Vandræði kirkjunnar

Þjóðkirkjan, líkt og svo margar aðrar stofnanir í samfélaginu í dag, á í vök að verjast. Hart er sótt að henni úr ýmsum áttum; mótmæli vegna tengsla hennar við ríkisvaldið, kynferðisbrotamál og nú síðast ummæli presta um þagnarskylduna. Í öllum þessum málum finnst mér kirkjan vera sjálfri sér verst, bæði virðast talsmenn hennar ekki nægilega vel skólaðir í framkomu í fjölmiðlum og hafa því miður lítið annað sagt en það sem virðist ýta að miklu leyti undir enn frekari óánægju.

Svona áður en lengra er haldið með þessa umræðu, þá finnst mér rétt að hafa nokkra hluti á hreinu. Fyrir það fyrsta, þá er ég trúlaus og ekki skráður í neitt trúfélag. Ég hef samt ekkert á móti trúarbrögðum, finnst reyndar mikilvægt að þau séu til staðar í samfélögum, þó svo ég hafi ekki þörf fyrir þau persónulega (rétt eins og það er þörf fyrir samgöngur með skipum, þó ég forðist eins og heitan eldinn að stíga um borð í slík farartæki). Ég er fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju, en fyrst og fremst á þeim forsendum, að ég tel að í landinu eigi að ríkja trúfrelsi og ríkisvaldið megi ekki, þrátt fyrir sögu, menningu og önnur rök, gera einu trúfélagi hærra undir höfði en öðrum. Með þessa fyrirvara í huga, lesist framhaldið. 

Þjóðkirkjan er býsna gömul stofnun. Siðaskipti urðu hér 1550 (óháð því hvað margir kristnir menn virðast halda, þá hefur lútherskur siður ekki verið hér við lýði í 1000 ár, heldur aðeins 460 ár, sem er skemur en sá kaþólski var við lýði) og má segja að hér hafi ríkt einn siður fram á 20. öld. Þá breyttist samfélagið, upplýsingar um önnur trúarbrögð urðu aðgengilegri og ýmsir sértrúarsöfnuðir, hvort sem þeir voru kristnir eða annarrar trúar, komu til sögunnar. Það má því segja, að með breyttri samfélagsgerð hafi trúarlíf landsmanna breyst og Þjóðkirkjan gefið eftir. Skilst mér að kaþólski söfnuðurinn sé sá næst stærsti hérlendis, en um 75-80% landsmanna séu skráð í Þjóðkirkjuna. Hlutfallið hefur því lækkað um a.m.k. 1/5 á síðastliðnum 100 árum. Það ber þó að taka fram, að skráning einstaklinga í Þjóðkirkjuna er sjálfvirk og segja þessar tölur því ekkert um fjölda þeirra sem trúa á Guð og iðka þá trú sína innan Þjóðkirkjunar. 

Eins og flestir vita, þá hefur kirkjan verið mikið í fréttum undanfarið vegna málum tengdum kynferðisbrotum, fyrst var þáverandi biskup sakaður um kynferðisofbeldi, loks sóknarpresturinn á Selfossi sakaður um ósiðlega tilburði gagnvart stúlkum og nú hefur Reykholtsklerkur stigið fram með þá skoðun sína að þagnarskylda presta sé landslögum æðri, hvort sem um ræðir smávægilegar syndir eða miklar. Í öllum þessum tilfellum hafa prestar verið duglegir við að gagnrýna hverjir annan og ef glögglega er rýnt, sem og tekið mið af fréttum af kirkjuþingum, má sjá að kirkjan er í raun klofin að innan. Í henni takast á valdablokkir, íhaldssemi á móti hófsemi og svo þeir sem standa mitt á milli. 

Þjóðkirkjan stendur á miklum krossgötum. Samfélagið hefur þróast, vaxið og dafnað, en kirkjan, sem í eðli sínu er íhaldssöm, hefur setið eftir og er í raun að úreldast. Viðhorf sem voru gjaldgeng fyrir 100 árum eru ekki viðurkennd í dag. Jafnvel Gunnar í Krossinum hefur séð villu sína og viðurkennt að hafa farið offari gegn samkynhneigðum í umfjöllun sinni um þá. Kirkjuþing felldi tillögu um áréttingu á tilkynningarskyldu presta í barnaverndarmálum árið 2007. Hvað segir það manni? Er Reykholtsklerkur bara talsmaður stórs hóps presta? Eru þeir kannski margir þeirrar skoðunar að ekki eigi að uppljóstra um brot gegn börnum sem viðmælendur þeirra treysta þeim fyrir, af því þagnarskyldan er æðri landslögum? 

Til að Þjóðkirkjan geti með réttu kallað sig það, verður hún að taka mið af því hvernig þjóðin er hverju sinni, hver þjóðin er hverju sinni og hvert þjóðin stefnir hverju sinni. Án þess að vera samnefnari þjóðarinnar, vera henni til fyrirmyndar og bjóða einmitt upp á allan þann kærleik sem Kristur kenndi, er Þjóðkirkjan kirkja útvalinna og tekur aðeins mið af gildum, viðmiðum og skoðunum þeirra. Þjóðin er breytt, hún er ekki eins og fyrir heilli öld. Sérstaklega á þessum tímum, þar sem reiði, úthrópanir og neikvæðni tröllríða öllu, er mikilvægt að kirkjan sé samnefnari alls þess besta sem kristni hefur upp á að bjóða, ef hún á að lifa af sem Þjóðkirkja. 

Prestar í Þjóðkirkjunni, líkt og starfsmenn margra ráðuneyta og stofnanna, þurfa að taka til í sínum ranni. Forsvarsmenn þurfa að vera hafnir yfir vafa, talsmenn þurfa að geta komið skilaboðum sínum áleiðis með réttum og skilmerkilegum hætti og starfsmenn þurfa að vera traustsins verðir. Svarta sauði þarf að flokka frá fénu. Það þarf að fara fram hreinsun, út með það gamla og inn með það nýja. Ef Þjóðkirkjan ræður ekki við það verkefni, er ég hræddur um að bæði munu margir skrá sig úr kirkjunni sem og verður krafan um aðskilnað enn háværari. Gangi hvort tveggja eftir, eru dagar Þjóðkirkjunnar þá ekki taldir? Og er það af hinu góða?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Kirkja má vera fyrir þá sem hana sækja en það á ekki að vera á okkar herðum að reka slíkar stofnanir sem ekkert vilja með hana hafa.

Ómar Ingi, 23.8.2010 kl. 22:31

2 Smámynd: Þorsteinn Mar Gunnlaugsson

Þar er ég alveg sammála þér.

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, 23.8.2010 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband