Að hafa vit á því að þegja

Ég stend mig stundum að því að hugsa hluti sem eru gjörsamlega út í hött. Hluti sem eru hreint út sagt heimskulegir. Fyrir einhverjar sakir dúkka þessar hugsanir upp í kollinum á mér, eiginlega eins og óboðnir gestir í lokuðu hófi. Stundum get ég glott út í annað að eigin hugsunum og sannast eflaust þar hið fornkveðna, að heimskur hlær að sjálfs sín hugsunum. Ég lá t.d. í baði fyrir skemmstu og var eitthvað að spá og spekúlera. Þá kom sú pæling upp í kollinum á mér, hvort maður gæti smitað sjálfan sig af HIV?

Sem betur fer er ég nú oftast einn þegar kjáninn kemur yfir mig, ef svo mætti að orði komast. Mig grunar, að ég gæti átt það á hættu að missa út úr mér eitthvað af þessum pælingum mínum ef einhver væri sífellt í kringum mig til áheyrnar og samræðna. Ég á reyndar hund, sem dvelur þessa dagana hjá Söru, systur minni, og ég hef átt alveg ótrúlegar samræður við hann. Þessi hundur, sem er reyndar tík, er líklega besti hlustandi sem nokkur getur átt, því hún mótmælir aldrei og finnst allt jafn afskaplega áhugarvert sem ég segi, óháð efni, stað og stund. Einu skiptin sem hún nennir ekki að hlusta á mig, er þegar hún fær að borða, enda upptekin og hundar tala ekki á meðan þeir borða.

Þegar ég var að alast upp var lögð á það rík áhersla að ég hugsaði áður en ég talaði og ef ég hefði ekkert jákvætt að segja, ætti ég að þegja. Því fer fjarri að ég hafi hlýtt þessu í einu öllu, eins og fjölmörg dæmi sýna en er óþarft að týna til, enda skipta þau sem slík ekki máli. Síðastliðin ár hef ég reynt að venja mig á þetta og stend mig að því að þegja býsna mikið. Dóttir mín talar stundum um, að það sé alltaf mjög sérstakur svipur á andliti mínu þegar ég er að hugsa, það myndist hrukka á milli augna minna og augabrúnirnar síga. Henni finnst þá sem ég hljóti að vera reiður.

Mér finnst reyndar ágætt að þurfa ekki að segja neitt, heldur fá bara að þegja. Fæst orð hafa minnsta ábyrgð. Það liggur líka betur fyrir mér að skrifa það sem ég er að hugsa en að tala um það. Mér finnst t.d. fínt að fara einn að veiða og standa út í vatni svo tímunum skiptir án þess að segja nokkurn skapaðan hlut. En svo koma stundir þar sem ég hef mikið að segja og finnst mikilvægt að koma því frá mér.

Undanfarið hef ég oft óskað þess að sumir sem tala í fjölmiðlum leggðu meiri rækt við það að þegja. Ég er t.d. alveg viss um, ef Dagur B. Eggertsson myndi sleppa því að tala svona í helming þeirra skipta sem hann fær tækifæri til þess og þegar hann kæmi í fjölmiðla myndi hann stytta mál sitt um svona aðeins meira en helming, þá væri hlustandi á hann.

Ég var á leið frá Þingvöllum í morgun eftir að hafa átt þar næðisstund með vatninu í nokkra klukkutíma og heyrði viðtal sem tekið var við hann í morgunþætti á Rás 2. Þar var hann m.a. spurður um hvort hann tæki til sín þá gagnrýni sem birst hefði víðsvegar í aðdraganda kosninganna og eftir þær, að hann væri froðusnakkur (það var ekki orðað nákvæmlega þannig, en merkingin fór ekkert á milli mála). Hann var hugsi um stund en svaraði því síðan játandi. Þar hefði hann átt á stoppa en hafði ekki vit á því. Þess frekar flutti hann fimm mínútna ræðu um innihald stjórnmála, nauðsyn breytinga og ábyrgð fjölmiðla og ég er viss um, ef hann hefði ekki svarað játandi í upphafi svarsins, þá hefði ég verið engu nær um afstöðu hans.

Og í morgun, eftir að hafa hlustað á Dag í útvarpinu, kom ein svona pæling upp í hausnum á mér. Hvernig ætli Dagur kveðji konuna sína á morgnana? Ætli honum nægi að segja bara bless?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

HAHAHAHAHAHA

Síðasta setningin er góð

bless.

Ómar Ingi, 6.6.2010 kl. 12:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband