Fimmtudagur, 24. nóvember 2011
Dragons of Hope 2. hluti: Dauðir og dauði!
Hetjurnar hittust í Góðrarvonardal og ræddu saman um næstu skref. Þær voru sammála um nauðsyn þess að tryggja flóttafólkinu örugga leið í gegnum fjallgarðinn. Veturinn var værri og brátt yrði erfitt að sjá öllu þessu fólki farborða og gæðin í dalnum myndi þrjóta fyrr en síðar. Þær gengu því á fund ráðsins og lögðu fram þau vopn og verkfæri sem keypt höfðu verið af dvergunum. Tók ráðið fegins hendi við þeim. Var þar m.a. rætt um þann möguleika að hugsanlega leyndist lykill að norðurhliði Thorbardin í Skullcap, þeim illa stað. Hvatti ráðið, að Eben frátöldum, hetjurnar til að leita lykilsins og gaf þeim 2 sólarhringa til að ljúka því verki. Hetjurnar tókust það verkefni á hendur og ákváðu þegar kvölda tók að skipuleggja förina. Var þar ákveðið að álfarnir, Gilthanas og Lauranthalasa, skildu dvelja með flóttafólkinu og hafa auga með Eben. Pieter reyndi að ræða við þann ráðsmann en komst lítið áleiðis, að öðru leyti en því að fá hann til að tryggja að þeir frjálsu myndu verja hóp flóttafólksins ef kæmi til fyrirsátar drekamanna.
Um morguninn var lagt af stað. Fengu hetjurnar nokkra fríska einstaklinga úr hópi flóttamannanna til að fylgja þeim. Rétt áður en hópurinn kvaddi dalinn ræddu hetjurnar við Briar, leiðtoga sléttufólksins, og færðu honum glæsilegt og seiðmagna sverð að gjöf. Hann tók við henni og fannst nokkuð til sín koma. Þoka var yfir dalnum og sléttu Dergoths. Þegar hetjurnar komu niður að henni sáu þær að þar hafði greinilega verið mikil orrusta fyrir löngu síðan, því á vígvellinum lágu hauskúpur, ryðgaðar brynjur og ónýt vopn. Lorieth hafði lesið sér vel til um Fistandantlius, illa seiðskrattann sem átti að hafa búið í Zhaman Keep sem síðar varð þekkt sem Skullcap, hann var því ekki lengi að átta sig á hvar þennan skelfilega stað var að finna á sléttunni.
Þegar hetjurnar höfðu áttað sig á hvernig ætti að komast inn var ákveðið að Dalía og Vestri skildu gæta inngangsins til að byrja með, þar sem hættan var alltaf sú að drekamenn kæmu aftan að þeim. Nægilega var slæmt orð á þessum stað; enginn hefur snúið þaðan á lífi og þess háttar sögur; að hetjurnar vildu ekki gera sér erfiðara fyrir. Thol leiddi því hópinn inn í fjallið. Þau komu inn á gang þar sem voru tvennar dyr, annars vegar í norður og hins vegar suður.
,,Nú væri gott að vera með nefið hans Vestra," sagði Adran og kímdi. Thol benti á syðri dyrnar og voru þær opnaðar. Þar var annar gangur og á honum 6 dyr. Hetjurnar opnuðu þær fyrstu hægra megin og gerðu sig líklegar til að opna þær næstu þegar allar dyrn opnuðust af sjálfu sér og út svifu skuggumklæddar verur. Augu þeirra lýstu rauðu og illvilji þeirra var næstum áþreifanlegur. Réðust verurnar fram og börðu harkalega frá sér. Hetjurnar stigu fram fyrir skjöldu og báðu aðstoðarmenn sína úr hópi flóttafólksins að halda sig til hlés. Verurnar reyndust þó erfiðari en í fyrstu virtist. Brash steig fram og skoraði á verurnar að ráðast á sig. Þær létu ekki bjóða sér það tvisvar og áður en Brash gat sagt: Við steðja Reorx! hafði þeim tekist að fella hann. Hetjunum rann kalt vatn milli skinns og hörunds, þar sem Brash var þeirra hvað brynvarðastur. Thol hljóp til og læknaði Brash á meðan aðstoðarmennirnir og Adran létu örvum rigna yfir verurnar. Lorieth kallaði fram öfluga seiði og smátt og smátt tókst hetjunum að vinna sigur á verunum. Ekki þó fyrr en Brash hafði verið felldur einu sinni til viðbótar af verunum.
Eftir að hafa leitað í herbergjunum og uppgötvað að ekki voru aðrar leiðir þaðan var ákveðið að opna norðurdyrnar. Þar komu hetjurnar inn í stórt og mikið opið svæði, en fyrir miðju þess var stór járnstigi, sem lá niður í myrkur undirdjúp fjallsins. Hetjurnar skoðuðu sig um og ákváðu að rannsaka frekar þessa hæð áður en farið yrði neðar í virkið. Í fyrsta herberginu sem þær komu í sáu þær risastóra glitrandi og gegnsæa kúlu, þar sem brons dreki var rétt í þann mund að fara gleypa drísil. Eftir að hafa uppgötvað að um einhvers konar tímakúlu var að ræða settust þeir Lorieth og Thol niður og spáðu í hvernig hægt væri að rjúfa álögin. Þeir vissu að Fistandantlius var mikill tímaseiðskratti og að seiðurinn sjálfur væri gríðarlega öflugur. Brash leiddist eitthvað að bíða, tók upp litla steinvölu og kastaði í kúluna, sem sprakk með háu POPP hljóði.
Drekinn át drýsilinn í einu munnbita. Þegar hann uppgötvaði að hann var ekki á þeim stað sem hann var síðast, leit hann undrandi í kringum sig og sá hetjurnar.
,,Hæ," sagði hann. Hetjurnar litu hver á aðra, nokkuð hissa og tóku undir kveðju hans. Þær spjölluðu við drekann og komust að því hann hét Blaize. Hann hafði verið að berjast gegn her drýsla þegar hann kom að helli einum og ætlaði að éta þennan drýsil. Síðasta sem hann man eftir var að svartklæddur maður birtist í hellinum. Blaize ákvað að fylgja hetjunum, í það minnsta kosti um stund. Hetjurnar sáu að í herberginu var ýmislegt áhugavert, galdravopn og brynjur sem þær hirtu. Við næstu dyr ráðlagði Blaize þeim að fara ekki inn. Þá komu þær í helli þar sem var neðanjarðarvatn og eyja í því miðju. Thol var í seiðmögnuðum stígvélum og hljóp yfir að eynni en honum sýndist þar vera ýmis fjársjóður.
Hins vegar var þarna einnig dreki, skuggar láku undan vængjum hans og þegar hann sá hetjurnar blés hann miklu myrkri yfir þær. Hins vegar virtist hann hætta árás sinni þegar hann sá Lorieth. Kom á daginn að fyrri ábúandi í þessu virki hafði gert samning við drekann um að verja það þar til hann sneri aftur. Lorieth reyndi að skipa drekanum fyrir, en hann var ekki á því að taka við skipunum, enda var samningurinn milli hans og Fistandantlius mjög sértækur. Varð Lorieth að lokum svo pirraður á drekanum að hann arkaði út úr hellinum og sagði: ,,Ég er þá ekkert snúinn aftur!" Á sama tíma hafði Thol læðst með stærstan hluta fjársjóðsins út.
Í öðru herbergi fundu hetjurnar beinagrind sem hélt annars vegar á mjög flottu sverði og hins vegar korti af Zhaman keep. Einnig var ákveðið að kíkja inn í herbergið sem Blaize mælti ekki með og eftir stutta könnunarferð þanga inn sáu hetjurnar þann kostinn vænstan að fara aftur þaðan, enda mikið af illum verum og aðstæður afar óhagstæðar.
Þá var komið að því að fara niður. Mikið var rætt um með hvaða hætti væri best að fara niður og sýndist sitt hverjum. Að lokum varð það ofan á, að láta Adran síga niður í reipi. Í fyrstu gekk það ágætlega en þegar hann var kominn um 200 fet niður réðust illvígar og risastórar mýflugur að honum. Kippti hann í reipið til merkis um að hann yrði dreginn upp og mátti þakka fyrir að komast upp á lífi. Flugurnar eltu hann hins vegar ekki upp í gegnum stigaopið, heldur héldu sig í myrkrinu. Því ályktuðu hetjurnar að þær hlytu að forðast ljós og sendu Pieter niður með kyndil. Þegar hann var kominn um 250 fet niður réðust flugurnar á hann og þegar hetjunum tókst að draga hann upp, höfðu þær dregið úr honum allt blóð og tókst hetjunum ekki að koma honum aftur til lífs.
Meginflokkur: Spil og leikir | Aukaflokkur: Vefurinn | Facebook
Um bloggið
Spunaspil
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.