Landsins stærsti drullupollur

Um helgina skrapp ég niður í bæ og fékk mér ís. Síðan fór ég í göngutúr í kringum tjörnina, svona eins og gengur og gerist. Ég man þegar ég var yngri fór pabbi oft með okkur systkynin niður að tjörn á sunnudagsmorgnum og gáfum við öndunum brauð. Síðan var farið í morgunkaffi til ömmu heitinnar. Mig grunar að þetta hafi verið nokkurs konar samkomulag milli foreldra minna, þ.e. mamma fékk að sofa út á meðan við fórum með pabba. Ég minnist þessara stunda þó með ánægju og hlýju enda var pabbi oft mikið að vinna á þessum árum, bæði sína venjulegu vinnu sem og að spila á föstudags- og laugardagskvöldum. Þarna gafst okkur systkynunum því tækifæri til að vera með honum.

Þó svo við höfum oft verið komin býsna snemma niður að tjörn var það sjaldan svo, að við værum ein á ferð. Fjölmargir lögðu leið sína þangað til að fæða endurnar, sem hópuðust að horninu við Iðnó, gaggandi og ruddust hver fram fyrir aðra með tilheyrandi látum. Stundum voru þær svo svangar að þær átu beint úr lófa okkar.

Ég hef einu sinni farið með Urði þangað niður eftir í veikri von um að endurupplifa þessar sunnudagsferðir með pabba. Því miður flúðum við frá tjörninni, ekki undan öndunum heldur undan mávum hvers konar. Þá reyndi ég að telja sjálfum mér trú um, að þetta væri bara tímabundið ástand, eflaust lítið af fæði í sjónum fyrir mávana.

Um helgina blöskraði mér sú sýn sem mætti mér niðri við tjörn. Þessi staður, sem annars gæti verið hin mesta prýði, birtist mér sem heljarinnar drullupollur. Sólin skein og í bjartviðrinu sá maður vel til botns. Ruslið og draslið sem er þarna er svo yfirgengilegt að ég á fá orð til að lýsa hneykslan minni. Auk þess hefur mávum fjölgað þar svo um munar og ég sá ekki nema eina önd með unga, annað virðist mávurinn hafa étið. Einnig voru mávarnir svo aðgangsharðir og frekir við þá örfáu sem mætu með brauð, að það var ekki lifandi leið fyrir endurnar að komast að brauðinu. Ég prísaði mig sælan að mávarnir skyldu ekki drita á mig.

Mér finnst það vera nauðsynjaverk borgaryfirvalda að hreinsa tjörnina og fjarlægja mávana. Það er skelfilegt til þess að hugsa, að þessi annars skemmtilegi staður skuli hafa verið hertekin af þessum fljúgandi rottum og ekkert skuli vera gert til að stemma stigu við það. Bæði er hægt að skjóta varginn sem og eitra fyrir honum. Það hlýtur að vera borginni til gagns og íbúum hennar til gamans, að tryggja að tjörnin fái notið sín og sá skemmtilegi siður að gefa öndunum brauð leggist ekki niður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

Það væri gott ráð ef fólk hætti að gefa öndunum brauð, sem er ekki andamatur. Þá myndu mávarnir hverfa og þá væri tjörnin hreinni. Allt brauð sem endurnar éta ekki mengar vatnið.

Vendetta, 19.7.2010 kl. 11:11

2 Smámynd: Þorsteinn Mar Gunnlaugsson

Hvað með gosdósirnar, hljóðkútana og annað drasl í tjörninni? Ekkert af þessu myndi hverfa þó brauðferðir íbúa myndu hætta. :S

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, 19.7.2010 kl. 11:31

3 Smámynd: Vendetta

Það er alveg rétt. En brauðið gerir vatnið fúlt, þar eð það notar súrefni úr vatninu þegar brauðið brotnar niður og eykur við þessa þykku, lífrænu úrgangleðju, sem liggur á botninum. Auðvitað hefði átt að hreinsa Tjörnina mikið oftar en það var gert, amk. tvisvar á ári í staðinn fyrir einu sinni á áratug. Ímyndið ykkur ef vatnið í sundlaugum borgarinnar væri hreinsað einu sinni á 10 ára fresti. Þannig hafa endurnar á Tjörninni það.

Vendetta, 19.7.2010 kl. 11:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband