Dragonlance: Dragons of Despair (3. hluti)

Þegar hópurinn var búinn að hvíla sig í hofi Mishakal var ákveðið að leggja af stað á ný. Fyrst var hofið kannað og fundu þau skáp einn forvitnilegan. Í honum voru margar forvitnilegar skræður, sem virtust hafa haldist heillegar þrátt fyrir að vera aldagamlar. Einhvers konar álög virtust vera á skápnum sem héldu bókunum sem nýjum. Eftir að hafa skoðað skápinn gaumgæfilega hélt hópurinn áfram ásamt gully dvergunum fjórum, sem vildu ólmir komast niður því þeir þurftu að fara í vinnuna. Adran fór á eftir þeim og komst að raun um að fyrir neðan hofið var einhvers konar grafhýsi eða katakombur. Innst í þeim voru tveir drekamenn við stóran hjólabúnað, sem stýrði gangi risastórra, svarta potta sem héngu í þykkri keðju en voru látnir síga í gegnum gólfið. 

Hann sneri aftur með þessar fregnir og ákvað Vestri að fá gully dvergana til að draga að sér athygli. Hann kenndi þeim leikinn Hó! Drekamaður, en leikurinn gekk út á, að dvergarnir ættu að segja Hó, drekamaður í hvert sinn sem þeir sæju slíka veru. Gully dvergarnir hlupu af stað og innan tíðar heyrðist síendurtekið: Hó, drekamaður! og virtust hinir gully dvergarnir læra leikinn mjög hratt og sló hann í gegn hjá þeim, við litla hrifningu drekamannanna og Ogresins sem var með þeim. 

Hetjurnar læddust niður í katakomburnar og hittu þar fyrir gully dvergakonu að nafni Bupu (hó, drekamaður). Hún virtist stíga örlítið meira í vitið en aðrir gully dvergar, því hún sá fljótlega að hetjurnar voru utanaðkomandi og erindi þeirra, af látbragði að dæma, var líklega drekamönnunum ekki að skapi. Eftir nokkrar samningsumleitanir tókst hetjunum þó að sannfæra Bupu um að hjálpa sér og sýndi hún þeim leynileiðina niður í borgina (hó, drekamaður). Hún var þó ekki auðfarin, því bæði þurftu hetjurnar að renna sér niður ruslarennu, sem gekk ekki áfallalaust fyrir sig og berjast við stórvaxnar kóngulær. Einnig kynntust þær afturgengnum skattheimtumönnum og vitkum, sem líklega höfðu dáið er þegar logandi fjallið féll á Krynn.

Bupu sýndi þeim hvar hetjurnar þurftu að klifra niður, en vafningsjurtir mynduðu eins konar vef utan á vegg í hellinum þar sem rústir Xak Tsaroth hvíldu. Mikill foss féll þar yfir sem gerði klifur erfitt. Enda kom á daginn að bæði Lorieth og Adran misstu takið og féllu niður. Lorieth náði á síðustu stundum að bjarga sér fyrir sakir fjölkynngi sinnar, honum tókst að galdra sig aftur að veggnum en dróst niður með honum og rétt náði taki á vafningsjurt áður en hann féll áfram niður. Adran reyndi að bjarga sér en allt kom fyrir ekki. Hann skall með ógnvænlegum dynki á hellisgólfinu, þar sem stræti Xak Tsaroth lágu, og þegar hetjurnur komu niður var hann látinn. Bjuggu þær um líkið til bráðabirgða svo hægt væri að gera útför hans sem virðulegasta.

Nú voru góð ráð dýr, hetjurnar voru komnar ofan í rústir (hó, drekamaður) borgarinnar í leit að diskunum, Lorieth mjög særður og Adran látinn. Þær létu þó ekki deigan síga og töldu Bupu á að sýna þeim aðra leynileið en nú inn í bæli drekans Onyx. Bupu leiddi hetjurnar áfram inn í rústir verslunarhúss, en á gólfi þess var hleri sem á var ritað: LEINI (sneru bæði E og N öfugt). Fór Vestri á undan hópnum og sá að illskeyttar margfætlur gættu inngangsins í bælið. Var þó ákveðið, eftir umtalsvert þref, að láta til skarar skríða þá leið og láta skeika að sköpuðu gegn margfætlunum. Hetjurnar komust að raun um að margfætlurnar voru langt frá því erfiðar viðfangs og komust óséðar inn í bælið, en þó tókst þeim ekki að koma að drekanum óvörum. Því Onyx hafði lagt álög á innganginn og ef einhver fór um hann glumdi við mikill bjölluhljómur í bælinu. Þetta heyrði fangi drekans, sem ætlað var að verða næsta máltíð hans. 

Hetjurnar stukku inn í bælið og litu í kringum sig, þær sáu hvar fanginn var bundinn við súlu eina, og af útbúnaði hans að dæma var þar riddari frá Sólamníu á ferð. Drekinn ruddist inn í bælið sitt og tókst mikil orrusta með þeim. Vestri, Lorieth og Brash gerðu harða hríð að Onyx á meðan Pieter reyndi að losa fangann. Thol og Dalía leituðu að diskunum á meðan í fjársjóði drekans. Þegar Onyx sá hvert erindi þeirra var, hafði Dalía komið auga á diskana. Hún stökk að þeim og greip þá. Um leið heyrði hún röddina sem hún hafði heyrt þegar hún kom inn í hofið, röddin áminnti hana á að bera stafinn með stolti. Hún sá hvar drekinn kom aðvífandi og sló til hans með stafnum. Höggið var gott og kom beint á höfuð drekans. Um leið blindaði hvítt leiftur alla þá sem þar inni voru. Þegar hetjurnar sáu á ný voru drekinn og Dalía horfin. Þær leituðu í öllu bælinu en hún virtist algjörlega vera horfin. Þær sópuðu til sín fjársjóði drekans og gerðu sig líklegar til að snúa aftur upp i hofið.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Spunaspil

Höfundur

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Faðir, spunaspilari, vefstjóri, rithöfundur

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 0786932546.01.LZZZZZZZ
  • SkullcapMountain
  • SkullcapMountain
  • ...llustration
  • ...lay_1620698

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband