Það kom stundum fyrir að við tíkin mín værum ekki alveg sammála um eitthvað er tengdist henni. Henni fannst t.d. að hún ætti að fá að komast oftar út og lengur í hvert skipti en það var vissulega misjafnt eftir dögum. Stundum kom ég kannski seint heim úr vinnu og hafði litla orku til að hlaupa upp fjöll og firnindi með henni, lét því oft duga að fara með hana út í garð. Hún átti þá stundum til að láta skoðun sína í ljós með afgerandi hætti, lagðist við fætur mínar, dæsti og vældi. Jafnvel kom fyrir hún gæfi skít í skoðanir mínar (í orðsins fyllstu merkingu).
Nú held ég að hún hafi ekki verið almennt þunglynd og hafi jafnan liðið vel hjá mér þó vissulega hafi komið fyrir að við værum ekki sammála um allt. Kosturinn hins vegar við hunda er sá, að þar er lífið allt mun einfaldara og samskiptin þar af leiðandi líka. Ef hún var ósátt þá vældi hún og lét þannig vita af sér, ef málið var alvarlegra en svo þá komst maður ekkert hjá því að finna fyrir því. Ef hún var glöð og ánægð, þá dillaði hún skottinu og sýndi gleði sína á þann hátt sem hundar gera. Þeir bera nefnilega tilfinningar sínar og líðan utan á sér.
Við manneskjurnar höfum búið okkur til svo flókið samskiptamynstur að oftar en ekki gerum við okkur sjálf ekki almennilega grein fyrir því hvernig okkur í raun og veru líður hverju sinni. Tungumálið er ótrúlega öflugt fyrirbæri en það setur okkur líka ákveðnar skorður og hömlur, svo ekki sé minnst á hvernig félagsleg viðmið, gildi og slíkt þröngvar okkur í ákveðin form. Það hefur vissulega sína kosti, en getur líka haft þau áhrif að við missum sjónar á því hver við erum í raun og veru og hvað við viljum standa fyrir. Hættan er alltaf sú, að við förum frekar í eltingarleik við það sem aðrir vilja við séum og stöndum fyrir og er það ekki bara tungumálinu að kenna, heldur samfélaginu í heild sinni sem og okkur sjálfum.
Fyrir skemmstu var sýnd kvikmyndin Meet the Fockers á Rúv, stórskemmtileg mynd í alla staði. Um leið og leikið er með vandræðaleg augnablik þá er telft fram tveimur fjölskyldumynstrum sem eru um margt ákaflega ólík. Annars vegar hefðbundin fjöldskylda (ef það er til eitthvað þannig) og hins vegar fjölskylda sem brýtur mjög gegn hinu hefðbundna. Þó svo við Íslendingar teljum okkur langt komna á vegi jafnréttis, þá var margt í þessari mynd sem fékk mig til að hugsa. Ég efast auk þess ekki um, að þessar andstæður eru jafnvel enn sterkari í bandarísku samfélagi.
Ég er alinn upp í mjög hefðbundnu fjölskyldumynstri. Ég á nokkrar systur og foreldrar mínir hafa hangið saman í gegnum árin, gegnum súrt og sætt. Þau viðmið og gildi sem okkur systkynunum voru kennd eru ekki ólík þeim er almennt þekkist. Í raun mætti segja að við höfum fengið vísitöluuppeldi. Æfðum íþróttir, lærðum á hljóðfæri, send til mennta o.s.frv. Í raun lagt upp með að koma okkur hamingjusömum til vits og ára, eins og er vonandi markmið flestra foreldra.
Hluti af uppvexti mínum fór, eins og hjá flestum, í að rökræða og rífast við foreldra mína. Pabbi er þannig gerður, að það er gríðarlega erfitt að rökræða við hann, bæði vegna þess að hann á mjög auðvelt með að finna sterk rök með máli sínu sem og vegna þess hann á það til að setja hlutina þannig fram, að manni finnst sem þau rök sem maður hefur séu einskis virði. Mér skilst á fólki sem þarf oft að rífast við mig að mér hættir til að gera þetta líka. Maður lærir víst það sem fyrir manni er haft, ekki satt?
Í þessu finnst mér oft samskipti okkar manna vera of flókin. Það er í raun alveg ótrúlegt, í senn bölvun og blessun, að hægt skuli að vera túlka samskipti á óendalega marga vegu. Og oft eru þessar túlkanir byggðar á fyrirfram mótuðum hugmyndum, viðmiðum eða gildum sem við höfum lært. Í senn flýtir það fyrir en oft flækir það hlutina um of, að mínu mati. Hver hefur ekki lent í því að þurfa leiðrétta misskilning sem er byggður fyrst og fremst á því hvernig samskipti voru túlkuð fremur en hvað í raun og veru kom fram?
Stundum sjáum við nefnilega ekki skýrt í gegnum samskiptamynstrið, líkt og í Meet the Fockers þá er búið að meitla í stein eitthvað mynstur og frávik ekki vel séð. Hins vegar getur frávikið verið alveg jafn gott og stundum jafnvel betra. Við sjáum dæmi um þetta t.d. í málefnum barna sem búa á tveimur heimilum foreldra sinna sem hafa sameiginlega forsjá með þeim. Fyrir nokkrum áratugum hefði þetta þótt óhugsandi, ólíðandi og hreint út sagt ómanneskjulegt gagnvart börnum. Maður verður jafnvel enn var við slíkan hugsunarhátt. Annað gott dæmi er viðhorf samfélagsins til samkynhneigðar og hvernig það hefur breyst á undanförnum árum, að mínu mati til hins betra.
Ég held nefnilega, að við sem manneskjur og sem samfélag verðum að þroskast. Líkt og tungumálið tekur breytingum með hverri kynslóð þarf samfélagið að þroskast og breytast. Á hverjum degi læri ég eitthvað nýtt, þá sérstaklega um sjálfan mig og mér finnst ég miklu nærri því að skilja sjálfan mig í dag en fyrir t.d. 15 árum. Og ég er viss um að ég muni standa enn nokkuð nálægt því eftir önnur 15 ár.
Flokkur: Bækur | Mánudagur, 14. júní 2010 (breytt kl. 16:16) | Facebook
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.