Að kunna að tapa

Ég kann ekki að tapa. Svo einfalt er það. Ég er óheyrilega tapsár og gildir einu hvers lags spil eða keppni um ræðir, ég reyni að vinna eftir fremsta megni. Sumar keppnir standa mér vissulega nærri en aðrar, en mér finnst engu að síður alltaf jafn leiðinlegt að tapa. Ég verð sár, pirraður út í sjálfan mig og jafnvel þá sem voru með mér í liði, ef svo ber undir. Áður fyrr átti ég erfitt með að leyna þessum tilfinningum mínum en eftir því sem árin hafa færst yfir hefur það svona komist í meiri vana, þó svo þeir sem þekkja mig vel sjái að ég verð fúll yfir tapi.

Ég get verið jafn leiðinlegur sigurvegari og ég er tapsár. Það hlakkar oft í mér og ég get velt mér lengi upp úr glæstum sigrum mínum á kostnað þeirra sem töpuðu. Einhverra hluta vegna nægir mér ekki bara að fá klapp á bakið og hamingjuóskir, ég verð að fá að strá salti í sárin og snúa fingri í þeim líka. Ég vona, að ég þekki mig nógu vel núorðið að geta haft aðeins meiri hemil á mér en áður. Maður myndi ætla að það væri kosturinn við að eldast. Eitthvað verður maður nú að græða á því.

Af þessum sökum fannst mér mjög gaman að hlusta á Sóleyju Tómasar tala í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Eins og gefur að skilja, þá er hún tapsár vegna gengis VG í síðastliðnum borgarstjórnarkosningum, en eins og sönnum stjórnmálamanni sæmir, þá er stórtap flokks hennar (þau töpuðu jú helming þeirra borgarstjórnarfulltrúa sem þau höfðu áður) ekki henni að kenna. Hún hafði skýringar á reiðum höndum, kjósendur vildu refsa fjórflokknum, það var ráðist hart gegn henni og hennar persónu og fullt af svona bla-bla skýringum.

Þetta hljómaði í mínum eyrum svolítið eins og þegar ég hef tapað fótboltaleik og kenni dómaranum, vellinum, meðspilurum, veðri og áhorfendum um ósigurinn. Gallinn við að vera tapsár, er oftast nær sá, að maður sér ekki að tapið er manni sjálfum að kenna. Það er enginn annar sem tapar leiknum nema maður sjálfur og því verður maður að bæta sig fyrir næsta leik, laga það sem gekk ekki og gagnrýna sjálfan sig.

Sóley heyrðist mér ekki vera á þeim buxunum. Þrátt fyrir að 8-9% kjósenda flokksins hafi strikað hana af lista hans, þá tók hún það ekki til sín. Enda skiptir það ekki máli. Það skiptir heldur ekki máli að flokkur hennar tapaði miklu fylgi í borginni undir hennar forystu. Það sem skipti máli og hún taldi höfuðástæðu þessa fylgistaps, var að VG er í ríkisstjórn, mikil innanflokksátök, ádeilur á feminíska áherslur og fleiri sem lágu ekki hjá henni persónulega.

Auk þess ætlar hún að kanna réttarstöðu sína gagnvart þeim sem gagnrýndu hana og fjölluðu um hana í aðdraganda kosninganna, því þar hlýtur jú að liggja enn ein ástæða þess hún tapaði svo miklu fylgi sem raun bar vitni. Mig grunar að umfjöllun DV um ummæli hennar um hún hafi óttast að eignast dreng, ummæli Agnesar Bragadóttur um að Sóley sé feministafastisti og fjölmargar bloggfærslur ásamt tilsvörum við þeim sé henni ofarlega í huga er varðar hugsanlegar málsóknir.

Ég held hins vegar að skýringin sé einfaldari. Mér finnst Sóley Tómasar koma illa fyrir og virkar mjög leiðinleg á mig, sama hve hún reynir að brosa. Það má vel vera að hún hafi frábær málefni og vatnsheld rök fyrir þeim, en hún er bara svo innilega fráhrindandi og öfgafull að ég gæti aldrei hugsað mér að kjósa hana, þó hún væri ein í framboði. Það má vel vera ég sé með fordóma og leiðindi, en mig langar bara ekkert til að kjósa þessa manneskju og hreinlega skil ekki hvernig nokkur getur gert það. Og hegðun hennar núna staðfestir enn frekar þá skoðun mína. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband