki hægt, þar sem klakarnir væru allir bráðnaðir og aðeins hefðu verið teknir með 4 pokar af klökum frá Íslandi. Nú fór það ekki framhjá mér á Tenerife, en þar eru líka framleiddir klakar, þannig vel hefði mátt hugsa fyrir þessu, þar sem töf var hvort eð er orðin á brottför flugvélarinnar. Kannski bara óþarfa frekja í mér.
7. Dóttir mín fékk illt í eyrun á leiðinni út þannig ég var búinn að heyra frá Íslandi gott ráð við því á leiðinni heim, þ.e. að setja blautan pappír í botn tómra glasa og leggja yfir eyrun, það myndi minnka þrýstingin á þau. Ég tók glös með mér úr flugstöðinni og bað flugfreyju um að útvega mér blautan pappír. Í fyrstu horfði hún á mig og sagði: Blautan pappír? Áttu ekki til blautan pappír fyrir mig, svaraði ég, orðinn mjög pirraður. Hún sagði ég gæti farið inn á klósett og bleytt pappír þar, en því miður var kveikt á sætisólaljósinu. Ég útskýrði fyrir henni hvers vegna ég þyrfti blautan pappír og þá fyrst gat hún drullast til að redda þessu fyrir mig.
8. Allt gos kláraðist í fluginu á leiðinni heim, þannig aðeins var vatn í boði (ekki svo að skilja ég hafi eitthvað á móti vatni, þvert á móti, bara til að benda á fleiri atriði sem ekki voru í lagi í þessu flugi).
Nú auk þess væri hægt að tala um þrengslin í flugvélum þeirra, en mér finnst það bara vera hluti af því að ferðast með lággjaldaflugfélagi. Reyndar var það svo, í seinna fluginu að farþegar voru mjög pirraðir og heyrði ég oftar en einu sinni og oftar en tvisvar fólk rífast um hvort það væri hægt að halla sætum aftar og hvort það mætti.
Ef um alvöru lággjaldaflugfélag væri að ræða, þ.e. flugfélag sem býður upp á ferðir sem eru 30-50% ódýrari en hjá venjulegum flugfélögum, þá hefði ég ekkert út á þetta að setja. Flugferðin til Tenerife var hins vegar mjög dýr og almennt séð fæ ég ekki séð hvers vegna Iceland Express kallar sig lággjaldaflugfélag, þar sem verðmunur á þeim og Icelandair er ekki svo hróplegur (nema í einstökum tilfellum, t.d. sérstökum tilboðum á móti venjulegu sæti). Í raun er því þetta enn eitt dæmið um það þegar verið er að taka íslenska neytendur í bólinu.
Ég mun aldrei aftur, ótilneyddur, fljúga með Iceland Express. Þó ekki væri nema fyrir tilsvör flugfreyjunnar um ókyrrðina og nauðsyn sætisbelta, sem að mínu viti er brottrekstrarsök. Að láta farþegum sem líður illa fyrir líða enn verr, gengur svo ótrúlega gegn starfsviði flugfreyja að viðkomandi ætti að sýna sóma sinn í því að stíga ekki aftur upp í flugvél í því hlutverki. Ég hvet auk þess alla til að sniðganga þetta flugfélag, a.m.k. þangað til að þeir rísa undir nafni og bjóða ferðir á verði sem kallast getur lággjalda.
Flokkur: Bækur | Þriðjudagur, 17. ágúst 2010 (breytt kl. 10:15) | Facebook
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.