Leita í fréttum mbl.is

Læk og læk

facebook-like-buton

Eitt af því sem maður þarf að gera upp við sig þegar búin er til Facebook síða fyrir vörumerki eða fyrirtæki er með hvaða augum á að líta á það þegar einhver smellir á líkar-við hnappinn. Það er nefnilega ekki alveg sama læk og læk, ef svo mætti að orði komast. Af því sem ég hef séð á netinu þá virðast a.m.k. íslenskt markaðsfólk hafa mjög mismunandi skoðun á þessu, því sumar síður virðast mjög uppteknar af því að fá sem flest læk, aðrar síður leggja frekar á áherslu á að fá réttu lækin og enn aðrar fara leið sem er svolítið beggja blands. Allar leiðir eiga rétt á sér og það er í raun ekki hægt að fullyrða að eitt sé betra en annað, því allar leiðir hafa sína kosti og galla og geta verið hentugar í sumum tilfellum en ekki öllum.  

Fyrsta leiðin, sú að safna sem flestum aðdáendum, er góð til að ná sem mestri dreifingu og góðum sýnileika. Í sumar urðu flestir íslenskir Facebook notendur eflaust varir við ógrynni af Smelltu-á-like-og-bjóddu-öllum-vinum-þínum leikjum, þar sem mislitlar líkur voru á að maður ynni eitthvað. Reyndar er sú leið ekki leyfileg samkvæmt reglum Facebook, en var hins vegar aðferð við að ná í sem flest læk, hún virkaði þar að auki því margar síður sem tóku upp á þessu náði mjög fljótt í marga aðdáendur. Ég er hins vegar á þeirri skoðun, að fylgja reglum og hvet engan til að taka þá leið upp (fyrir utan að hún getur komið aftan að manni, eins og mbl lenti í á sínum tíma). Ef þér er umhugað um að ná sem flestum læk, fá sem mestan sýnileika og fá notendur til að deila síðu eða efni þínu, þá eru til aðrar aðferðir. Það er hægt að fara þá leið sem átakið mottumars fór og býður upp á núna, þ.e. að vera með heimasíðu þar sem Facebook social plugin er vel sýnilegt og mjög auðvelt að deila því efni sem er á síðunni. Íslandsbanki var einnig með frábæra útfærslu áheitahluta Reykajvíkurmaraþons síðasta sumar, þar sem maður gat t.d. sett mynd af sér inn í myndband og deilt síðan myndbandinu á Facebook, í tölvupósti og hvað eina. Hvor herferð um sig byggir fyrst og fremst á tvennu utan við góð málefni, flottu innihaldi og góðri sýnilegri leið til að deila því á helstu samfélagsmiðlum. Segja mætti að innihald sé grundvöllur þess að ná í læk. Flott innihald sem skiptir notendur máli kallar á læk.

Helsti gallinn við þessa leið er sá, að notendur eru ekki endilega kjörmarkhópur tiltekins vörumerkis, t.d. gæti innflytjandi á léttvíni sem er með rosalega flott innihald, fyndið og skemmtilegt, lent í því að fá mörg læk frá annað hvort þeim sem hafa ekki áhuga á, drekka ekki eða hafa ekki aldur til að kaupa léttvín (Það er reyndar hægt að stilla hversu gamall notandi þarf að vera orðinn til að mega læka). Jú, það mætti líta á það sem áskorun, en það gæti orðið verkefni sem gleypir allan tíma þinn í stað þess að vera sinna hópnum sem skiptir þig mestu máli.  

Sú leið að hugsa frekar um að fá læk frá þeim skipta þig mestu máli, þ.e. markhópnum, er einnig góð. Hún er mun hægvirkari og kallar á meiri vinnu af þinni hálfu. Þú þarft að leita uppi notendur eða treysta því að þeir finni þig af eigin hvötum. Fyrir vikið þarftu að eyða meiri tíma í að hlusta og vera virkur notandi. Á móti kemur þá endarðu líklega með hóp sem dyggur og trúr og tekur þátt í því sem þú ert að gera á netinu. Þannig mætti segja að þú værir smátt og smátt að byggja upp aðdáendahópinn þinn. Að sjálfsögðu skiptir þá jafn miklu máli að vera innihald sem skiptir notendur máli, sem þeir tengja við eða hafa gagn og gaman af. Dæmi um slíka síðu (svo ég segi nú aðeins frá því sem ég hef tekið þátt í) er Maybelline- Reykjavík á Facebook. Aðdáendum síðunnar hefur sífellt farið fjölgandi og hefur þar verið lagt upp með að vera með innihald sem er fræðandi og gagnlegt notendum, um leið og vörumerkinu er haldið á lofti.

Helsti gallinn við þessa leið er sá, að þetta tekur vinnu og kallar á mikla þolinmæði. Á meðan fyrri leiðin getur verið ágætis spretthlaup þá er seinni leiðin maraþon og þá skiptir máli að hafa þol til að endast út allt hlaupið. Það getur jafnvel verið svekkjandi að sjá samkeppnisaðilana fara í gegnum einhverja læk leiki  og fjölga aðdáendum sínum um nokkur hundruð, jafnvel þúsund, en þegar allt kemur til alls, þá skapa læk ein og sér ekki tekjur. 

Svo er hægt að fara blandaða leið, þ.e. að fá notendur í lið með sér og dreifa síðunni, t.d. til þeirra vina sinna sem þeir telja að hafi áhuga á viðkomandi vörumerki eða fyrirtæki. Hún sameinar kosti hvorrar leiðar fyrir sig, en hefur þann galla að aðdáendur geta fengið það á tilfinninguna að vörumerki sé örvæntingarfullt ef það er gert oft.

Niðurstaðan er sú, að innihaldið er það sem skiptir mestu máli. Það kallar á læk. Það eru margar síður fyrir t.d. Red Bull orkudrykkinn, en ein þeirra er með yfir 19 milljón aðdáendur á meðan hinar eru langt frá því. Enda er á þeirri síðu (sem er sú opinbera) ótrúlega mikið af góðu efni sem tengist drykknum og því sem hann stendur fyrir. Hið sama mætti segja um Starbucks.

Þegar þú hefur skoðað innihaldið og gert upp við þig hvaða leið þú vilt fara í að safna aðdáendum þá verður auðveldara fyrir þig að meta lækin þín. Ef þú velur fyrri leiðina og hægt safnast af aðdáendum, þá þarftu að endurskoða áætlunina. Eins ef seinni leiðin verður fyrir valinu og færð skyndilega mörg hundruð aðdáendur á skömmum tíma, þá er eitthvað að gerast sem er ekki eðlilegt. Læk getur þannig verið mælitæki.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Faðir, spunaspilari, vefstjóri, rithöfundur

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband