Mánudagur, 14. febrúar 2011
Persónusköpun í VtR
Hugleikjafélag Reykjavíkur fór í gær í gang með risastórt Vampire the Requiem ævintýri, sem á að gerast í New York. Þar munu 5 spilahópar taka þátt í hatrammri baráttu um völdin milli hinna fimm leynireglna (covenants) vampíra. Þetta verður í gangi í nokkra mánuði og verður spilað á 2 vikna fresti, þá nokkra tíma í senn. Þetta var prófað á Fenris mótinu og gekk mjög vel, að minnsta kosti svo vel að leikmenn voru mjög áhugasamir um að taka aftur þátt og eru nú um 30 spilarar skráðir. Í gær settust leikmenn niður hver með sínum stjórnanda og settu á blað persónur sínar. Þó eru nokkur atriði sem tölurnar á blaðinu ná ekki yfir, en gott er fyrir bæði spilara og stjórnendur að hafa á hreinu.
Forsaga
Allar persónur eiga sér einhverja sögu. Við komum einhvers staðar frá og einhverjir atburðir hafa leitt okkur á þann stað sem við erum stödd hverju sinni. Það er því ágætt að velta fyrir sér hvaða atburðir leiddu til þess að viðkomandi vampíra er á þeim stað sem hún þegar spilun hefst. Það er nefnilega hægt að komast að ótrúlega miklu um persónu með því að leggjast í smá hugmyndavinnu með forsögu þeirrar persónu sem maður ætlar að fara spila.
Þegar vampíra er sköpuð þarf þó að gefa gaum að tvennu. Annars vegar hvernig persónan var fyrir endurfæðinguna (embrace) og hvernig hún er eftir hana. Hvað gerði vampíran í lifandi lífi? Átti hún maka, börn, fjölskyldu, vini og starfsfélaga? Hvað starfaði hún við? Hvernig er hún í dag? Hvað varð til þess að hún var tekin í hóp vampíra? Hvers vegna var einhver vampíra tilbúin að hætta á skelfilegar refsingar vegna brota á einni af þremur reglum vampíra? Allar vampírur hljóta að hafa eitthvað fram að færa, sem aðrar vampírur, ein eða fleiri, geta grætt á því annars er ekki ástæða til að gefa viðkomandi hinna myrku gjöf.
Tengsl við umheiminn
Er vampíran enn í tengslum við ættingja, vini eða kunningja? Sinnir hún enn starfinu sínu eða lét hún sig hverfa frá öllu og öllum?
Tengsl vampíra við sitt nánasta umhverfi getur orðið stjórnendum að endalausri uppsprettu skemmtilegra ævintýra, áhugaverðra aukapersóna og atburða sem setja viðkomandi vampíru í krefjandi aðstæður. Bæði geta leynst hættur og hjálp í þessu, því vinir og kunningjar, svo ekki sé minnst á ættingja, eru oft tilbúnir að ganga býsna langt til að hjálpa manni. Leggðu höfuðið í bleyti og veltu þessum þáttum fyrir þér.
Persónuleiki
Einn stærsti kostur við Storytelling kerfið er sá, að allar persónur þurfa að velja sér einn kost og einn löst sem einkennir þær. Það er þó ekki nóg að velja bara eitt af hvoru en pæla síðan ekkert meira í því, nema þá akúrat þegar þig vantar meira willpower. Leiddu huga að því hvernig þetta birtist hjá vampírunni þinni.
Ef þú velur t.d. að vera með Charity, hugsaðu um af hverju? Var vampíran þín kannski munaðarlaus og í lifandi lífi hafði hún gaman af því að fara aftur að munaðarleysingjahælinu þar sem hún dvaldi og leika þar við og gleðja þau börn sem þar dvelja þá stundina? Ef þú velur Pride sem galla, hvernig kemur það fram hjá vampírunni? Er hún of stolt til að viðurkenna að hún hafi verið á munaðarleysingjahæli og vill ekki að neinn viti hvert hún fer stundum á kvöldin?
Það að finna sér ástæður fyrir valinu, gefur persónunni þinni meiri dýpt og leiðir að öllum líkindum til meiri ánægju af því að spila viðkomandi.
Leyndarmál
Við eigum okkur öll leyndarmál, bara misalvarleg. Sumir hafa átt slæma æsku, aðrir eiga í vandæðum með áfengi á meðan enn aðrir njóta þess að kvelja dýr. Hið sama gildir um aukapersónurnar, þær eiga sér einhver leyndarmál og komistu að þeim, er hægt að nota þau sem vopn. Búðu þér til eitt leyndarmál sem aðeins þú og stjórnandinn vitið. Um leið og þú getur komist að leyndarmálum annarra, þá er líka möguleiki á að einhver komist að þínu.
Persónusköpun er grundvöllur góðrar spunaspilunar. Ef þú gefur þér tíma til að búa til djúpa persónu, sem á sér sögu, markmið, vini og óvini, þá leyfi ég mér að fullyrða að þú eigir eftir að skemmta þér enn betur við að spila viðkomandi. Einnig er alveg á hreinu, að því meira sem stjórnandinn þinn veit um persónuna þína, því líklegra er að hún eigi eftir að spila stærra hlutverk í ævintýrunum. Fyrir stjórnanda að fá allar þessar upplýsingar um 6 persónur, er eins og að finna gullnámu. Og þegar 5 stjórnendur koma saman með upplýsingar um 30 persónur, þá er mjög auðvelt að búa til ævintýri sem verður hverjum og einum spilara ógleymanlegt.
Flokkur: Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 16:03 | Facebook
Um bloggið
Spunaspil
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.