Ljós í myrkri

Mér líður stundum eins og ég hafi lent í snjóflóði. Að öskrandi veggur ís og krapa hafi kaffært mig. Ég hef reynt að krafsa mig áfram, búa mér til andrými og átta mig á hvað snýr upp og hvað snýr niður. Í myrkrinu hef ég orðið var við fleiri í flóðinu, misáttavillta. Sumir svo brenglaðir undan högginu að þeir hafi reynt að telja sér trú um að ekkert flóð hafi átt sér stað, aðrir reynt að finna hverjum það var að kenna en fæstir af þeim sem í heyrist hæst hafi reynt að bjarga og róa fólkið í kringum sig.

Fyrir nokkrum dögum náði ég að stinga hönd upp úr snjónum. Ljós flæddi niður til mín og blindaði í fyrstu. Ég er enn að jafna mig af ofbirtunni en gleðin yfir því að sjá loksins ljós er fölskvalaus og innileg. Innan úr ísköldu myrkrinu heyri ég að fleiri en ég hafa upplifað hið sama. Nú þarf ég bara að koma líkamanum upp úr flóðinu.

Ég óttast hins vegar að flóðið hafi kaffært marga og sumir eigi ekki afturkvæmt. Og því miður hafi alltof margir komið sér hjá því að veita okkur í flóðinu hjálparhönd. Tækifærin til að moka ofan þeim sem lentu undir flóðinu hafi verið mörg en í stað þess að skipuleggja björgunaraðgerðir, hafi sumir staðið hjá, horft á snjó falla úr himnum ofan og skeytt engu um hróp hina bágstöddu á hjálp. Jafnvel gerst svo óforskammaðir að moka enn meira ofan á þá, til að kæfa raddir þeirra.

Sagan mun dæma þá og hefur fyrsti dómurinn nú þegar fallið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband