Óvæntar aðstæður

RulesLawyer

Ég viðurkenni fúslega að stundum get ég verið lögfræðingur (rules lawyer). Sérstaklega ef upp koma aðstæður þar sem mér finnst stjórnandi vera beygja reglurnar svo plottið, eins og hann sá það fyrir sér, geti gengið upp. Það kemur nefnilega stundum fyrir að maður lendir í því, að spilarar hreinlega sjái við manni. Og hvernig á maður sem stjórnandi að bregðast við þegar upp koma óvæntar og ófyrirséðar aðstæður? Hér eru nokkur góð ráð.

Taktu pásu

Það er ekkert að því, að segja við spilara, að þú þurfir aðeins að fá að hugsa um hlutina. Ef þér er illa við að gefa spilurum slíkt færi á þér, leggðu þá til að farið sé eftir pízzu eða snakki. Á meðan gefurðu þér tíma til að hugsa um þessar nýju og breyttu aðstæður. Ég hallast þó að því að vera hreinskilinn, að segja bara að þú hafir ekki séð eitthvað fyrir og þú þurfir að fá tíma til að hugsa hvernig þú bregðist við. Það er fullkomnlega eðlilegt að þú sem stjórnandi þurfir að fá að velta öllum hliðum málsins fyrir þér og jafnvel með því að láta spilarana vita að þú sért að því, þá geta umræður sem spinnast í kringum það verið góð uppspretta hugmynda. Leikmenn eru nefnilega ekki óvinurinn og spunaspil snúast síst um að stjórnandi reyni að klekkja á spilurum, þó svo vissulega eigi ekki að gera þeim þetta auðvelt. Pása getur auk þess fært þér og spilurum ágætis andrými til að hreinsa hugann og sérstaklega ef aðstæður hafa verið spennuþrungnar. 

Lokaðu spiluninni

Það getur líka verið gott ráð, eftir einhverjar dramatíska atburði sem þú sást ekki fyrir, að hætta spiluninni og gefa sér góðan tíma til að pæla í hvernig hægt er að bregðast við, því stundum er svarið ekki ljóst. Fyrir nokkrum mánuðum var ég að stjórna Star Wars, þar sem hetjurnar voru fangar um borð í Stjörnuspilli. Þeim tókst að brjótast út úr fangaklefunum og berjast gegn ógrynni Stormtroopers á leið sinni að flugskýlinu, þar sem geimflaugin þeirra var. Þegar þangað var komið var höfuðandstæðingur (recurring villain) þar og tók þá Jedinn sig til og hljóp þangað. Eftir mikinn bardaga tókst honum að yfirbuga andstæðinginn og drösla honum inn í geimflaugina. Þetta var alls ekki eins og hlutirnir áttu að fara, ég hafði séð fyrir mér, að hetjurnar myndu skjóta sér leið inn í geimflaugina og fljúga út, hundeltir af nokkrum Tie-Fighters, sem andstæðingurinn hefði sent á eftir þeim. Hins vegar var nú allt í uppnámi, þar sem höfuðandstæðingurinn var nú á valdi hetjanna. Ég valdi því, að loka spiluninni, lét spilarana vita að þeir hefðu hreinlega séð við mér og fór heim til að gráta í koddann! Nei, annars að öllu gamni slepptu, þá þurfti ég að endurskipuleggja framhaldið með hliðsjón af þessari hetjudáð hjá þeim.

Vertu búin/-nn undir hið óvænta

Eitt af því sem ég geri mjög oft og hefur oft bjargað mér, er að vera með nokkur nöfn, staði og svoleiðis skrifað hjá mér. Hversu oft hefur maður ekki lent í, að leikmenn taka sig til að handtaka einhvern til að yfirheyra og fyrsta spurningin er: Hvað heitirðu? Og maður situr og reynir að finna eitthvað nafn í flýti, en er algjörlega tómur í hausnum. Þá er gott að vera búinn að skrifa niður svona 5-6 nöfn sem hægt er að grípa til í flýti. Eins er það með staði og þess háttar. Leikmenn gera manni nefnilega oft þann grikk að haga sér ekki eins og maður vill að þeir geri, en þá skiptir undirbúningurinn máli. Það er nefnilega ekkert til sem heitir að vera of vel undirbúinn. Ef þú undirbýrð þig vel, þá veistu hvar ramminn sem er um persónur er þröngur og hvar víður. Þar sem hann er þröngur þarftu að hafa litlar áhyggjur, t.d. eru litlar líkur á að hetja í miðri dýflissu taki sig til og fari að reyna kynferðislega við orkana sem koma æðandi niður einn ganginn. Hins vegar eru ágætar líkur á eitthvað þess háttar gerist á bæjarkránni, því þar er ramminn víður. 

