Leita í fréttum mbl.is

Auglýsingar á Facebook

Nær öll vörumerki og fyrirtæki sem eru með viðveru á Facebook hafa eða munu á einhverjum tíma auglýsa síðuna sína. Enda engin furða, þar sem það er góð leið til að ná í aðdáendur og minna á vörumerkið. Það er þó ekki sama hvernig auglýsingin er gerð úr garði, ekkert frekar en aðrar auglýsingar. Þetta er tiltölulega lítið pláss sem stendur til boða og fá stafabil, það þarf því að vera klókur og stundum að hugsa örlítið úr fyrir kassann. Ég ætla þó ekki að fjalla um hvernig gera eigi slíkar auglýsingar, til þess eru aðrir betur fallnir en ég. Hins vegar langar mig til að fara aðeins yfir nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar farið er af stað með slíkar auglýsingar, hvort sem um Facebook ad er að ræða eða sponsored story.  

Miðun

Auglýsingar á Facebook bjóða upp á mjög mikla miðun (e. targeting) og það skyldi síst vanmeta. Þú getur skoðað hvernig samsetning aðdáendahóps þíns er á aðdáendasíðunni þinni og þannig séð hvort þú ert að ná til þess hóps sem þú alla jafna telur markhópinn. Þó þarf miðunin ekki bara að vera bundin við kyn eða aldur, heldur geturðu einnig sett inn ákveðin hugtök, t.d. fótbolti eða tónlist (á ensku að sjálfsögðu), og þá birtist auglýsingin þeim sem hafa áhuga á hvoru tveggja. Eru þær upplýsingar dregnar út frá því hvaða síður notendur hafa gerst aðdáendur að. Þannig geturðu náð eyrum þeirra sem virkilega hafa áhuga á því sem þú ert að segja. Að lokum eru tveir möguleikar í miðuninni sem er vert að minnast á, annars vegar sá að auglýsingin birtist bara þeim sem eru ekki aðdáendur eða öfugt og hins vegar að birta auglýsingu vinum þeirra sem eru aðdáendur. Seinna atriðið getur verið mjög öflugt því oft hafa vinir svipuð áhugamál.

Hvert leiðir auglýsingin?

Þegar þú hefur ákveðið hver á að sjá auglýsinguna er ágætt að huga að því hvert hún á að leiða þá sem smella á hana. Hvort sem þú ákveður að leiða fólk inn á facebook síðuna þína eða inn á vefsvæðið þitt, þá mæli ég eindregið með því að þú búir til lendingarsíðu. Það er einfalt að búa til slíka síðu á Facebook, bæði er hægt að notast við FBML síðu og eins er hægt að búa til viðbót (e. application) sem gerir sama gagn. Lendingarsíðan á þá að innihalda ítarlegri upplýsingar og jafnvel hvetja þá sem þangað koma til að gera eitthvað, taka þátt eða með einum eða öðrum hætti að fanga þá. Heilsa og Hamingja gerði þetta ágætlega, en þar var lendingarsíða einfalt próf sem kannaði hvort viðkomandi væri að fá nægan svefn, en til að taka þátt í könnuninni þurfti að vera búið að smella á Like. Þannig fjölgaði aðdáendum um leið og þeir fengu eitthvað gildi úr þátttöku sinni, þ.e. upplýsingar um hvort þeir væru að sofa nóg.

Það hefur sína kosti og galla að senda þá sem smella á hvorn stað fyrir sig. Með því að færa umferðina á þitt eigið vefsvæði gefst þér enn betri kostur á að mæla umferðina. Einn af öllum þess að færa umferðina yfir á Facebook síðu er einmitt sá að geta ekki fylgst nákvæmlega með því hverjir smella á auglýsinguna, hversu lengi þeir dvelja á Facebook síðunni og gert viðeigandi ráðstafanir ef þær upplýsingar eru þér ekki þóknanlegar. Það er reyndar hægt með hliðarleiðum að fela vefmælingu inn á facebook síðum en til þess þarf aðeins meira en almenna vefþekkingu.

Fjármagn

Þá er komið að því að ákveða hversu miklu þú vilt eyða í auglýsingakostnað. Persónulega er ég mun hrifnari af því að borga fyrir birtingar en smelli, reynslan hefur kennt mér að þannig fái ég meira fyrir peninginn. Hins vegar er það enginn heilagur sannleikur. Besti skólinn er reynslan og ef það hefur virkað fyrir þig að borga fyrir smelli, þá er það frábært. Facebook leggur til ákveðna upphæð, ég býð yfirleitt eitthvað undir henni. Það er þó alltaf hægt að breyta upphæðunum og mikilvægt að prófa sig áfram. 

Fylgstu vel með á hverjum degi

Það er einfalt mál að fylgjast með því hversu oft auglýsing birtist, hvert smellihlutfall hennar er og hvaða áhrif hún hefur. Ekki hika við að prófa þig áfram, t.d. vera með mismunandi auglýsingar fyrir kynin, prófa ólíkar myndir og svo framvegis. Annað sem er gott að hafa huga þegar verið er að fylgjast með gengi auglýsinga er sú staðreynd að oft fá notendur svokallað borðablindni, þ.e. hætta að sjá auglýsingu eða vefborða. Ef þér finnst auglýsing hætt að virka eftir nokkra daga, þá mæli ég eindregið með að henni sé breytt.

---

Það er þó ekkert jafn lærdómsríkt og að prófa sig áfram sjálfur. Mistök eru til að læra af þeim.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Faðir, spunaspilari, vefstjóri, rithöfundur

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband