Leita í fréttum mbl.is

Dauði Facebook

facebook-graveyard-image-1-689921216

Nokkrir fjölmiðlar hérlendis virðast leggja nokkurn metnað í að segja frá fréttum af tilvonandi, spáðum eða ímynduðum dauða Facebook. Þessar fréttir eru misvel unnar, að mér sýnist, yfirleitt er vitnað í aðra fjölmiðla sem örugga heimild í stað þess að skoða uppruna þeirrar fréttar sem vísað er til. Til dæmis birti Pressan grein fyrir nokkru um að þann 14. mars yrði Facebook lokað. Þessi orðrómur gekk í skamma stund á netinu fyrir um mánuði en Facebook svaraði orðróminum fljótlega og bar hann til baka, eins og glöggir netnördar hafa komið auga á, t.d. á vefum á borð við Mashable. Nú í morgun birtir Pressan grein unna upp úr grein Berlingske tidende, sem aftur vísar í grein í Politiken. Báðar greinarnar byggja á rannsókn sem gerð var í Danmörku og hefur verið þó nokkur umræða um þá rannsókn og hvaða niðurstöður hafa verið dregnar úr henni, t.d. hefur verið gagnrýnt að þær tölur sem stuðst er við í henni eru meira en ársgamlar (sjá hér)

Er Facebook að deyja?

Þetta er mjög áhugaverð spurning og gaman að velta vöngum yfir þessu atriði, sérstaklega í ljósi þess hvernig fór fyrir Myspace og Friendster á sínum tíma. Þó verður að gæta þess að Facebook er orðið miklu mun stærri vefur en hinir tveir voru við fall og hve Facebook hefur markað sig rækilega sem hluti af daglegu lífi fólks, og þá sérstaklega hérlendis. Þetta eru helstu styrkleikar Facebook og þess vegna held ég, að markaðsfólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að vörumerkja- og fyrirtækjasíður þeirra verði gagnslausar á einni nóttu. Ég meina, hvert ættu 600 milljón notendur að hverfa? Enn sem komið er hefur enginn vefur komið fram sem gæti tekið við af Facebook. Fyrir nokkrum mánuðum var mikil eftirvænting fyrir Diaspora en eitthvað virðist hafa dregið úr henni. Er það þá Twitter? Einhver af samfélagsmiðlunum sem treysta á farsíma, á borð við Foursquare?

Mikið hefur verið rætt um öryggismál á Facebook og þá staðreynd að vefurinn selur persónuupplýsingar til þriðja aðila. Þetta atriði hafa margir talið að muni verða til þess að Facebook hverfi. Ég er ekki sammála því. Yngsti hópur notenda hefur allt önnur viðmið hvað varðar deilun en eldri notendur, sá hópur hefur alist upp við að vera á samfélagsmiðlun þar sem þau deila og dreifa því sem þeim sýnist. Eldri hópurinn virðist heldur ekki taka þetta nærri sér, því í hópurinn +55 ára er sá sem stækkar hvaða hraðast á Facebook.

Þar erum við hins vegar farin að nálgast það sem ég tel að muni á endanum fella Facebook. Ég sat nefnilega um daginn á Grillhúsinu og á borðinu við hliðina á mínu sátu 6-7 eldri borgarar og voru að tala um það sem þau höfðu verið að gera á Facebook um daginn. Þá fannst mér ekkert sérstaklega töff að vera á Facebook og ég get rétt ímyndað mér hvernig unglingum hefði liðið ef nokkur þeirra hefði hlýtt á samræður gamla fólksins. Þegar mamma, systir hennar og afi eru komin á Facebook, að setja miður töff athugasemdir við myndir (,,Æ, ertu búinn að klippa þig? Þú sem varst svo sætur þegar þú varst lítill, með krullur og Lúlla litla bangsa!") eða stöðuuppfærslur, þá finnur sá hópur sér nýjan samfélagsmiðil, eitthvað sem er töff og ekki staður mömmu og pabba.

Hvað tekur þá við?

Hvað það verður, veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá, segir í þekktu jólalagi og mér sýnist það vera raunin með hvað taki við af Facebook. Sá vefur er svo gríðarlega sterkur, að það er erfitt að sjá fyrir sér hvað gæti tekið við af honum. 

Ég á 7 ára dóttur, sem er aðeins farin að fikra sig áfram á netinu. Hún fær að heimsækja tvær síður í tölvunni minni, sem hvor fyrir sig er samfélagsvefur. Annars vegar Club Penguin og hins vegar Moshi Monsters. Báðir vefirnir ganga út á leiki og að börn geti búið sér til einhvers konar gervipersónu, sem þau síðan nota til að kynnast öðrum, mætti jafnvel kalla þetta Social-Media/pre-Virtual reality. Henni finnst þetta mjög skemmtilegir vefir og á vini þar, rétt eins og ég hef eignast vini í gegnum Facebook, Twitter og alla þá samfélagsmiðla sem ég stunda.

Ég veit ekki hvort það verði framtíðin, að einhvers konar virtual reality samfélagsmiðlar verði raunin, en það er þó alveg jafn ólíklegt og hvað annað. Yngstu kynslóðirnar, sem alast upp innan þess umhverfis, munu hugsanlega kalla eftir slíkum miðli þegar hún eldist.

Eins er alveg jafn líklegt að næsta stóra stökk í samfélagsmiðlum verði í gegnum símatækni og tengist þá enn frekar staðsetningu notandans en áður. Facebook er að taka þátt í því með tilkomu Facebook Places, en nú þegar hefur notkun á því hafist, t.d. á Írlandi. Mig grunar, að sú kynslóð sem muni mestu ráða um næsta stóra samfélagsmiðil séu þeir einstaklingar sem eru 10-12 ára um þessar mundir. Eftir 4-8 ár mun sá hópur hafa fundið sér nýjan miðil og verður spennandi að sjá hvað kemur upp úr hattinum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Faðir, spunaspilari, vefstjóri, rithöfundur

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband