Föstudagur, 18. febrúar 2011
10 einfaldar senur sem geta komið spilurum úr jafnvægi
Ég velti mikið fyrir mér hrollvekjum og tengdum spunaspilum. Hvernig er hægt að vekja með spilurum hroll? Hvernig er hægt að hræða þá? Hvernig er hægt að koma þeim úr jafnvægi, þannig vakna til umhugsunar? Til eru þúsund leiðir og hefur hvert stjórnandi án nokkurs vafa sínar aðferðir. Ég nota stundum þessi litlu atriði, einföld smáatriði sem geta þó orðið svo stór í huga þess leikmanns sem spilar þá persónu sem á í hlut. Ef þú gefur gaum að tækifærum sem felast í þessum litlu hlutum, þá áttu eftir að sjá margar leiðir til að koma spilurunum úr jafnvægi. Þó skiptir einnig máli að tryggja, að hlutirnir hangi saman við meginsögu hvers ævintýris fyrir sig.
Hvað um það, hér eru tillögur að nokkrum senum, sem hægt er að nota í hvers kyns spunaspilum.
1. Stytta
Aðalpersónurnar ganga inn á torg í þorpi eða borg sem þær hafa ekki áður heimsótt og á því miðju er stórt stytta. Hún er mjög myndræn og sýnir stóran og mikinn mann, með grimmúðlegt vopn. Andlit styttunnar er nákvæmlega eins og ein aðalpersónan. Á platta á stalli styttunnar stendur: X hinn grimmi og ártal sem sýnir að hann dó fyrir nokkur hundruð árum.
Fyrir utan hve viðbrögð bæjar- eða þorpsbúa kunna vera, þá hlýtur að vera mjög óþægilegt að sjá styttu af sjálfum sér þar sem kemur fram að dánardægrið var fyrir nokkrum öldum, svo ekki sé nú minnst á viðurnefnið.
2. Börn
Aðalpersónurnar sjá hóp af börnum leika sér. Þegar þau taka eftir aðalpersónunum hætta þau að leika og stara á móti. Öll eru þau með eins ör, sem nær yfir vinstra augað sem er alveg hvítt, þar er enginn augasteinn.
Það er sagt að augun eru spegill sálarinnar og fyrir vikið er öll afskræming á þeim frekar fráhrindandi. Sérstaklega þegar kemur að börnum. Eins getur undarleg hegðun barna verið mjög hrollvekjandi, t.d. ef hópurinn væri úti í snú-snú í hellirigningu án regnfata.
3. Fölsk glaðværð
Aðalpersónurnar koma inn á stað, þar sem allir eru gríðarlega glaðir. Í fyrstu er þetta ekkert undarlegt, en eftir því sem líður á og sífellt fleiri eru hlæjandi, brosandi og kátir yfir öllu sem gerist, verður sendan undarleg og jafnvel ógnvekjandi.
Að hitta fólk sem er ekki heiðarlegt getur verið mjög pirrandi, hugsaðu þér þá að ganga inn á bar þar sem allir eru falskir og allir falskir á eins máta.
4. Trúður
Aðalpersónurnar koma á stað þar sem trúður eða einhvers konar hirðfífl tekur á móti þeim, í stað t.d. þjóna eða þjónustufólks.
Terry Pratchett lýsti einu sinni trúðum þannig, að fólk hlæji að þeim fyrst og fremst af stressi. Maður óttist sífellt að verða fyrir barðinu á þeim. Hið sama gildir um spilara. Af hverju ætti einhver að vera með trúð eða hirðfílf í hlutverki þjóna? Hvað ef hann hrekkir mína persónu? Fæ ég skaða við það?
5. Endurtekning
Aðalpersónurnar lenda í því, að sjá sömu manneskjuna aftur og aftur. Hún virðist þó ekki taka eftir þeim.
Þetta atriði er mjög einfalt en getur haft gríðarleg áhrif. Manneskjan veit ekkert af aðalpersónunum, kannast ekkert við að hafa séð þær áður, jafnvel þó að þær hafi haft einhver samskipti við viðkomandi áður. Gæti verið kaupmaðurinn í einum bæ en barþjónn í þeim næsta, svo ferjumaður í þeim þriðja.
6. Skordýr
Ein aðalpersónanna verður vör við að fluga ein sækir mjög í sig. Hún slær hana frá sér, en skömmu síðar eru þær orðnar tvær. Allar aukapersónur verða varar við skordýr á viðkomandi, slá kónguló af öxl persónunnar, benda henni á járnsmið á stigvélinu o.s.frv.
Þetta kemur ekki bara viðkomandi leikmanni úr jafnvægi heldur líka öðrum. Í fyrstu er þetta fyndið, en þegar viðkomandi stendur í fluguskýi, þá hættir þetta að vera fyndið. Eins þegar aukapersónur eru farnar að forðast hópinn vegna þessa.
7. Þögn
Þegar aðalpersónurnar koma á einhvern stað verða þær varar við mikinn klið áður en þær koma á hann. Um leið og gengið er inn, þá þagnar allt og fólk starir á þær. Það tekur auk þess drykklanga stund fyrir fólk að byrja tala saman aftur á sama hátt og það gerði áður. Þetta gerist ekki bara einu sinni, heldur í hvert sinn þar sem þær koma inn á stað þar sem eru fleiri en 2-3 aukapersónur.
Þetta er gamalt trix, en virkar ofboðslega vel. Ég gerði þetta einu sinni við hóp sem ég var að stjórna og einn spilarinn varð að lokum brjálaður yfir því að geta ekki komist að því af hverju þetta gerðist. Ef ég man rétt, þá vorum við að spila CoC 1890's og það var svartur maður í hópnum. Ástæðan var nú ekki merkilegri en svo, en nóg til að koma hópnum úr jafnvægi, því spilararnir tengdu þetta strax við eitthvað Cthulhu-legt.
8. Dauði
Hvar sem aðalpersónurnar koma, þá finnast fljótlega dauð gæludýr, hundar, kettir, fuglar, jafnvel fiskar drepast á óútskýranlegan hátt.
Í fyrstu virkar þetta ekki ógnvekjandi. En þegar leikurinn hefur gerst nokkrum sinnum og ágerist í hvert sinn, þá verður þetta frekar ógnvekjandi. Þá fara leikmenn að verða mjög varir um sig og sjá jafnvel skugga í hverju horni.
9. Gæludýr
Ein af aðalpersónunum lendir skyndilega í því, að öll gæludýr virðast forðast hana, jafnvel urra, hvæsa og gelta á eftir henni, án þess hún skilji í raun af hverju.
Viðbrögð hunda og katta geta stundum verið undarleg, en sérstaklega þó þegar þessi dýr bregða út af annars föstum vana sínum. Til dæmis gæti hundurinn sem er hvers manns hugljúfi og tekur á móti öllum með dillandi skotti og gleðilátum, orðið foxillur, reist kamb og gelt að einni aðalpersónanna. Og gerir svo alltaf þegar hundurinn sér hana.
10. Tækni
Í hvert sinn sem ein aðalpersónan kemur nærri einhverju tæki, hvers kyns sem það kann að vera, slokknar á því og þarf að ræsa á nýjan leik. Eftir það virkar það eins og venjulega.
Í fyrsta sinn sem þetta gerist vekur það litla eftirtekt en í tíunda skipti er leikmaðurinn orðinn frekar pirraður, sérstaklega ef illa gengur að komast að því hvers vegna þetta gerist.
---
Það er hægt að nota mun fleiri leiðir til að koma spilurum úr ójafnvægi og í enn betri tengsl við hroll- og ógnvekjandi aðstæður, t.d. nota kerfi, teningaköst og þess háttar, en ég mun fjalla síðar um þá þætti.
Flokkur: Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 13:54 | Facebook
Um bloggið
Spunaspil
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.