Af góðum fréttum og fyrirætlunum

Það styttist sífellt í sumarfríið. Mikið er ég farinn að hlakka til að komast aðeins frá tölvunni, út, drekka bjór, veiða lax og lesa fullt af bókum. Njóta þess að vera með Urði og geta hreinlega gert það sem okkur langar til að gera. Annars hefur þessi mánuður verið alveg einstaklega góður, ég hef fengið alveg fullt af góðum fréttum og standa þó tvær alveg sérstaklega upp úr.

Í fyrsta lagi, þá var hringt í mig á mánudaginn fyrir viku síðan og mér tjáð, að ég hefði unnið smásagnasamkeppni. Vikan ákvað að halda ástarsagnasamkeppni og þó ég sé ekki beinlínis að skrifa þess háttar bókmenntir ákvað ég að senda inn sögu, þar sem ást tveggja einstaklinga kemur við sögu. Og viti menn, hún var talin best. Ég hafði í mesta lagi gert mér vonir um að fá birtingu í Vikunni, alltaf gott að fá eitthvað birt, en sagan féll dómnefndinni greinilega í geð. 

Ég var varla farinn að snerta jörðina eftir þessar fréttir þegar Ástrós, systir mín, og Hugi, kærasti hennar, ákváðu að bjóða mér og Urði til Tenerife í heila viku. Ég varð hreinlega orðlaus yfir góðmennsku þeirra og örlæti. Fyrir vikið hætti ég við að fara á Þjóðhátíð en er í staðinn á leið til Kanarí að sleikja sólina, leika mér í vatnsrennibrautagörðum, drekka bjór á ströndinni og njóta lífsins. 

Nú, síðan ákvað ég að hætta rembast í fótboltanum, er hvort eð er aldrei valinn í lið, sem er þó í 3. deild og neðst í sínum riðli síðast þegar ég vissi, sem ætti nú að segja sitthvað um hæfileika mína í þessari íþrótt. :D Þess í stað fer ég á hverjum degi og syndi 1 km. Ætlunin er að reyna vinna eitthvað á þessu sixpacki sem flúði fyrir löngu og í staðinn kom tunna sem er ekki alveg jafn vinsæl. Nú skal þó tekið á því og það kemur mér á óvart, hvað mér þykir þetta ekki leiðinlegt...amk. ekki jafn leiðinlegt og að fara út að skokka. Hugsanlega spilar það inn í, að geta sest í pottinn á eftir og skoðað ... mannlífið ;)

Annars er ég bara farinn í sumarfrí næsta föstudag og ætla mér að halda mig frá tölvum í þennan mánuð, amk. eins mikið og ég get. Sjáum til hversu vel það gengur :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband