Sumarfrí

Nú er Urður Ýr komin í sumarfrí, þ.e. næstu 5 vikurnar verður hún hjá mömmu sinni en kemur síðan til mín aftur og eyðir næstu 5 vikum með mér. Þetta er þriðja sumarið sem þetta er með þessum hætti og þó svo hún sé hjá okkur foreldrum sínum viku og viku til skiptis, þá fylgir sumarfríinu alltaf sérstök tilfinning. Í senn er þetta ákveðinn léttir, ég get jú bara gert það sem mig langar til að gera þegar mig langar til þess, en hins vegar líka söknuður, því þegar hún er hjá mér þá miðast nær mest allt við hana.

Ég fór út að skemmta mér á föstudagskvöldið, sem er vart í frásögur færandi. Vinnufélagi minn ákvað að bjóða fullt af fólki til sín og úr varð hið skemmtilegasta partý. Er því var lokið var haldið í bæinn og satt best að segja, þá var það bara alls ekki jafn skemmtilegt. Yfirleitt þykir mér ekki gaman að fara í bæinn, bara til að fara í bæinn, það er fínt með góðum hópi sem nær að halda sér nokkuð saman. Ég er ekki það félagslyndur að ég nenni eða yfirhöfuð þori að vinda mér upp að næstu manneskju og byrja spjalla. Einhvern veginn finnst mér það alltaf líta út eins og viðreynsla eða eitthvað þannig. Ég hugsa, ef Urður hefði verið hjá mér og þá væntanlega í pössun, þá hefði ég ekki farið niður eftir. Afsakað mig með því að þurfa að vakna snemma til að sækja hana.

Ég held, að hún sé sú manneskja sem mér finnst hvað allra þægilegast að hafa í kringum mig. Hún þekkir mig það vel, að láta mig bara vera þegar þannig liggur á mér en getur þó komið mér í gott skap á einfaldan hátt. Við eigum líka auðvelt með að skemmta okkur saman og mér finnst ég ekki þurfa að vera með neina tilgerð með henni. Enda væri það undarlegt, þar sem hún er jú dóttir mín.

Það er samt svo skrýtið, eftir reynslu mína sem kennari og knattspyrnuþjálfari, að margir foreldrar virðast mér stundum setja sig í ákveðnar stellingar gagnvart börnunum sínum. Auðvitað er þetta ábyrgðarhlutverk, að ala upp barn, en mér finnst að mesta ábyrgðin hljóti að felast í að barnið sér hamingjusamt og ánægt. Ég held, að sú hamingja sem byggist á einhverju sem er ekki alveg raunverulegt, hljóti að vera býsna brothætt.

Á morgun er átakið Til fyrirmyndar. Mér finnst þetta stórgóð hugmynd. Bæði vekur þetta mann til umhugsunar, hverjar eru fyrirmyndir mínar, hvað finnst mér til fyrirmyndar og hvernig get ég verið til fyrirmyndar. Ég hef áður skrifað um hversu mikilvægt mér það er, að vera Urði Ýr til fyrirmyndar, á svipaðan hátt og foreldrar mínir hafa alltaf verið mér til fyrirmyndar. Eftir hún fæddist og fór að læra tala, hef ég t.d. reynt að gæta betur að orðavali, því ég vil ekki hún blóti jafn mikið og ég var vanur að gera. Ég held, að börn hafi þessi áhrif á foreldra sína. Maður vill ekki að þau geri sömu mistök og maður sjálfur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband