Fimmtudagur, 17. febrúar 2011
Besta kerfi WoTC
Wizards of the Coast er á nokkurs vafa stærsta útgáfufyrirtækið í spunaspilum í dag. Þeir keyptu TSR á sínum tima og vörumerkið Dungeons & Dragons. Þrátt fyrir að TSR hafi ekki beinlínis verið mjólkurkýr dauðans, heldur þvert á móti verið komið í töluverð vandræði, þá var og er þetta vörumerki mjög sterkt í heimi spunaspila. Ég held nefnilega, óháð því hvað manni kann að finnast um D&D, þá er það kerfi sem allir spunaspilarar prófa á einum eða öðrum tíma. Reyndar finnst mér ekkert að því, D&D fangar mjög vel það markmið spilara að fá að vera hetjur og bjarga deginum. Bæði hentar fantasían og kerfið vel til þess. Hins vegar er ég á því, að D&D 4th ed og D&D 3.0/3.5 eru frekar gölluð kerfi og langt frá því hafin yfir gagnrýni og þar af leiðir ekki bestu kerfin sem þetta fyrirtæki hefur gefið út. WoTC hefur einnig gefið út Star Wars, d20 modern og mig minnir að þeir hafi komið nærri Cthulhu d20 (sem var einhver mesta nauðgun sem ég hef séð). Það kerfi sem ég tel vera besta kerfi sem þetta fyrirtæki hefur gefið út er Star Wars Saga Edition.
Ég er forfallinn Stjörnustríðsaðdáandi. Ég fíla myndirnar, jafnvel Phantom Menace (hún er ekkert á við The Empire strikes back en góð á sinn hátt) og finnst þessi heimur sem G. Lucas hefur skapað virkilega flottur, þrátt fyrir allar sínar klisjur, en hvaða fantasíuheimur er ekki klisjukenndur. Ég hef því spilað Stjörnustríðs spunaspil allt frá því ég byrjaði að spila, fyrst D6 kerfið frá WEG, síðar fyrra kerfið frá WoTC og loks Saga Edition. Ég verð að viðurkenna að mér finnst Saga Edition vera besta SW kerfið sem ég hef spilað og fyrir því eru nokkrar ástæður.
Saga Edition er d20 kerfi og mætti í raun segja að það sé 3.9 kerfi. Það er mjög nærri 4th edition, þ.e. allt hæfileikakerfið (skills) byggist upp á því að þú sért þjálfaður (trained) í hæfileika en ekki með punkta til að deila niður á hæfileika. Persónur eru ekki með krafta (powers) eins og í 4th ed, en þess í stað er sérkunnátta (feats) enn mjög virkur þáttur í kerfinu. Persónusköpun er frekar einföld en samt endar maður nær undantekningalítið með hetju sem gæti hafa birst í einhverri myndinni og náð að skapa sér ákveðna sérstöðu.
Kerfið er mjög kvikmyndalegt (cinematískt) og það er mjög auðvelt að sjá fyrir sér það sem er að gerast. Allt gerist mjög hratt og sem dæmi mætti nefna, að Helgi Bergmann sem stýrði kerfinu á síðasta móti var með 8 spilara en fór samt í gegnum 6 bardagasenur (encounters). Ef um D&D hefðir verið að ræða, hvaða útgáfu sem er, hefði aldrei verið hægt að fara í gegnum svo margar bardagasenur. Hlutirnir gerast mjög hratt og fyrir vikið verða spilanir mjög skemmtilegar og hraðar. Í raun er hægt að ná álíka mörgum atburðum í einni spilun og sem nemur einni af myndunum. Og það er frábært!
WoTC hefur einnig gefið út bækur sem fjalla um hin mismunandi tímabil í sögu þessa heims, þannig hægt er að spila á mörgum tímabilum. Það er hægt að spila á tíma gamla lýðveldisins, í Klónastríðunum, á tímum tölvuleikjanna Force Unleashed (ég er einmitt að stýra ævintýri sem gerist á þeim tíma), á uppreisnartímum og loks í nýja lýðveldinu. Hvert tímabil hefur sinn sjarma og er í raun hægt að taka langt ævintýri þar sem leikmenn fá að spila barnabörn upphaflegu persónu sinnar.Saga Edition er ekki bara gott bardagakerfi, þar sem bardagasenurnar líða hratt og eru spennandi, heldur hefur kerfið einnig þann kost að bjóða upp á hæfileikaþrautir (skillchallenges). Sú viðbót finnst mér ein sú skemmtilegasta í D&D 4th edl, þ.e. að hægt er að leysa hluti án þess endilega að draga fram vopnin. Mér finnst t.d. mjög gaman að blanda saman hæfileikaþrautum og bardagasenu og í Saga Edition gengur það upp, t.d. gætu hetjurnar verið að brjótast út úr varðstöð keisaraveldisins, þurft að skjóta sér leið út en þegar þeir koma að útidyrunum þá eru þær læstar. Fyrir aftan þær er hópur af keisaraliðum að skjóta á þær en um leið og þær þurfa að verjast árásunum þurfa þær að brjótast í gegnum dyrnar með því að hakka sig inn í tölvukerfið, grafa upp rétt lykilorð á lásnum og slá það inn. Þetta er líka mjög skemmtilegt að gera þegar kemur að bardagasenum í geimnum, þ.e. geimskip á móti geimskipi (kem að því á eftir).
Annað sem mér finnst mikill kostur við Saga Edition og það er sá gríðarlegi fjöldi af verum (race) sem hægt er að spila. Stjörnustríð væri svo ekki jafn spennandi ef ekki væri fyrir þá staðreynd að þetta er heil geimþoka af plánetum og fjöldi vera þarf að taka mið af því. Sem betur fer, ólíkt fyrri útgáfum, þá leggur kerfið ekki upp fyrir spilara hvaða stöðu (Class) viðkomandi tegund veru ætti að spila. Auðvitað er hægt að hámarka hverja tegund en það er ekkert í kerfinu sem kallar sérstaklega á það. Persónur fá stundum +2 í ákveðnum hæfileikum ef þeir spila eina tegund umfram aðra en ekki mikið meira en það, t.d. er hægt að spila Jawa bounty hunter en það var gott sem tilgangslaust í WEG kerfinu, þar sem Jawas voru með svo lélegt STR.
Bardagar í geimnum hafa alltaf verið vandamál í Stjörnustríðs-spunaspilakerfum. Í WEG gátu þeir tekið alveg gríðarlega langan tíma og erfitt var að sjá fyrir sér hvar óvinaflaugar voru hverju sinni. Saga Edition leysir þetta býsna vel og þó svo ég hafi verið í smá stund að átta mig almennilega á því hvernig hlutirnir virkuðu, þá finnst mér í dag það vera nauðsynlegur hluti af ævintýrum að eiga bardagasenu þar sem tækin koma við sögu, hvort sem það eru geimflaugar eða hetjurnar þjóti áfram á svifhjólum (swooper bikes). Það er jú bara hluti af því sem gerir Stjórnustríð svo skemmtilegt.
Kerfið er þó ekki gallalaust (hvaða kerfi er það svo sem?). Eins og með D&D 4th edition þá munu þeir leikmenn sem eru vanir 3.0/3.5 upplifa ákveðna frelsiskerðingu í persónusköpun. Það að hafa ekki lengur hæfileikapunkta er nokkuð sem fer í taugarnar á mjög mörgum 3.0/3.5 aðdáandanum. Einnig er allt byggt á hálfri reynslu (half level) persónu, t.d. varnir og bardagageta. Þetta dregur mjög úr hámörkun persónu eða neyðir leikmenn til að hugsa hana með öðrum hætti.
Saga Edition bryddar upp á þeirri nýjung að vera með svokallaða ástandstöflu (Condition table). Þetta finnst mér gott og blessað á þegar persónur eru komnar með nægilega reynslu (+5 level) en á lægri stigum getur þetta verið algjör killer og jafnvel orðið of stýrandi í því hvernig leikmenn leika persónur sínar. Jú, það er náttúrulega second wind og allt það, en þar sem kerfið býður ekki upp á auðfengnar lækningar fyrir hetjur getur verið mjög erfitt fyrir persónu sem dettur niður um tvö þrep á ástandstöflunni í fyrsta bardaga að koma sér í nægilega gott form fyrir næsta bardaga, sér í lagi ef hlutirnir gerast hratt, eins og raunin er mjög oft. Sem stjórnandi hef ég verið frekar afslappaður hvað þetta varðar þegar ég hef verið með persónur með litla reynslu, en eftir því sem líður á fer þetta að skipta meira máli.
Í heildina er kerfið þó mjög gott og mér finnst það ná algjörlega anda Stjörnustríðs. Ég held að þeir sem gerðu kerfið hafi legið yfir myndunum og virkilega hugsað út í hvernig hægt væri að umbreyta öllu því sem þar kemur fram í spunaspilakerfi. Þeim tókst ágætlega upp. Ef þú átt ekki Saga Edition og ert aðdáandi þessara mynda og spunaspila byggða á þeim, þá hvet ég þig til að drífa þig í Nexus og ná þér í þessar bækur. Því miður hefur WoTC ekki lengur leyfi til að gefa þetta kerfi út, sem er synd. Svo er bara að rúlla upp nokkrum persónum og skemmta sér in a galaxy far away.
Flokkur: Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 11:32 | Facebook
Um bloggið
Spunaspil
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.