Föstudagur, 28. október 2011
Dragons of Flame 4. hluti: Á flótta!
Nú var úr vöndu að ráða fyrir hetjurnar. Eben sloppinn og eflaust myndi hann láta vita af þeim. Nú reið á að finna fanganna sem fyrst. Laurana lét bróður sinn, Gilthanas, vita af því, að þarna niðri hjá þeim væri konunum haldið föngum. Var það hið fyrsta verk hetjanna, að hleypa þeim út. Þar kynntust hetjurnar Marittu, saumakonu frá Haven, en hún var óformlegur leiðtogi kvennann. Dalia, Pieter, Laurana og Gilthanas ræddu við hana og komust að því að börnin voru í gæslu eldgamals rauðs dreka að nafni Flamestrike. Skammt frá lá Elistan, slasaður að sjá, og hljóp Pieter þangað. Hann beitti kröftum sínum og tókst að koma gamla manninum til meðvitundar.
Á meðan Gilthanas, Dalía, Pieter og Laurana ræddu við Maritta og Elistan fóru Adran, Lorieth, Thol, Vestri og Brash að öðrum dyrum á sömu hæð. Í gegnum dyrnar heyrðu þeir undarleg hljóð og litu undrandi hver á annan. Lorieth opnaði dyrnar. Langur viðurdrumbur stóð lárétt á stórum stein fyrir miðju herbergisins. Við hvorn enda var disklaga hólf. Á gólfinu við hlið hólfanna var hrúga stórra steina og háir viðarkassar. Stórar strádýnur hörðu einnig verið lagðar á gólfið við hvorn enda drumbsins. Tylft smávaxinna vera hlupu í kringum drumbinn, hrópandi og kallandi hver á annan. Þeir voru með of stóra hjálma og nokkrir skörtuðu sverðum í slíðrum. Þar sem sverðin voru lengri en fætur þeirra, drógust þau eftir gólfinu og flæktust oft á milli fóta þeirra sem þau báru, með tilheyrandi afleiðingum.
Eftir skamma stund sáu þeir tilgang þessa. Ein af verunum, sem augljóslega voru gully dvergar, klifraði upp í hólf, sem lét þann enda síga niður að gólfi. Hinum megin stóðu þrír dvergar upp á stórum steinum og hélt hver um sig á einum slíkum. Aghar dvergarnir slepptu steinunum ofan í disklaga hólfið á þeim enda, sem olli því að sá endi féll hratt og sendi dverginn hinum megin hátt í loft upp. Síðan lenti hann á strádýnunum við hinn enda drumbsins. Þetta kallaði fram mikil hlátrasköll. Dvergarnir hlupu aftur til og gerðu sig klára á ný. Þetta endurtóku þeir aftur og aftur og alltaf hafði það sömu áhrif. Lorieth andvarpaði og greip um höfuð sér. Þeir gengu inn í herbergið og þá tóku dvergarnir eftir þeim. Í fyrstu kom fá á þá, en síðan gekk einn þeirra, með rautt lak bundið um sig sem skikkju, fram og kynnti sig sem Highklad Drooth, konung þessa virkis. Hetjurnar reyndu að fá dvergana til að hjálpa sér en allt kom fyrir ekki.
Skyndilega var blásið í lúður einhvers staðar í virkinu. Augljóst var að Eben hafði látið vita af þeim. Hetjurnar hlupu til og ákváðu að skipta liði. Dalía skyldi, ásamt Gilthanas og Laurana, dulbúa sig sem konur úr hópi fanganna og reyna komast til barnanna. Vestri og Lorieth ætluðu að reyna komast upp með keðjunni stóru sem var í innsta herberginu þarna í kjallara virkisins. Adran vildi reyna hvort honum tækist að lokka uppvakningana í Sla-Mori til að ráðast á drekamennina í virkinu. Thol, Brash og Pieter ætluðu að fela sig og sjá hvort þeir fengu tækifæri til að láta til skarar skríða gegn óvinunum.
Lorieth og Vestri hlupu inn að keðjunni. Vestri hleypti ham sínum og breytti sér í fugl á meðan Lorieth klifraði upp keðjuna. Eftir nokkra stund voru þeir komnir upp og sá hvar ljós lak inn um rifu eina á veggnum. Þeir heyrðu raddir berast þaðan. Báðir litu þeir í gegnum rifuna og sáu niður í stóran sal. Þessi risavaxni salur var eitt sinn hásætissalur fyrir tignarmenni álfa og dverga sem byggðu virkið. Háar súlur standa meðfram veggjum, stórt hásæti úr marmara var fyrir miðju salarins. Miklir speglar voru á veggjum sem láta salinn líta út fyrir að vera enn stærri en hann var. Fyrir miðjum vesturveggnum voru miklar dyr, 3 metra háar og hálfur fimmti metri á breidd.
Maður sat í hásætinu með ógurlega grímu. Rödd hans var gróf, eins og sandpappír dregin eftir stálskildi. Hann ávarpaði feitlagna veru sem skreið frammi fyrir honum: Toede, þú viðbjóðslega rotta, þér virðist einkar lagið að klúðra jafnvel einföldustu áætlunum. Það að ræna álfaprinsessunni var nógu heimskulegt, en að leyfa Mishakal konunni að lifa og boða erindi góðu guðanna meðal manna! Finndu þetta fólk og dreptu það. Færðu mér höfuð þeirra áður en dagur er liðinn. Hlustaðu vel á það sem ég segi, Toede, annað hvort fæ ég höfuð þeirra á fati eða þitt.
Veran frammi fyrir háherranum skreið enn frammi fyrir honum og byrjaði að tala, með aumkunarverðum vælutóni: Yðar allra háæruverðasti, ég biðst auðmjúklega afsökunar. Hefði ég aðeins vitað að sú sem þú leitar væri í vagnalest minni, hefði ég sjálfur séð til þess að færa þér höfuð hennar, rétt eins og ég færði þér Laurana. Hefði ekki verið fyrir svik eins þessara ömurlegu og heimsku gully dverga, væri þetta fólk nú á hnjánum frammi fyrir þér og grátbæði þig um miskunn.
Þegiðu öskraði háherrann. Þú hefur fengið aðvörun. Farðu nú! Síðan sagði háherrann lágt en ákveðið: Toede... Ekki bregðast mér aftur!
Skyndilega var hrundið upp dyrum þar á vestri veggnum. Stór dreki ruddist þar í gegn og óð beint að rifunni. Hann blés eldi þar í gegn, greinilega orðið hetjanna var. Lorieth og Vestra tókst með naumindum að komast undan.
Á sama tíma hljóp Adran að Sla-Mori þangað sem uppvakningarnir voru. Hann fór í engu óðslega og bjó sig undir að þurfa að hlaupa undan þeim. Hann opnaði dyrnar inn að ganginum þar sem grafir þeirra voru en gangurinn var tómur. Eftir nokkra umhugsun steig inn á ganginn og sá þá hvar uppvakningarnir skriðu úr gröfum sínum. Hann hljóp af stað en þeir virtust ekki elta hann út fyrir dyrastafinn. Adran reyndi hvað hann gat en allt kom fyrir ekki.
Samtímis stóðu Pieter, Thol og Brash við læstu dyrnar sem Eben hafði sloppið í gegnum og heyrðu umgang hinum megin. Þeir hlupu aftur inn í kjallarageymsluna til að komast í felur. Varðsveit hádrýsla komu og gengu í alla klefa, m.a. þann þar sem Dalía, Laurana og Gilthanas voru. Er þeir opnuðu litu þeir grimmir á svip í kringum sig, eins og þeir væru að leita einhvers. Maritta steig fram og krafðist þess að konurnar fengu að fara og gefa börnunum að borða. Var það samþykkt og sendur einn vörður með þeim. Dalía og hin tvö laumuðu sér í hópinn með konunum. Gengið var upp langan stiga og inn í stórt herbergi. Í því voru engin húsgögn. Um allt herbergi lágu viðarleikföng, sem skorin höfðu verið út í líkneski dúkka, vagna, bolta og annarra leikfanga. Bogagöng á austurveggnum virtust myrk. Við hlið þeirra var viðarhurð. Við suðvesturhornið voru dyr, sem virtust liggja út, því ferskt loft streymdi inn um glugga á þeirri hlið. Sagði Maritta að börnin væru í innsta herberginu, en til að komast í það þyrfti að fara um göngin og í gegnum herbergið þar sem drekinn lægi. Hetjurnar gengu í gegn og sáu þá hvar risastór, rauður dreki lá sofandi. Í fyrstu fundu þær til örvæntingar en þegar í ljós kom að ekki var drekinn auðvakinn, þá héldu þær áfram.
Brennheitur eldurinnn frá drekanum bræddi þó járnið í keðjunni hjá Lorieth og Vestra og slitnaði hún. Um leið og keðjabitarnir flugu í allar áttir heyrðust miklar drunur utan úr virkisgarðinum. Þeir hlupu sem fætur toguðu út úr herberginu. Á sama tíma mættust Adran, Thol, Pieter og Brash. Þegar Dalía og álfasystkynin heyrðu brakið og brestina ákváðu þau að nýta tækifærið, hugsanlega var þetta eini möguleiki þeirra að sleppa með börnin. Þau flýttu sér inn í herbergi barnanna og sögðu þeim að hafa mjög hljótt um sig. Drekinn hafði ekki rumskað við lætin, sem betur fer. Börnin hlýddu í einu og öllu. Þau elstu héldu á þeim yngstu og hljóp hópurinn, sem taldi um 180 börn, hljóðlega í gegnum herbergi drekans. Þegar um 25 börn voru enn í herberginu, sneri einn drengur sér við og sagði lágt: ,,Bless, dreki frænka!" Við það hins vegar opnaði drekinn augun og var heldur betur undrandi. Hún leit á Maritta, sem stóð frosin af skelfingu.
,,Hvert ertu að fara með börnin, Maritta," spurði hún reið. Maritta kom ekki upp neinu orði. Dalía reyndi að telja drekanum trú um að þau væru að færa börnin í öruggara skjól, en drekinn trúði því ekki. Flamestrike rak upp mikið öskur. ,,Þið takið ekki börnin frá mér!"
Það heyrðu Pieter, Thol, Brash og Adran og sáu í hendi sér að þetta var líklega eina tækifæri þeirra til að sleppa. Þeir opnuðu inn til kvennanna og skipuðu þeim að fylgja sér, því verið væri að frelsa börnin. Síðan hlupu þeir af stað upp stigann, beint í flasið á varðsveitum drekamanna og hádrýsla. Lorieth og Vestri höfðu verið á hæðinni fyrir ofan að ræða næstu skref, þegar þeir heyrðu skelfilegt öskur drekans. Þeir hlupu því út á virkisvegginn og sáu niður í garðinn þar fyrir neðan. Greinilegt var að hliðið, sem keðjan hafði haldið uppi var fallið niður og þar með var sú leið lokuð. Karlmennirnir þræluðu í hlíðum Tharkadan fjallanna en þeirra gættu margir drekamann, sem störðu undrandi á svip á hliðið.
Gilthanas og Laurana leiddu barnahópinn úr í virkisgarðinn, á meðan Dalía reyndi að tryggja að drekinn gerði þeim ekki mein. Flamestrike beit Dalíu og varð það slæmt sár. Hún náði hins vegar að losa sig og komast út í gegnum göngin. Upphófst nú mikil orrusta. Pieter, Thol, Brash og Adran tryggðu undankomu kvennanna. Dalía, Laurana og Gilthanas hjálpuðu börnunum að komast undan. Mennirnir í hlíðinni réðust gegn fangavörðum sínum þar. Lorieth og Vestri stukku niður af virkisveggnum og slógust í hópinn, hjálpuðu konunum að komast undan.
Skyndilega, með háværu braki og brestum, braust Flamestrike í gegnum tvöföldu dyrnar á herbergi hennar. Stór drekinn renndi sér í átt að föngunum. Börnin mín! Þið takið ekki börnin mín, sagði hún hásri röddu. Látið mig fá börnin mín, krafðist hún aftur er hún klifraði niður hlíðina í átt að virkisgarðinum.
Þá kom annar rauður dreki í ljós fljúgandi. Hann öskraði og lenti á fjallshlíðinni. Á baki drekans var hinn ógnvænlega drekaháherra, Verminaard, andlit hans enn falið grimmúðlegri grímu. Rödd hans bergmálaði í garðinum. Ég hef þolað óhlýðni ykkar lengi og nú í síðasta skipti. Þrælar eru ódýrir og gnótt til af þeim. Hve oft hef ég varað ykkur við og gert ykkur afleiðingar uppreisnar gegn mér ljósar? Fólkið öskraði af hræðslu og flúði í ofboði upp í dalinn. Rödd hans, sífellt reiðilegri, skall á hópnum sem þruma. Nú mun ég drepa ykkur öll. Ég drep börnin ykkar. Ember, brenndu þau! Brenndu þau öll! Blóðlostinn skein úr augum Embers er hann öskraði af græðgifullri gleði, öskur sem var í senn lamandi og ógnvænlegt.
Er Ember hóf sig til flugs hægði Flamestrike á framgöngu sinni. Hún hristi höfuð sitt ráðvillt, leit frá börnunum að vængjaða böðlinum fyrir ofan þau. Skyndilega var sem augu hennar fengu séð, því hún starði á Ember. Nei, segir hún, þú munt ekki drepa börnin mín! Hún beindi höfði sínu upp að Ember og blés skelfilegum eldi, beint á háherrann og reiðskjóta hans. Verminaard var umvafinn reyk og eld og Ember öskraði af undrun. Allt í einu voru drekarnir í miklum bardaga, líkamar þeirra skullu á hlíðum fjallanna. Hnullungum og grjóti rigndi yfir virkisgarðinn.
Elistan hrópaði hátt og skýrt: ,,Flýjum í skarðið!" Allir sem einn tóku þrælarnir og fangarnir að flýja. Hetjurnar reyndu að halda óvinunum í skefjum, um leið og þær hlupu með hópnum undan drekunum tveimur sem börðust á banaspjótum fyrir ofan virkið. Pieter, Laurana og Dalía tóku börn í fangið um leið og þau hlupu áfram. Brash, Vestri, Lorieth, Gilthanas og Adran sáu til þess að drekamenn og hádrýslar myndu ekki veita þeim eftirför.
Eftir nokkra stund voru þau hólpin, að minnsta kosti í bili. Brash tók að sér að leiða hópinn og finna öruggt skjól fyrir nóttina. Þegar hópurinn hafði gengið í um tvær klukkustundir komu þau að dalverpi sem var að mestu hulið skógi. Haustsólin settist aftan við fjallshrygginn um leið og 800 manns komu sér fyrir í stóru rjóðri milli hárra fura. Þreyttir og svangir, en engu að síður ánægðir með ótrúlegan flótta þeirra. Þetta litla dalverpi myndi að veita þeim skjól í nótt frá þeim drekamönnum sem sendir höfðu verið á eftir hópnum. Ekki þurfti að óttast að morgundagurinn muni ekki færa í för með sér fjölda nýrra vandamála. Kaldur vindurinn var áminning um veturinn sem senn gengur í garð. Þarna var lítinn mat að finna en marga munna þurfti að metta. Vestri notaði kraft sína til að auka mjög á vöxt berja, sem dugði þeim sem næring þetta kvöld. Hvítur máninn reis og stjörnurnar komu í ljós.
Meginflokkur: Spil og leikir | Aukaflokkur: Vefurinn | Facebook
Um bloggið
Spunaspil
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.