Leita í fréttum mbl.is

Landslag skýjanna

4368038546_7bba168cbd_o

Samfélagsmiðlar hafa verið býsna mikið í umfjöllun undanfarin misseri. Bæði hefur ÍMARK lagt nokkra áherslu á þetta efni í fræðslu sinni og eins er heilmikil umræða meðal almennings um það. Svo sem engin furða, þetta er tiltölulega nýtilkomið og við erum enn að læra á alla þá, kanna hvaða möguleikar eru í boði, hvað gengur og hvað ekki. Þetta risastóra markaðstorg getur nefnilega verið svolítið ógnvekjandi en jafnframt mjög spennandi. Það sem við höfum lært hingað til höfum numið af reynslu okkar, markaðsmenn deila reynslusögum en gallinn er bara sá, að það sem gengur hjá einum þarf ekki endilega að ganga upp hjá öðrum, rétt eins og með aðra miðla. 

Þó svo Facebook sé sterkasti samfélagsmiðillinn hér á Íslandi, þá fer því fjarri að hann sé sá eini. Youtube er t.a.m. samfélagsmiðill, sem og Twitter, LinkedIn, Foursquare, Myspace, Tumblr, Flickr og, sá sem gleymist hvað oftast, Wikipedia. Enn frekar eru mjög margir af hefðbundnari miðlum farnir að bjóða upp á tengingu við samfélagsmiðla eða upp á svipaða virkni og samfélagsmiðlar, t.d. athugasemdakerfi DV og Eyjunnar, læk hnappar á Mbl og Pressunni. Svo loks eru allar þær þúsundir bloggsíðna og bloggkerfa hluti af heimsmynd samfélagsmiðla. Á myndinni hér að ofan má sjá eitthvað af þeim þúsundum möguleika sem standa netnotendum til boða. Á þessum stöðum fer samtalið fram - samtalið um vörumerkið þitt. 

Áður en þú ákveður því að fara og taka þátt á samfélagsmiðlum er mikilvægt að meta hvaða leið er best fyrir þig. Það er nefnilega til einskis að stofna Facebooksíðu ef enginn hefur tíma til að uppfæra hana eða eiga í samræðum við þá sem læka hana. Hið sama gildir um Twitter, ef það er enginn sem svarar notendum þar þá er allt eins gott að sleppa því að stofna aðgang þar. Byrjaðu á því að skoða hvað þú hefur í höndunum, hvers lags efni (efnið skiptir gríðarlega miklu máli) og hvað þú hefur fram að færa. Vörumerki eru mismunandi, sum henta vel á Facebook, önnur á Twitter, enn öðrum nægir bloggsíða. Allt fer þetta eftir eðli vörumerkisins og þess efnis sem þú hefur í höndunum. Næsta skref er að meta hvar viðskiptavinir/neytendur þínir eru, hvar fer samtalið um vörumerkið þitt fram. Bílaáhugafólk er lítið að skoða dempara og loftsíur á Facebook, það er því ekki víst að það gangi mikið að vera með síðu þar. Hins vegar eru til fjölmörg blogg, spjallsvæði og síður sem fjalla um slík mál. Þetta tvennt, þ.e. efnið og hlusta eftir því hvar neytendur þínir eru, ætti því að stýra því hvaða leið þú velur. 

Á Íslandi er ótrúlega hátt hlutfall þjóðarinnar á Facebook. Hins vegar, ef vel er að gáð, þá hafa fjölmörg fyrirtæki og vörumerki valið að fara aðrar leiðir. Facebook er hins vegar oft notuð til að styðja við þá leið sem valin er, t.d. væri hægt að skoða hvernig tískublogg landsins hafa verið notuð af innflytjendum snyrtivara en flest stærstu bloggana (t.d. Pjattrófurnar) eru með Facebook síðu til að ýta undir meiri umferð og meiri sýnileika bloggs þeirra, á svipaðan hátt og fréttamiðlarnir eru að gera með því að bjóða notendum Facebook upp á að deila hlekkjum á greinar þeirra. Pjattrófurnar eru auk þess með sína eigin síðu, þar sem birtast hlekkir á allar greinar þeirra.

Sífellt fleiri íslensk vörumerki hafa uppgötvað kosti Twitter. Þessi örbloggvefur er kannski ekki stærsti samfélagsvefurinn á Íslandi, en hann hefur hins vegar mjög marga kosti. Fyrir það fyrsta þá hentar hann mjög vel fyrir þjónustuver eða í CR (e. Customer relation). Í öðru lagi þá er auðvelt að nálgast réttan markhóp úr frá töggum (e. Hash-tags) og í síðasta lagi, þá er auðveldara að eiga í beinum samræðum við neytendur, fyrir sakir svara-kerfisins (notkun @ merkis o.þ.h.). 

Youtube er önnur stærsta leitarvélin á netinu í dag. Það er lygilegt hve mikið af efni er hlaðið upp á þann vef á hverri mínútu (síðast þegar ég heyrði tölur um það, var það um sólarhringslengd af efni á mínútu). Ef þú átt myndefni; auglýsingar, videoblogg, myndbönd; þá held ég að það sé þess virði að setja það á Youtube. Ótrúlegustu hlutir fá áhorf. Notendur eru auk þess mjög duglegir við að deila efni af Youtube, enda einstaklega auðvelt og þannig hjálpa þeir þér við að auglýsa vöru þína. Hið sama gildir ef þú átt myndir, hvort sem þær eru af vöru, viðburðum eða hverju öðru sem tengist vörumerkinu, þá getur það verið vel þess virði að skoða eitthvað af samfélagsvefunum sem snúast um myndir, t.d. Tumblr og Flickr. 

Það eru til, auk þeirra miðla sem ég hef nefnt hér, ótrúlega margir aðrir möguleikar. Facebook er því ekki einhver endanlegur sannleikur, það þurfa ekki allir og ættu ekki allir að vera á þeim miðli, sérstaklega ekki þegar möguleikarnir eru jafn margir og raun ber vitni. Eins hafa mjög mörg vörumerki farið þá leið að taka þátt í samtalinu á mörgum stöðum, þ.e. eru sýnileg á mörgum samfélagsmiðlum.

Að velja réttan miðil fyrir vörumerki er því á vissan hátt eins og að velja einn hnoðra úr landslagi skýjanna. Það er ekkert endilega gefið að þú veljir rétta skýið í fyrstu tilraun, en þá er bara að endurtaka leikinn, meta efnið og hlusta hvar neytendur eru. Þegar þú hefur valið rétta skýið, þá er að hlusta á hvað fólk er að segja og taka þátt í samtalinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Faðir, spunaspilari, vefstjóri, rithöfundur

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband