Allir um borð!

CHA23106aMeghan McLean frá Chaosium mun heimsækja Hugleikjafélagið í lok mars og því ætla ég að fjalla örlítið um eitthvað af vörum þeirra þennan mánuðinn. Flestir spunaspilarar ættu að kannast við spunaspilið Call of Cthulhu, enda hefur það verið álíka lengi til og Drekar&Dýflissur. Kerfið er komið á 6. útgáfu og ólíkt D&D þá er ennþá hægt að nota ævintýri sem gefin voru út fyrir eldri útgáfur án þess að þurfa að leggjast í mikla breytingavinnu. Ég nota t.d. alltaf 5. útgáfu af reglubókinni, er bara búinn að merkja inn í hana hverjar breytingarnar eru. 

Kerfið er prósentukerfi, þ.e. það eru ákveðnar líkur á því að persónum takist einhver aðgerð og notast er við 100-hliða tening til að skera úr um hvort og hversu vel persónum tekst til. Heimurinn er byggður á sögum H.P. Lovecraft, sem flokkaðar hafa verið sem hrollvekjur eða furðusögur. Nokkrir rithöfundar hafa fylgt í kjölfar hans, t.d. Clark Ashton Smith, A. Derleth, Stephen King og Clive Barker, en kerfið sjálft sækir þó mest í brunn Lovecraft. Ævintýri gerast því flest á 2. og 3. áratug síðustu aldar, en einnig er hægt að spila við aldamótin 1900 og í kringum 1990. 

Chaosium má eiga það, að fyrirtækið er duglegt við að gefa út ævintýri. Mörg þeirra eru virkilega skemmtileg og í þetta skipti ætla ég að fjalla sérstaklega um Hryllingslestina eða Horror on the Orient Express. Eins og nafnið gefur til kynna þá gerist ævintýrið um borð í lest, en lestin er einkum notuð af yfirstéttarfólki sem vill ferðast í munaði um suðurhluta Evrópu. Það á sér stað á 3. áratugnum og flakkað er á milli nokkurra borga í Evrópu. Lenda hetjurnar eða rannsóknarmennirnir í því, að beiðni fornvinar eins þeirra, að fara um borð í lestina og þurfa að safna hlutum af dúkku einhvers konar sem hefur sterkt tengsl við eina af hinum skelfilegu verum sem Lovecraft skapaði. Ekki nóg með það, heldur eru líka ýmsir meðlimir sértrúarsafnaðar á eftir dúkkunni sem og ýmsir þjóðsagnakenndir óvættir.

Ævintýrið er vel útbúið af hálfu Chaosium, eins og þeirra er síður. Mikið er af úthendum, sem hjálpa til við að koma upp réttri stemningu meðal spilara. Einnig er stórt kort af lestinni og ítarlegar leiðbeiningar um hvernig haga skuli ferðalaginu, gera það eftirminnilegt og í raun mætti segja að hjálpartól fyrir stjórnendur séu fjölmörg. Sagan sjálf er í nokkrum bókum, pappírinn er vandaður og maður fæ á tilfinninguna að maður sé með efni frá þessum tíma í höndunum. Lagt hefur verið upp úr því að allar myndir og teikningar endurspegli einnig 3. áratuginn.

call-of-cthulhu-horror-on-the-orient-express_130473213917

Saga ævintýrisins er að mínu mati mjög skemmtileg, en ekki gallalaus. Ég hef bæði spilað þetta og stjórnað því og eftir á að hyggja, þá hefði ég viljað gera ákveðna lagfæringar á sögunni, en engin þeirra er stórvægileg. Þetta er þó, og best að það komi fram, ekta lestarteinaævintýri. Aðalpersónurnar eru um borð í lest og það er erfitt fyrir þær að komast hjá því að ferðast með henni. Gengið er út frá því í ævintýrinu að hetjurnar ferðist alltaf á milli staða með lestinni, þó svo að á sumum stundum væri fýsilegra að fljúga. Jafnvel kemur fram á einum stað, ef rannsóknarmennirnir ákveða að fljúga, þá hrapi flugvél þeirra skammt frá ákveðnum stað þar sem hetjurnar geta komist aftur um borð í lestina. Ég velti því fyrir mér, hvort ekki hefði verið æskilegra að láta ævintýrið gerast fyrr á öldinni, þannig að leikmenn hafi ekki þann valkost að fljúga. Annar galli við söguna, er að í Swiss geta aðalpersónurnar fundið Mythos bók. Þegar ég stjórnaði ævintýrinu fann ein persóna bókina, rændi henni og eyddi öllum stundum í að rannsaka hana. Viðkomandi var því kominn með býsna gott í Mythos hæfileikanum.

Uppbygging ævintýrisins er þó góð og er flott spennumögnun í því. Lokakaflinn er æsispennandi og hrollvekjandi og sem spilari var þetta ævintýri mér ofarlega í huga sem eitt af skemmtilegustu Call of Cthulhu ævintýrum sem ég hef spilað. Sem stjórnandi held ég að ágætlega hafi tekist upp og spilararnir voru spenntir fyrir ævintýrinu. Enda fær maður ótrúlega mikil tæki í hendurnar til að tryggja að upplifun spilara sé sem best.

Því miður er ekki hægt að kaupa þetta ævintýri í Nexus, en hægt er að panta það beint frá Chaoisum sem og finna það á Ebay.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Spunaspil

Höfundur

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Faðir, spunaspilari, vefstjóri, rithöfundur

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 0786932546.01.LZZZZZZZ
  • SkullcapMountain
  • SkullcapMountain
  • ...llustration
  • ...lay_1620698

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband