Klassísk þemu í persónusköpun fyrir D&D

90036

Ég held, að flestir sem byrja að spila D&D ungir prófi sig áfram með nokkur þemu í persónusköpun áður en þeir finna sér þá týpu sem þeir vilja helst spila sem oftast. Vissulega er ekkert algilt í þessu, en ég að minnsta kosti hallast mjög oft að því spila svipaðar týpur af persónum, þó svo ég sé ekki endilega að spila sömu stöðuna (class). Þemu þessi er býsna mörg en mig langar til að fjalla um nokkur þeirra. 

Sá sterki

Sumir spilarar hafa mikla þörf fyrir það að vera sá sterkasti í hópnum, þ.e. vera sú persóna sem stæltastur og gerir mestan skaða. Stöðurnar geta verið stríðsmenn, barbarar, skógarmenn, varðmenn eða jafnvel prestar, en yfirleitt ekki stöður sem kasta göldrum og treysta á aðra þætti í bardögum en hreinan og kláran líkamlegan kraft. Slíkar persónur eru oft leiknar þannig eins og hurðir séu þeirra helsti óvinur og beri að útrýma, því helst á að eyðileggja þær allar (enda góð leið til að sýna styrk sinn). Einnig er vinsælt að bjóða mönnum í keppni í sjómanni eða öðrum leikjum er byggja á styrk þegar hópurinn kemur á bar eða gistihús. Sá sterki lætur öðrum eftir að eiga samskipti við annað fólk, en er meira sú týpa sem lætur verkin tala. Oftar en ekki er sá sterki ágætur í að ógna fólki en það er líklega eini félagslegi hæfileiki hans. Þegar komið er í dýflissur vill hann iðulega ganga fremstur í flokki, enda er þá líklegra að hann komist í kynni við ófreskjur og hurðir. Slíkar persónur eru oft vopnaðar þannig að skaðinn sé sem mestur, kasta helst ekki minni teningum en tíu-hliða teningi í skaða. Oft heldur leikmaður þess sterka utan um hve mikinn skaða persóna hans gerði í hverjum bardaga og spyr stundum hina spilarana hvort þeir hafi gert jafn mikinn skaða. 

Ef sá sterki birtist í hópnum þínum og er til vandræða, þá eru til nokkrar leiðir til að  fást við hann. Í fyrsta lagi er ágætt að láta allar hurðir vera úr adamantium og með spikes. Þá meiða þær hann meira en hann þær. Láttu skrímsli vera góð í glímubrögðum (grabble) og byrja alla bardaga á því að taka hann hálstaki og binda niður. Hafðu gildrur þannig hann lenti títt í að falla langt niður og taka skaða af því (ef hann lendir í dýflissu þar sem eru margar gildrur, sérstaklega í kringum hurðir, þá mun sá sterki færa sig smátt og smátt aftar í hópinn). 

Sá kynsvelti

Ég lenti einu sinni í því á móti að rétta leikmanni persónu sem var munkur og hann ákvað að spila hann þannig, að þessi munkur hafi alla sína tíð búið í klaustri, væri rétt sloppinn út og hefði þar af leiðir mikla þörf fyrir kynlíf. Ég veit reyndar ekki hvernig hann hafði komist upp á 15. reynslustig (level), ef hann bjó bara í klaustrinu og barðist við gínur og félaga sína. Hvað um það, viðkomandi leikmaður reyndi því við allar kvenkyns aukapersónur. Öðru hvoru detta spilarar í þennan gír, að persónur þeirra þurfi nauðsynlega að fá sér á broddinn og láta þá eins og þeir hafi verið kynsveltir um langa hríð. Allar aðstæður eru notaðar og tengdar við kynlíf á einn eða annan hátt. Já, er álfaprinsessan heit? Ég ætla að reyna við hana. Ég hef lent í þessum aðstæðum, því miður. Það er eins og sumir spilarar reyni meira að fá á broddinn í spilunum en raunveruleikanum. Sá kynsvelti getur verið af hvaða stöðu og hvaða kynþætti sem er.

Ef þú lendir í því sá kynsvelti birtist í ævintýri hjá þér og er til vandræða, þá eru til nokkrar leiðir til að fást við hann. Ein leið er sú, að leyfa honum að komast upp með það til að byrja með en snúa því síðan upp í eitthvað sem hefur skelfilegar afleiðingar bara fyrir hann, t.d. gæti álfaprinsessan, eftir að hafa margbeðið hann um að láta sig í friði, gefið eftir en þegar allt er komið í gang kastað á sjálfa sig galdrinum barkskin, sem tryggir að hinn kynsvelti geti hreinlega ekki stundað kynlíf í býsna langan tíma. 

Kynskiptirinn

elf

Það er ekkert að því að spila hitt kynið. Vissulega getur það stundum verið ruglandi fyrir hina spilarana og stjórnandann, en það er í raun ekkert sem stendur í vegi fyrir slíkri persónusköpun. Hins vegar dettur sumum spilurum í hug að spila í raun sömu kventýpurnar. Þær eru tvenns konar, annars vegar litlar anime-legar, saklausar skólastelpur en geta þó barið frá sér í bardögum, hins vegar femme fatale, mjög kynæsandi, lostafullar og duglegar að táldraga karlmenn. Í báðum tilfellum er nær undantekningalítið um að ræða manneskju, eladrín, hálf (half-elf) eða álf. Af hverju? Jú, í báðum tilfellum þurfa persónurnar að vera mjög sexý og einhverra hluta vegna passa dvergar, hálf-orkar, dýrmenn (shifters) eða aðrir kynþættir inn í þetta þema. Í fyrra tilfellinu er yfirleitt um einhvers konar bardagamann að ræða, þessar persónur styrk og bardagahæfileikana á sér. Þær eru klæddar í brynjur sem sýna vel löguð brjóstin og eru opnar á maganum sem sýnir naflann, jafnvel mjög stuttum hringjabrynju pilsum og háum, þröngum leðurstígvélum. Hin týpan er meira í ætt við þjófa, farandmenn (bard) og jafnvel seiðskratta (sorcerer). Hún er hugsanlega aðeins skynsamlegar klædd en skólastelpan. Háu, þröngu leðurstígvélin eru þó á sínum stað, því það er óskrifuð regla með kynskiptinn, að láta sjást í ofanverð læri og upp að mjöðmum. Leður er hins vegar svolítið sterkt í þessu þema, jafnvel smá gotneskja líka. 

Ef kynskiptirinn birtist í ævintýri hjá þér og er til vandræða, þá er klassískt að láta óvini gera árás á þau svæði sem eru ekki varin. Það er reyndar örlítill mínus á árásina, en á móti kemur þá fær kynskiptirinn ekki brynjubónus sinn. Nú, svo hef ég heyrt af slíkum persónum sem lentu í kalsárum á innanverðum lærum sökum undarlegs klæðaburðar í ævintýrum upp á jöklum og þá er ekki lengur alveg jafn töff að vera í þröngu háu leðustígvélunum.

Sá morðóði

Mér finnst oft, þegar ég fæ nýja spilara til mín sem eru að komast í snertingu við spunaspil í fyrsta, kannski annað sinn, sem þeir fái svona brjálæðisglampa í augun og finnst eins og þeir eigi að geta allt og komast upp með það. Það er svo alltaf einn og einn sem vex ekki upp úr þessu, heldur er haldinn óstjórnlegri þörf fyrir að drepa alla þá sem ekki gera eins og þeir segja. Þetta þema passar við alla kynþætti og allar stöður en er mjög oft annað hvort stríðsmaður, skógarmaður eða þjófur. Sá morðóði er oftar en ekki frekar venjulegur að flestu leyti og það er í raun ekkert sem útskýrir hvers vegna leikmaður ákveður að stinga upp á því sem lausn við öllum félagslegum vandamálum, að annað hvort gera aukapersónur það sem hópurinn leggur til eða þær verða drepnar. Jafnvel geta leikmenn sem búa til slíkar persónur valið að persóna þeirra sé með gott innræti (good alignment), en hvernig þetta fer saman finnst mér frekar illskiljanlegt.

Sá morðóði getur verið til vandræða í ævintýrum, eiginlega oftar en ekki. Ég legg því eftirfarandi til. Leyfðu viðkomandi að drepa einhvera aukapersónu. Láttu síðan handtaka viðkomandi og dæma til dauða fyrir morð. Einnig er hægt að láta hópinn rannsaka morðið og komast að því að sá morðóði framdi það og kom með því í veg fyrir að persónurnar gætu öðlast eitthvað sem skiptir þær miklu máli (upplýsingar, galdravopn, peninga). Þar færðu upplagt tækifæri til að láta hópinn annað hvort húðskamma viðkomandi spilara eða jafnvel færa persónuna til yfirvalda, sem dæma hana síðan til dauða.

---

Þetta eru bara örfá þemu sem birtast í persónum spunaspilara og stundum geta þau jafnvel blandast saman, t.d. gæti sá sterki verið líka morðóður. Auðvitað á stjórnandi að reyna búa til aðstæður sem þar sem allar aðalpersónurnar fá notið sín en stundum geta þessi þemu komið upp og verið til vandræða. Þá er gott að geta gripið í taumana og leyft spilurum að komast að því í gegnum spuna að sú hegðun sem fram fer er ekki endilega æskileg.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Spunaspil

Höfundur

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Faðir, spunaspilari, vefstjóri, rithöfundur

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 0786932546.01.LZZZZZZZ
  • SkullcapMountain
  • SkullcapMountain
  • ...llustration
  • ...lay_1620698

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband