Fimmtudagur, 8. september 2011
Dragonlance: Dragons of Despair (2. hluti)
Hetjurnar þræddu sig á milli járnviðartrjáa og vafningsjurta í votu Fúlafeni. Laufþekja trjánna var þykk og megnaði sólin ekki að skína í gegn. Aðeins á örfáum stöðum náðu geislar hennar í gegn og mynduðu eins konar sólstafi í annars ömurlegri mýrinni. Þær fundu loks troðna slóð sem lá á milli nokkurra eyja í feninu, sem var orðið býsna djúpt á köflum enda hetjurnar komnar langt frá hlíðum Austurfjalla. Lagðar höfðu verið brýr á milli eyjanna, sumar voru bundnar saman úr fúnum greinum á meðan aðrar voru ekkert meira en bolir fallinna járnviðartrjáa.
Hópurinn færði sig varlega yfir að einni brú, en þá sá Adran að eitthvað bærðist í þykkum fenjagróðrinum á hinni eyjunni. Áður en hann náði að vara vini sína við stukku fram 6 drekamenn. upphófst mikil orrusta. Drekamennirnir voru ólíkir þeim sem hetjurnar höfðu áður barist við, notfærðu sér eldingargaldra. Hetjurnar réðust fram af hugprýði en innan tíðar sáu þær að drekamennirnir voru stórhættulegir andstæðingar. Strax við fyrsta áhlaup særðust Thol og Brash lífshættulega og þurfti Pieter að beita allri sinni lækningahæfni við að binda um sár þeirra. Drekamennirnir létu eldingagöldrum rigna yfir hópinn. Lorieth kallaði fram öflugan seið, sem hefti mjög för óvinanna. Hetjunum tókst loks að ýta einum drekamanni út af brúnni, sem opnaði leið fyrir Daliu. Hún hljóp fram og barði af miklu afli einn drekamanninn sem sprakk með miklum látum. Um leið sprakk annar og rigndi yfir hópinn beinflísum og öðrum ófögnuði. Drekamennirnir héldu uppteknum hætti og studdust aðallega við eldingargaldra. Hins vegar voru hetjurnar komnar með yfirhöndina og réðust áfram yfir brúnna og út á eynna sem drekamennirnir höfðu undir sig. Skipst var á nokkrum höggum, spörkum og göldrum og ekki leið á löngu þar til að síðasta drekamaðurinn reyndi að komast undan. Pieter setti stein í slöngvu sína og skaut að honum. Steinninn hæfði drekamanninn mitt á milli herðablaðana og féll hann fram fyrir sig, þar sem hann sprakk eins og hinir höfðu gert.
Hetjurnar notuðu tækifærið og hvíldu sig. Adran læddist á undan og sá á eyju skammt frá þeirri sem þær voru á, hvar margir drekamenn voru samankomnir fyrir framan þar sem leit út í fyrsti eins og dreki! Hann lét vini sína vita og var ákveðið að fara varlega nær. Ætlunin var að laumast framhjá drekamannahópnum og drekanum og reyna komast lengra inn í fenið. Það hefði líklega tekist, ef Pieter hefði ekki stigið á trjágrein og brotið hana. Nokkrir drekamenn sáu hann og sendi æðsti drekamaðurinn, sem virtist gegna hlutverki prests eða stjórnanda einhvers konar, nokkra drekamenn til að taka Pieter höndum. Sló í brýnu með hópunum og var hart barist. Drekamennirnir, sem voru eins og þeir sem hetjurnar höfðu sigrað úti á sléttunni þegar þær björguðu Náttskugga, voru harðir í horn að taka en það eru hetjurnar einnig. Þær stukku allar Pieter til bjargar og náðu að yfirbuga drekamennina á skömmum tíma. Þá sáu þær að drekinn var gerður úr tágum, virtist vera einhvers konar skurðgoð.
Áfram var haldið í gegnum fenið og komu hetjurnar að stað þar sem slóðin greindist í tvennt. Annars vegar hélt slóðin áfram í gegnum fenið, suður á bóginn en hins vegar norður inn á tígulsteinalagt torg. Ákváðu hetjurnar að fara frekar inn á torgið, enda minnti það Adran mjög á þann stað sem hann hafði fengið blákrystalsstafinn afhentan. Inni á torginu, sem var að mestu í rúst, var þó ein heilleg bygging. Voru dyr hennar gullslegnar en fyrir ofan þær var merki, sem Dalia hafði áður séð í draumum sínum. Var áfram haldið en farið að öllu með gát, skipti hópurinn liði, til að geta betur falið sig. Adran hljóp þó beint yfir torgið. Er hann kom að því miðju, þar sem var stór og mikill brunnur, skaust upp úr brunninum, eins og kolsvört elding, gimmileg og skelfileg óvætt. Eins og dreginn beint úr fornsögunum, var þar kominn kolsvartur dreki með útþanda vængi og leit í kringum sig. Allar sem ein stóðu hetjurnar stjarfar, dolfallnar að sjá svo tignarlega, goðsögulega skepnu. Drekinn spúði sýruskýi yfir Adran og Dalíu og þá var sem hetjurnar kæmu til sjálfrar sín. Þær sáu í hendi sér að drekinn var þeim of sterkur andstæðingur og hlupu því sem fætur toguðu í átt að heillega húsinu. Drekinn réðst að Brash og barði duglega á honum. Vestri kom Brash til varnar á meðan hinar hetjurnar hlupu inn í húsið.
Inni í húsinu var falleg marmarastytta sem sýndi konu, með slegið hár og í síðum kyfli. Um háls hennar var men sem bar sama merki og var fyrir ofan dyrnar inn í húsið. Dalía heyrði rödd í höfði sér og virtist þar konan tala við hana. Hún sagði, að guðirnir hefðu ekki yfirgefið mannfólkið heldur hefði það yfirgefið guðina. Röddin sagði einnig að undir þessu húsi væri að finna fornmunur sem nefndist Diskar Mishakal, en þeir geymdu upplýsingar um visku guðana. Dalía yrði að finna diskana og tryggja að viska þeirra kæmist til leiðtoga fólksins.
Inni í hliðarherbergi voru nokkrar verur að ræða saman. Adran læddist nær og komst að raun um, að þar væru nokkrir gullý dvergar, að rífast um hvar einhverjar leynidyr væru. Brash og Vestri reyndu að ræða við dvergana en sáu fljótlega að það var í besta falli erfitt að ná einhverjum vitrænum upplýsingum frá þeim. Thol notaði krafta sína til að binda dvergana vináttuböndum við sig og eftir það varð aðeins auðveldara að ræða við þá. Hetjurnar voru þó þreyttar og sárar eftir langan og erfiðan dag í feninu og ákváðu að hvíla sig áður en þær héldu niður undir bygginguna í leit að Diskum Mishakal.
Meginflokkur: Spil og leikir | Aukaflokkur: Vefurinn | Facebook
Um bloggið
Spunaspil
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.