Laugardagur, 12. febrúar 2011
Persóna eða tölur á blaði?
Að skapa persónu fyrir spunaspil getur verið afskaplega skemmtilegt ferli, gefandi og spennandi í senn. Maður reynir að sjá fyrir sér, hvernig viðkomandi lítur út, hvernig persónan muni standa í bardaga og svo mætti lengi telja. Það er ýmislegt sem gefa þarf gaum að og þó svo hægt sé að henda tölum á blað á skömmum tíma, tekur langt frá því skamman tíma að skapa persónu og í spunaspilum þarf maður að spila persónu.
Einn af helstu göllum D&D 3.5 var sá, að alltof auðvelt var að setja tölur á blað, tölur sem raðað var saman eftir kúnstarinnar reglum og tryggja þannig að persónan væri afburðafær í nokkrum afviknum hlutum í stað. Því miður bauð kerfið ekki bara upp á þetta, heldur virtist hneigð kerfisins vera sú, að ætlast væri til að spilarar hámörkuðu (e. minmax) fáa hæfileika á kostnað fjölbreytninnar. Sem sagt, persóna gat verið einstaklega góð í glímu en nautheimsk og afar ólíkleg til að geta haldið uppi samræðum við aðra einstaklinga um annað en glímu og fangbrögð. Auðvitað eru til slíkir einstaklingar, en þeir eru frekar undantekningin en reglan, þannig líkurinar á því að heil grúppa af hámörkuðum einstaklingum komi saman, jafnvel í fantasíu heimi, eru afar litlar, eiginlega stjarnfræðilega litlar.
Það getur svo sem verið gaman að spila hámarkaða persónu, sérstaklega ef stjórnandi gefur manni færi á að spila í aðstæðum sem kalla sífellt eftir því, að þeir hæfileikar sem eru hámarkaðir skipta máli. Hins vegar er ég nokkuð viss um, að það verði afar leiðingjarnt að spila persónu sem er hámörkuð á einn veg ef þær aðstæður koma sjaldan eða alls ekki upp, t.d. ef glímukappinn kemst aldrei í bardaga. Þá situr leikmaðurinn uppi með persónu sem er frekar ólíklegt að nái markmiðum sínum og fyrir vikið kannski ekki beinlínis skemmtilegt að spila þá persónu til lengdar.
Hámörkun persónu nær því bara ákveðið langt. Auðvitað þarf hámörkun ekki endilega að vera slæm, því það er vel hægt að hámarka persónu án þess að það kalli á öfgar, sbr. ofangreint dæmi. Sum kerfi bjóða auk þess bara mismikið upp á hámörkun, t.d. er WoD storytelling kerfið ekki vel til þess fallið að hámarka persónur, enda neyðir kerfið þig í raun til að dreifa hæfileikum. Hið sama gera mörg af nýrri kerfum, þ.e. þeir sem hann kerfin eru farnir smátt og smátt að gera sér grein fyrir að hámörkun persónu leiðir ekki endilega til skemmtilegra spunaspils. Það er einmitt málið, spunaspil gengur út á að búa til skemmtilega persónu að spila og þó svo að til séu spilarar sem hafa gaman af því að leika hálfþroskahefta glímukappa, þá held ég að flestir spilarar vilji spila persónur sem geta tekist á við fleiri aðstæður.
Það er nefnilega munur á því hvort maður er að spila persónu eða tölur á blaði. Tölurnar endurspegla kerfið, þær segja til um hversu vel persóna getur tekist á við mismunandi aðstæður. Þær segja ekkert til um hvernig persónuleiki viðkomandi er, hver markmiðin eru, hvernig viðkomandi ólst upp eða hvað varð til þess hann valdi þá leið sem hann fylgir þegar til spilunar er komið. Það er persónusköpun. Auðvitað getur viðkomandi verið í hjólastól, með þunglyndi og vænisýki (allt gallar í WoD kerfinu sem gefa þér auka xp við persónusköpun) en einhvern veginn kom þetta allt saman til og ef þú ákveður að fara þá leið í persónusköpun, þá verður þú að sætta þig við að þetta eru jú GALLAR. Fólk á hjólastólum tekur ekki þátt í eltingarleikjum á húsþökum, þeir sem eru vænisjúkir eiga erfitt með að treysta öðrum (líka hinum aðalpersónunum) og þunglyndissjúklingar geta lent í því að komast ekki út úr húsi vegna þunglyndis.
Persónusköpun er gríðarlega skemmtilegt ferli og bara það eitt að skrifa baksögu fyrir persónu getur orðið mér til gleði heila kvöldstund. Ég reyni að byrja á því að búa til persónuna og sé síðan hvernig hún passar inn í það kerfi sem ég er að spila. Stundum koma út persónur sem eru hámarkaðar, en stundum koma úr því persónur sem eru jafnvel nokkuð langt frá því. Ég vil jú fyrst og fremst spila persónur sem ég fíla og ég er bara þannig, að ég fíla frekar að spila persónur en að spila tölur á blaði eða statblocks. Stundum eru persónurnar stereótýpískar en stundum frumlegar, en það er efni í annan pistil.
Flokkur: Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 17:23 | Facebook
Um bloggið
Spunaspil
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.