2563805245_c3a755452c_o

Aldrei að banna spilara að gera eitthvað

Ef spilara langar til að kanna hæfileika persónu sinnar, þá er viðkomandi frjálst að gera það. Jafnvel þó það henti ekki endilega þá stundina, geti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir ævintýri, hinar persónurnar eða hana sjálfa. Best er að gera viðkomandi grein fyrir að þetta gæti farið illa en leyfa síðan viðkomandi spilara að fá sínu fram. Ég lenti í því á síðasta spilamóti, þegar ég var að stjórna AD&D, að leikmennirnir ákváðu að vera hetjur. Mun meiri hetjur en efni stóðu til, enda allar persónur á 1. leveli. Inni í húsi einu voru 4 ghouls. Hetjunum hafði með naumindum tekist að sleppa frá þeim, en þá stakk einn spilarinn upp á því að hópurinn sneri aftur inn og gerði út um ghoulana. Ég sagði, að það gæti haft slæmar afleiðingar og ekki væri víst að allir myndu snúa aftur úr þeim bardaga. Hópurinn ákvað engu að síður að fara aftur inn, því það væri það sem hetjur gerðu. Skemmst er frá því að segja, að þar dóu 4 hetjur en 2 flúðu.

Að banna spilara að gera eitthvað getur auk þess skapað úlfúð og hættan er einnig sú, að þá fái spilarar á tilfinningu að verið sé að fara með þá eftir lestarteinum (railroad plot). Það er nokkuð sem maður vill forðast í lengstu lög. Flest ævintýri eru á lestarteinum, með einum eða öðrum hætti, en sem stjórnandi viltu draga upp þá tálsýn að spilarar geti gert hvað sem er. Aðstæðurnar sem þeir eru í bjóða hins vegar bara upp á ákveðið marga möguleika.

Vertu óhrædd/-ur við reglurnar

Eitt af því sem stendur stundum í vegi fyrir manni eru reglurnar. Maður getur ekki gert eitthvað af því að reglurnar koma í veg fyrir það. Þá er ágætt að minnast þess, að reglurnar eru til leiðbeiningar, þær voru ekki samdar af einhverjum guðum, heldur dauðlegum mönnum og ég hef enn ekki lesið þá reglubók þar sem stendur ekki að reglurnar eru til leiðbeiningar og eru alls ekki endanlegur dómur alls, heldur er það hlutverk stjórnandans. Ef þú lendir í aðstæðum, þar sem nauðsynlegt er að beygja reglurnar, ekki hika við að gera það. Það eina sem þú þarft að gera þá, er að hafa skýringu á reiðum höndum, því spilarar eiga eftir að spyrja. Það er alltaf einn, eða tveir, sem sjá að þú ert að fara á svig við reglurnar og krefjast svara.

Reyndu þó að forðast þetta í lengstu lög, þetta á að vera eitthvað sem þú grípur til ef ítrustu nauðsyn krefur, þe. ef þú sérð engan annan möguleika í stöðunni. Sem sagt, þegar þú hefur tekið pásu, jafnvel lokað spiluninni, hefur gripið til alls þess sem þú notaðir í undirbúninginum og átt ekki annan möguleika. Gallinn við þetta er nefnilega sá, að lögfræðingarnir eiga eftir að muna þetta og það getur komið í bakið á manni. Auk þess, ef þú ákveður að beygja reglurnar, þá er hættan á lestarteinaplottinu og þeirri upplifun spilara mun meiri. Reyndu fyrst hin atriðin, ef þau ganga ekki upp, þá grípurðu til þessa ráðs og gerðu það þá almennilega. 

images (2)

Hafðu gaman af þessu

Þó svo það geti verið erfitt að láta sjá við sér, þá má maður ekki gleyma því, að hafa gaman af því. Það er nefnilega bæði heilmikið hægt að læra á því en einnig er það í raun frábært að spilarar hafi náð að gera eitthvað sem stjórnandi hreinlega var ekki búinn að gera ráð fyrir, sérstaklega ef það snýr beint að plottinu, sbr. dæmið með Star Wars hér að ofan. Þetta gaf mér tækifæri til að endurhugsa alla söguna og ég held, að úr hafi orðið mun skemmtilegra ævintýri fyrir vikið. Þannig má segja, að spilarar og stjórnendur hafi raun í sameiningu náð að skapa eitthvað skemmtilegt.

Spunaspil ganga út á skemmtun, eins og ég hef margoft komið inn á. Ef þú hefur það að leiðarljósi í allri þinni stjórnun, þá munu jafnvel óvæntar aðstæður ekki koma þér úr ójafnvægi.  

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Spunaspil

Höfundur

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Faðir, spunaspilari, vefstjóri, rithöfundur

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 0786932546.01.LZZZZZZZ
  • SkullcapMountain
  • SkullcapMountain
  • ...llustration
  • ...lay_1620698

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband