Naflaskoðun

 Á kvöldin finnst mér oft fínt að fara út að hjóla. Bruna niður Elliðaárdalinn, framhjá laxveiðimönnum, bleikum, brúnum og gráum hestum og tugum marglita kanína sem skoppa þar áhyggjulausar fram og aftur. Maður verður einhver veginn minna var við borgina, hún fjarlægist þrátt fyrir ég sé staddur í henni miðri og einmitt á þeim stundum finnst mér gott að hugsa.

Undanfarnar vikur hef ég stundað mikla naflaskoðun. Pælt í því hver ég sé, hvers vegna ég er eins og ég er og hvernig ég vil vera. Sumar af þeim hugleiðingum mínum hef ég birt hér á blogginu enda finnst mér mjög þægilegt að hugsa niður á blað, ef svo mætti að orði komast. Það kemst meira skipulag á pælingarnar og mér finnst líklegra að þannig skili þær mér einhverju.

Í kvöld fór ég í hjólatúr í úða og smá golu. Ég fór minn venjulega hring og fór að hugsa um, hvers vegna mér gengur illa að láta samböndin mín ganga upp. Það virðist vera mér erfitt að láta alla þessa litlu hluti smella saman. Ég þaut áfram á hjólinu og fór í höfðinu yfir öll þau sambönd sem má flokka sem alvarleg og reyndi að sjá hvað þau áttu sameiginlegt, eða öllu heldur, hvað fór úrskeiðis, yfir hverju kærusturnar kvörtuðu helst og hvar ég klikkaði. 

Það atriði sem kom hvað oftast upp var nánd. Ég á mjög erfitt með nánd og held fólki undantekningalítið í fjarlægð frá mér. Mig grunar að það komi líka oft út sem hroki, þó svo það sé ekki hugsað þannig. Mér finnst, einhverra hluta vegna, erfitt að hleypa fólki mjög nærri mér og hef auk þess sjálfur litla þörf fyrir nánd. Hugsanlega mætti segja að ég væri haldinn nándarfælni. Barnsmóðir mín var vön að segja að ég væri félagsfælinn. Mér finnst ekkert erfitt að sýna dóttir minni nánd, tilfinningar eða slíkt, en ég lendi í vanda með aðra. Þetta kemur eflaust út sem mikill kuldi, því ég sýni sjaldan hluttekningu, samúð eða slíkt. Ekki af því ég finn ekki til með fólki, heldur á ég bara erfitt með að tjá slíkar tilfinningar. Mér finnst ég hljóma undarlega, falskur og asnalega þegar ég reyni. 

Ég hef stundum velt þessu atriði fyrir mér, enda hefur þetta oft komið upp í mínum samböndum. Ég get orðið mjög kaldur, ætli rétta orðið sé ekki fráhrindandi, og innhverfur (ekki einhverfur!). Suma daga finnst mér bara betra að fá að vera í friði og pæla í hlutunum. Aðra daga á ég auðveldara með að gefa af mér, sem ég stundum reyni en eflaust mætti ég gera meira af því. Að minnstu kosti hefur hún móðir mín skammað mig fyrir að vera oft of kaldur við dóttur mína. 

Annað atriði sem kemur oft upp er hve erfitt sé að rökræða (lesist rífast) við mig. Ég er mjög kappsamur og því miður hættir alltof of oft að grípa til hroka og besserwissma í rökræðum mínum við fólk. Ég reyni að gera það ekki, en geri mér oft ekki grein fyrir því fyrr en of seint, að ég hafi gert lítið úr þeim sem ég rífst við hverju sinni. Ég hef reynt að komast hjá slíkum aðstæðum eins og mér er unnt, vegna þessa en því miður þá er það ekki alltaf hægt. 

Þriðja atriðið sem hefur títt verið nefnt er hve upptekinn ég er af sjálfum mér. Ég á mér mörg áhugamál, sem ég reyni að iðka eins vel og mér er unnt. Auk þess á ég dóttur sem ég reyni að sinna sómasamlega. Fyrir vikið hef ég ekki oft mikinn tíma aflögu fyrir kærustur og oft ekki verið tilbúinn að fórna of miklu. Hvað segir það manni? Jú, eflaust hef ég bara ekki verið nógu ástfanginn eða ég er bara svona sérstaklega sjálfselskur. Mér þykir jú vænt um áhugamálin mín og er kappsamur í þeim, eins og rökræðunum. Spurning hvort ég ætti ekki að vera jafn kappsamur í samböndunum?

Þetta er kannski ekkert sérstaklega spennandi mynd sem maður dregur upp af sjálfum sér; kaldur, fjarlægur, hrokafullur besserwisser sem hefur engan tíma fyrir neitt nema sjálfan sig. :D 

Ég held reyndar að ég hljóti líka að hafa einhverja kosti til að bera, en ætla að geyma það þar til seinna að pæla í þeim. :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

bíddu nú við, bleikir hestar?

Ásta Magg (IP-tala skráð) 13.7.2010 kl. 22:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband