Sunnudagur, 6. mars 2011
Ráðstefna ÍMARK
Ég sat á ráðstefnu ÍMARK á föstudaginn og hlustaði þar m.a. á Scott Bedbury fjalla um mörkun og vörumerki. Einnig komu tveir aðrir fyrirlesarar sem fjölluðu hvor um sig annars vegar um markaðssetningu fyrir farsíma og hins vegar um samfélagsmiðla. Eins sýndi Capacent niðurstöður úr könnun sem unnin var fyrir ÍMARK og kannaði hvernig markaðsstjórar sjá fyrir sér 2011 og markaðssetningu. Það var mjög ánægjulegt að sjá hve netið er í örum vexti og kom fram að um 60% markaðsstjóra ætla að eyða meira markaðsfé í markaðssetningu á netinu en í fyrra. Ég tel það mjög jákvætt, enda eru að vaxa upp kynslóðir á Íslandi sem horfa hvorki á sjónvarp né lesa dagblöð, en fylgjast með því sem vekur áhuga þeirra á netinu, t.d. hlaða niður sjónvarpsþáttum eða fylgjast með fréttaveitum á netinu.
Einn fyrirlesaranna kom með mjög góðan punkt, nokkuð sem er mjög þörf áminning. Hann spurði: Ef þú ákveður að skilgreina ekki vörumerki þitt á samfélagsmiðlum, þá gerir einhver annar það fyrir þig.
Þetta er satt. Á samfélagsmiðlum spretta upp nýjar síður daglega og því mikilvægt að fylgjast vel því sem þar er að gerast. Notendur eru auk þess orðnir vanir því að til séu sérstakar vörumerkjasíður, sumir jafnvel leita þær uppi og nota til að tjá sig um viðkomandi vörumerki. Því er mikilvægt að tryggja að vörumerki þitt sér sýnilegt og að þú komir að því að skilgreina það. Ef þú lætur einhverjum öðrum það eftir, er hættan alltaf sú að það endurspegli ekki vörumerkið eins og æskilegt væri. Einnig er gott að hafa í huga, t.d. á aðdáendasíðum Facebook eða Twitter, að sá sem svarar fyrir hönd vörumerkisins sé einhver sem þekkir vel til þess og sé innmúraður og innvinklaður (amk. trúverðugur sem brand ambassador), svo maður grípi til vel þekktra klisja. Sé sá sem svarar bara einhver út í bæ, gæti viðkomandi skemmt meira en hitt, t.d. með því að svara með þjósti þeim sem gagnrýna vörumerkið.
Annað sem kom fram, hjá Scott Bedbury ef ég man rétt, var að Facebook er ekki markaðsstrategía. Þeir sem hafa lesið Markaðssetning á netinu eftir þá Kristján Má Hauksson og Guðmund Arnar Guðmundsson ættu að vita að samfélagsmiðlar flokkast hreinlega sem tæki eða tækni. Samfélagsmiðlar eru nokkuð sem við notum til að framfylgja markaðsplaninu. Að segja að vörumerki þurfi að hafa t.d. aðdáendasíðu á Facebook, af því allir samkeppnisaðilarnir eru með þannig, er því harla gott markaðsplan. Ef þú ákveður að vera á samfélagsmiðlunum, þá þarftu að hafa eitthvað að segja, eitthvað að miðla og vera tilbúin/-nn að hlusta og taka þátt í samtalinu af heiðarleika og sanngirni. Það er ekki nóg að bara vera með óvirka síður, heldur þarftu að hafa eitthvað markmið og það á að stýra aðgerðum þínum, óvirk eða dauð síða sem enginn sinnir er jafnvel verra en að vera ekki með síðu. Ég legg til, ef þú hefur ekki kynnt þér það nú þegar, að lesa um POST módelið í bók þeirra Kristjáns og Guðmundar.
Að lokum kom fram nokkuð í íslensku pallborðsumræðunum sem var áhugavert. Liv hjá Nova sagði, að næsti stóri samfélagsmiðillinn yrði Foursquare. Ég setti þetta inn á Twitter og það sköpuðust nokkuð áhugaverðar umræður um þessa fullyrðingu. Þó flestir séu sammála um að markaðssetning út frá staðsetningu (e. location based marketing) sé næsta skref hér á Íslandi (þetta er komið í gang fyrir nokkru úti í Bretlandi og Bandaríkjunum) þá eru ekki allir sammála því að Foursquare verði stærsti samfélagsmiðilinn hvað það varðar. Facebook mun bráðlega bjóða upp á svipaða tækni, Facebook Places, og mér finnst líklegt að Íslendingar, miðað við hve notkun okkar á Facebook er mikil, eigi eftir að tileinka sér það frekar en Foursquare. Mig grunar nefnilega, að sá miðill sé svolítið eins og Twitter. Fyrir tveimur árum var mikið talað um að Twitter ætti eftir að taka við af Facebook, en það hefur enn ekki gerst hérna á Íslandi, þó Twitter sé stór t.d. á Bretlandseyjum. Að því sögðu, þá er hins vegar engin ástæða til að horfa framhjá Foursquare, eða nokkrum öðrum samfélagsmiðli. Ef viðkomandi miðill hentar í markaðssetningu hjá þér, markhópurinn þinn er þar og þú sérð þér hag í nota miðilinn, þá skaltu ekki hika við að prófa þig áfram á miðlinum.
Í það heila var ráðstefnan áhugaverð og skemmtileg, sérstaklega var fyrirlestur Scotts Bedburys góður. Á föstudaginn kemur er síðan RIMC ráðstefnan, þar sem verður sérstaklega fjallað um markaðssetningu fyrir farsíma og ég hlakka mikið til heyra hvað kemur þar fram.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.