Draumar

Þegar ég var á aldur við dóttur mína fylgdist ég hugfanginn með þáttum Davids Attenboroughs. Fyrir utan áhuga minn á dýrum fannst mér heillandi að sjá í þættinum farið úr einu heimshorni í annað, allt með það að markmiði að upplýsa áhorfendur um einhver ótrúleg fyrirbrigði í náttúrunni. Og allt gert á þann hátt sem hefur orðið einkennandi fyrir David Attenborough, þ.e. frásögnin í senn upplýsandi, áhugaverð og upplifunin öll af áhorfinu hin ánægjulegasta. Að sjá hóp af háhyrningum ráðast á sandlægjukýr með kálf og drepa kálfinn, moskítóflugur étnar af froskum, gírafa slást um hylli lóða kvendýrs, allt sett fram svo maður sat á öndinni og ég ákvað snemma ég skyldi verða eins og David Attenborough, hann var mín helsta fyrirmynd. Ég ætlaði að verða dýralífsfræðingur og vera líka með þyrluflugmannsréttindi, svo ég gæti flogið með tökuliðið á milli staða.

Það varð nú lítið úr þessum framtíðaráætlunum mínum, en ég horfi enn með öndina í hálsinum á þætti sem Attenborough kemur nálægt. Meira að segja fæ ég enn bækur sem hann hefur skrifað í tengslum við þættina sína í jólagjöf frá fjölskyldu og vinum. Bækur tengjast samt þó næstu framtíðaráætlunum mínum.

Ég var svo heppinn að vera í grunnskóla í bekk sem var mjög misjafn að getu. Foreldrar mínir eru reyndar á því að það hafi alls ekki verið lán mitt, en ég held ég búi enn að þeim tíma. Kennari minn á þessum tíma var ekkert of upptekinn af því að skaffa okkur, sem vorum eitthvað örlítið hroðvirkari en bekkjarfélagar okkar, aukaverkefni. Enn síður vildi hann að við héldum áfram í námi okkar umfram það sem áætlun hans sagði til um. Það hefur eflaust ekki verið gaman, hvorki í grunnskóla né menntaskóla, að hafa mig verkefnalausan inni í tíma, reyndar efast ég líka um það hafi nokkuð verið gaman þegar ég hafði eitthvað að gera. Hef hugsanlega verið þolanlegur þegar ég svaf eða þagði. Hvað um það, téður kennari tók upp á því að senda okkur út úr tímum og niður á bókasafn. Í fyrstu fannst mér það frekar vera refsing en hitt, en smátt og smátt fór ég að finna mér bækur til að lesa. Mig grunar að ég hafi eytt stærstum hluta af minni grunnskólagöngu í lestur á hvers kyns bókum og las allt sem vakti minnsta áhuga hjá mér. Narnía, Frank og Jói, Tom Swift, Tolkien, Enid Blyton, Indriði Úlfsson og svo mætti lengi telja. Svo þegar ég fór að læra ensku tóku R.A. Salvatore, Terry Pratchett, Stephen King og fleiri höfundar við af barnabókahöfundunum. Þannig kynntist ég H.P. Lovecraft. Félagi minn átti dágott safn af smásögum eftir þennan merka hrollvekjuhöfund. Ég las þær af mikilli áfergju, sumar þeirra aftur og aftur og fann að þetta var eitthvað sem mig langaði til að gera. Að skrifa hrollvekjur.

Ólíkt draumnum um að verða dýralífsfræðingur, ákvað ég að eltast við þann draum að verða rithöfundur. Ég skráði mig í íslensku í HÍ og aldrei þessu vant reyndi að láta lítið fara fyrir mér og lagði mig jafnvel fram við námið. Ég sat alla þá kúrsa sem ég komst í er tengdust á einhvern hátt ritlist og reyndi að hlusta eftir hverju orði og tileinka mér það sem verið var að kenna. Þær voru ófáar næturnar sem fóru í skriftir og ég lét mig dreyma um að komast einhvern tíma í tölu þeirra rithöfunda sem eru gefnir út. Ég lagði einkum rækt við að skrifa hrollvekjur, svokallaðar furðusögur (weird fiction), stefna sem jafnan má rekja til Lovecrafts.

Því miður var áhugi útgefenda ekki jafn mikill og minn. Ég mætti með hvert handrit á fætur öðru til þeirra en fékk jafnharðan neitun, með þeim skilaboðum að handritið væri ekki nógu gott, þó efnilegt og vildu gjarnan fá að sjá meira. Vonir mínar glæddust er Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson var gefin út, að hugsanlega væru útgefendur að opna augun fyrir einhverju öðru en spennusögum og dramatískum, íslenskum skáldskap. Allt kom fyrir ekki, enn fékk ég höfnun eftir höfnun á meðan rithöfundar fengu útgefið sem ég, í hroka mínum, taldi eftir lestur bóka þeirra ekki vera með jafn góð handrit og ég. Hugsanlega hefur þar spilað inn í hve ég hef litla rækt lagt við að tengja mig inn í þennan bókmenntaheim og enn minni áhuga hef ég haft á að koma mér á framfæri með öðrum hætti, t.d. í sjónvarpi, útvarpi. Þannig í raun er ég bara eins og hvert annað skúffuskáld með rithöfundadrauma og eflaust ekkert sérstakt sem slíkt.

Nú eftir hrunið hefur mér sýnst að áhugi útgáfna á að gefa út óþekkta rithöfunda vera annars frekar lítill. Hugsanlega fá einhver ungskáld gefið út en mín tilfinning er sú, að möguleikar mínir fari sífellt minnkandi. Og hvernig á ég að bregðast við því? Ég held, að ég sé ekkert endilega með verri handrit en hver annar, amk. fá þau ágæta dóma þeirra er lesa að útgáfum undanskildum. Á ég að halda áfram að skrifa fyrir skúffuna eða berja frekar höfðinu við steininn? Mæta ár eftir ár og banka upp á hjá útgáfustjórum sem eru eflaust flestir fyrir löngu hættir að lesa það sem ég sendi þeim? Eða ætti ég frekar bara að hætta þessu, taka bitra, fúla gaurinn á þetta og sýna þeim fingurinn fyrir að vilja ekki gefa mig út? Ég held ekki.

Ég er farinn að skoða þriðja möguleikann og hugsanlega verður það minn næsti draumur. Ég vona að hann rætist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband