Færsluflokkur: Matur og drykkur
Fyrir nokkrum dögum datt ég inn á blogg Hildar Lilliendahl, þar sem hún gagnrýnir matseðilinn í mötuneyti grunnskóla sonar hennar. Hún hefur margt til síns máls, eflaust má það til sanns vegar færa að hluti af matseðlinum er kannski ekki af hollasta tagi. Engu að síður vakti þetta mig til umhugsunar, þar sem sá matseðill sem var birtur er ekki svo ólíkur þeim sem ég kannast við heima hjá mér. Börnin mín hafa oft fengið rétti sem á seðlinum er að finna, hversu hollir sem þeir kunna að vera. Er ég þá að gera eitthvað rangt? Ætti ég að vera gefa börnunum mínum meira grænmeti, oftar speltbrauð, sojaborgara eða spínatsalat?
Á sama tíma hefur verið nokkur umræða um offitu þjóðarinnar, sem á víst að vera sú feitasta í Evrópu. Í fréttum hefur komið fram að þjóðin hafi þyngst mjög síðustu tvo áratugi, en hafi verið langt undir meðallagi í kringum 1940. Erum við að fitna vegna þess við erum ekki að gefa börnunum okkar nógu hollan mat?
Þegar ég hugsa aftur, þá man ég ekki betur en ég hafi fengið kjötbollur, fiskibollur, gúllas, bjúgu, pylsur, slátur, soðin fisk, skyr og allt þetta sem ég held að flestir Íslendingar kannist við sem hefðbundinn heimilismat. Nú þegar ítölsk matreiðsla komst í tísku þá fengum við líka spaghetti og lasagna og pasta. Margt af þessum mat er, þegar allt kemur til alls, ekkert sérstaklega hollur. Hann er fituríkur, kjötið oft salt og unnið. Hins vegar, þegar maður pælir í því, þá höfum við Íslendingar nær alltaf borðað frekar saltan mat, ekki satt? Saltur matur geymist aðeins betur en ferskur. Samt á líkaminn ekki að fá nema örlítið af salti á hverjum degi.
Hins vegar, á sama tíma og þetta var á boðstólnum, þá var ég að stækka, á fullu í íþróttum og var grennri en góðu hófi gengdi. Þegar ég vaknaði borðaði ég morgunkorn með mjólk, oft sykrað og síðan hljóp ég eða hjólaði út á fótboltavöll og var þar allan liðlangan sumardaginn. Á veturna hnoðaðist maður með vinunum í snjónum eða fór á skíði. Auk þess var ég að æfa bæði fótbolta og handbolta. Tók strætó eða gekk á æfingar og heim aftur. Sem sagt, brennslan var sífellt í gangi hjá mér.
Nú hin síðari ár hefur heldur betur hægt á brennslunni og hef ég fitnað til jafns við það. Börnin mín eru hins vegar á svipuðum stað og ég var á þeirra aldri. Dóttir mín æfir fimleika og jazzballet, sonur minn fótbolta og bæði borða þau hefðbundinn heimilismat á hverju kvöldi. Stundum soðið, stundum steikt, kartöflur, hrísgrjón, fiskur, kjöt, grænmeti, ávextir, gos, snakk og nammi. Hvorugt þeirra telst vera eitthvað sérstaklega feitt, eiginlega þvert á móti. Þegar þau eru að taka vaxtakippi borða þau mikið, minna þess á milli. Þau þrífast, að ég tel, ágætlega á þessu misjafna fæði. Þau eru reyndar send út daglega til að leika sér, æfa mikið og djöflast svo að brennslan er eflaust ágæt hjá þeim báðum.
Auðvitað er óhollt mataræði vandamál. Og hefðbundinn íslenskur heimilismatur er almennt fituríkur, á því leikur enginn vafi. Um leið og við höfum öðlast meiri og betri skilning á gæðum matar, þá minnkar sífellt sú hreyfing sem við stundum. Á sama tíma og þjóðin tók að fitna, urðu skólar einsetnir. Börn voru sem sagt látin sitja lengur í skólum. Skóladagurinn lengdist, en sá tími sem þau höfðu til að hreyfa sig og brenna þeirri orku sem þau innbyrtu styttist. Menntayfirvöld brugðu t.d. ekki á það ráð að fjölga þá leikfimitímum á móti, þeir eru enn jafn margir og þegar ég var í tvísetnum skóla. Störfum sem kalla á mikla setu, skrifstofustörfum og þess háttar, fjölgaði um leið. Einnig varð sprenging í fjölda skyndibitastaða. Ekki má gleyma tilkomu netsins og leikjatölva. Margir foreldrar, sérstaklega í Reykjavík, veigra sér einnig við að senda börn sín, sérstaklega þegar þau eru í yngri kantinum, út að leika, bæði af ótta við umferð sem og hljóta fréttir af barnamisnotkun og mönnum sem tæla börn upp í bíla að hafa sín áhrif.
Sem sagt, á síðustu árum hefur hreyfing barna og fullorðinna minnkað, en matarvenjurnar ekki tekið jafn örum breytingum. Þannig vandamál er ekki bara næringarfræðilegs eðlis, heldur samfélagslegs. Auðvitað er hollt fyrir okkur að taka upp betri og fjölbreyttari matseðil, en á sama tíma hljótum við að sjá, að öll þessi kyrrseta barna og fullorðinna gerir það að verkum að brennsla þeirra hefur minnkað. Við erum hætt að þurfa alla þá orku sem í hefðbundna matseðlinum fólst. Börn þurfa reyndar enn og munu alltaf á fituríkum mat að halda, sérstaklega þegar þau er að vaxa. En gæta verður þó að því, að fitan sé fjölbreytt og holl. Sú spurning sem óhjákvæmilega rís í huga mínum, er hvort ætli gagnist fólki betur að hreyfa sig meira eða borða hollari fæðu? Eða er þetta kannski beggja blands, hreyfa sig oftar og stilla óhollu mataræði í hóf?
Ég hef engar áhyggjur af því ef börnin mín fá álíka mat í skólanum hjá sér og Hildur birtir á bloggi sínu. Ég veit að þau hlaupa þessa orku af sér, enda vön því. Hins vegar gera það ekki allir. Þar liggur kannski hundurinn grafinn. Sumir fá jafnvel enn fituríkari mat þegar heim er komið, skyndibita, snakk og þess háttar. Á meðan aðrir fá eða eru vanir að borða mat sem er töluvert hollari en á matseðlinum kemur fram. Hvar liggur línan? Hvernig er hægt að brúa bilið sem er á milli þeirra sem þurfa mikla orku, brenna hverju sem er og þeirra sem þurfa litla orku? Hvernig er það hægt í jafn stóru mötuneyti og grunnskóli er?
Matur og drykkur | Þriðjudagur, 25. október 2011 (breytt kl. 13:34) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar